25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1489 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

27. mál, bændaskóli

Jörundur Brynjólfsson:

Það er tilgangslítið að vera að þrátta um ekki meira atriði en þetta. Jeg vil segja hv. þm. Barð. það, að búið er að gera grein fyrir, til hvers frv. er fram borið; ákvæði fyrstu greinar sýna, að hjer er aðeins um ráðstafanir til bráðabirgða að ræða. (HK: Á ríkisreksturinn að vera til bráðabirgða?). Það felst í frv., að það er borið fram til bráðabirgða í einu sem öllu.

Hv. 2. þm. Skagf. gekk inn á, að þetta væri bara heimild. (Js: Hefi aldrei sagt annað). Jeg átti líka meir við hv. þm. Mýr., sem ekki sagðist mundu skiljast við þetta mál fyr en yfir lyki. Það er ekki vani að taka svo til orða, nema um eitthvað mikilsvert sje að ræða. Hv. 2. þm. Skagf. sagði einnig, að fyrsti liður brtt. væri heimild, en hann ræðir um, hvaða kröfur eigi að gera til pilta um verklegt nám. Hv. þm. fer ekki rjett með sína eigin till. í þessu efni. Í a-lið frv. stendur: „að auka“ o. s. frv., og á eftir komi samkvæmt brtt. 267: „enda fái þeir einir“ o. s. frv. Jeg held því, að jeg halli ekki rjettu máli, þó að jeg segi, að brtt. 280 sje rjettara að samþykkja. En nú vill hv. 2. þm. Skagf. skjóta sjer undir 1. málsgr. 1. gr. frv. og segir, að heimildin eigi líka að ná til þeirra skilyrða, sem setja á um verklegt nám. — En hvað á þetta alt að þýða og hvað bætir það um ákvæði a-liðsins? Ekki nokkurn hlut. Annars má mönnum enn meira standa á sama, þótt brtt. nái fram að ganga, þegar það hefir komið fram, að einnig aðrir megi sitja í efri deild en þeir, sem lokið hafa þessu ákveðna verklega námi.