03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jónas Kristjánsson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir á þskj. 304, er í upphafi borið fram sem stjfrv. á þskj. 27, en hefir orðið fyrir allmiklum breytingum í hv. Nd., sem jeg fyrir mitt leyti verð að telja til mikilla bóta.

Í stjfrv. á þskj. 27 var talað um að bæta undirbúningsdeild við bændaskólana, þar sem veitt yrði almenn lýðskólafræðsla. En þetta var felt niður í hv. Nd., sem betur fór, því annars hygg jeg það hefði getað orðið til þess að draga úr búnaðarkenslunni, og einkum þó verklega náminu, sem allir eru sammála um, að þurfi að auka. Að vísu var það tekið fram í stjfrv. á þskj. 27, að auka bæri kröfurnar til verklegs náms, en það atriðið var í frv. sett skör lægra en unglingafræðslan, sem skipað var efsta sætið.

Annars vil jeg taka það fram sem mína skoðun og fjölda annara, sem til þekkja, að það var illu heilli gert að breyta fyrirkomulagi bændaskólanna þannig, að verklega fræðslan var minkuð til stórra muna, en munnlega fræðslan eða bóknámið aukið að sama skapi. Þetta varð skólunum til svo mikils tjóns, að þeir hafa borið menjar þess síðan og ekki komið að þeim notum, sem menn gerðu sjer vonir um í öndverðu. Því miður er það orðin tíska í þessu landi, eins og raunar víðar, að ekkert er talið mentun nema það, sem bóklegt er. Menn líta smáum augum á verklega námið og telja það ekki eins mentandi. Þó mun óvíða meiri þörf á verklegri fræðslu en einmitt í okkar landi, þar sem alt er svo að segja óunnið og verkefnin bíða hvert sem litið er. Þess vegna verður að leggja aðaláhersluna á verklega námið, svo að ungum mönnum lærist í tíma að meta gildi slíkrar fræðslu.

Eins og kunnugt er, var annað frv. á ferðinni í hv. Nd., sem þeir báru fram hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf., og fór það fram á að auka enn meira verklega námið við búnaðarskólana. Þessir hv. flm. vildu lögfesta 8 vikna verklegt nám sem skilyrði fyrir upptöku í efri bekk skólans. En þessu var breytt á þann hátt, að inn í stjfrv. var tekið ákvæði um, að þeir, sem stundað hafa 8 vikna verklegt nám, ganga fyrir öðrum um upptöku í efri deild skólans, og verð jeg að telja þá breytingu til hins verra.

Annars þarf jeg ekki að hafa þessi orð fleiri, því eins og nál. á þskj. 354 ber með sjer, leggur landbn. til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.