25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1484 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

27. mál, bændaskóli

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg er undrandi yfir þessum umr. og yfir því kappi, sem háttv. sessunautur minn (BÁ) leggur á, að brtt. sín nái fram að ganga. Bæði hann og fleiri viðurkenna, að fyrirkomulag búnaðarskólanna sje óheppilegt og síst við okkar hæfi frá því breytingin var gerð á þeim 1905 og þess vegna megi ekki dragast eitt árið enn að breyta fyrirkomulaginu. Þetta er nú gott og blessað út af fyrir sig. En hvað leggja þeir svo til? Um Hólaskóla ekkert frekar því, sem segir í frv. á þskj. 249. Um skólann á Hvanneyri hafa þeir að vísu flutt brtt., þess efnis, að stj. heimilist að auka þar einnig verklegt nám. En það er ekkert nema heimild og virðist hafa lítið að þýða. Því að hvaða tök eru á að knýja þetta fram, nema skólastjóranum þóknist svo? Bjargræði þessara hv. þm. er því þessi heimild, sem er algerlega komin undir geðþótta skólastjórans á Hvanneyri. Ef þessir hv. þm. vildu bæta fyrirkomulag skólanna, hefðu þeir því átt að flytja miklu róttækari till. til bóta. Jeg hefi skoðað frv. um breyting á Hólaskóla sem bráðabirgðaráðstöfun, sem ekki ætti að standa lengur en þar til búnaðarskólalögin hefðu verið endurskoðuð, því að verklega námið verður ekki aukið að neinum mun nema með gagngerðri breytingu á skólalögunum.

Mjer er nokkurnveginn sama, hvort brtt. þessara hv. þm. verða samþ. eða ekki, en einkennilegt þykir mjer, að þeir skuli gera þetta að kappsmáli, þar sem það breytir engu, nema einn viss maður vilji. skólastjórinn á Hvanneyri hefir algerlega frjálsar hendur og þetta gæti því orðið samningamál milli hans og stj., en eins þó að till. væri feld. Því að jeg efast ekki um, að stj. vilji auka verklega námið, og þar sem allir þeir þm., sem talað hafa, hafa snúist á þá sveif, getur stj. gert ráðstafanir í þessa átt, hvort sem brtt. verður feld eða ekki. Annars get jeg látið mjer þessa brtt. í ljettu rúmi liggja; jeg skoða hana sem ósk til stj., en ekki bindandi. Viðvíkjandi 1. lið till., um skilyrði námsmanna á Hólum til að komast í efri deild skólans, vil jeg segja það, að það er náttúrlega sjálfsagt að samþykkja brtt. 280 fremur, þar eð hún einskorðar ekki við það, að piltar skuli hafa lokið 8 vikna námi.

Mjer þykir eðlilegt, að menn vilji breyta búnaðarskólunum. Þeim hefði alls ekki átt að breyta eins og gert var 1905. Þar var hermt eftir öðrum, farið eftir löggjöf Dana í þessum efnum, sem sumstaðar hafa ekki fullkomna verklega kenslu. En þar læra menn verkleg störf við landbúnaðinn strax frá blautu barnsbeini. Okkar landbúnaður er aftur á móti með gamaldags sniði, svo að fáir kunna að fara með nýtísku áhöld. Þessar aðstæður voru til staðar 1905 og eru enn, svo að þess vegna þurfa bændaefni ekki síður að læra verkleg störf en bókleg fræði. Jeg skil mætavel, hvað fyrir þessum hv. þm. vakir, en þeir mega bara ekki blanda nauðsyn þessara breytinga saman við málið, sem hjer liggur fyrir. Nú getum við ekki breytt skólalögunum eins og þarf; það skortir bæði tíma og tækifæri til að gera það eins fullkomið sem þörf er á. Jeg vona því, að hv. þm. sjái, að í raun og veru er engu slept, þó að frv. sje samþ. óbreytt. Hinu hefi jeg lýst yfir, að mjer er sama, þótt 2. liðurinn í brtt. þeirra verði samþ., en jeg hefi ekki trú á því, að það hafi mikið að segja. Hvað 1. liðinn snertir, finst mjer sjálfsagt að samþ. brtt. hæstv. forsrh. Hún er ekki eins einskorðuð og gengur ekki eins langt og hin, að bægja öllum frá inngöngu í efri deild, nema þeir hafi notið átta vikna verklegrar kenslu. Það er sjálfsagt að nota húsrúm skólans og leyfa piltum að setjast í efri deild, þó að þeir hafi ekki getað stundað verklegt nám eins lengi og til er tekið. Og jeg vona, að hv. flm. sjái, að þetta er ekki þess virði að leggja slíkt kapp á það.