09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Ólafsson):

Jeg verð að lýsa yfir því, að landbn. hefir ekki haft neitt tækifæri til að bera sig saman um þessa allþýðingarmiklu breytingu, sem hv. Ed. hefir gert við frv. Þess vegna get jeg ekkert sagt um þetta fyrir nefndarinnar hönd; en jeg verð að minna á það, að þessar breytingar; sem gerðar voru á fyrirkomulaginu, og sem nefndin lagði til, voru allar til bráðabirgða, og þar sem milliþinganefnd í landbúnaðarmálum er ennþá starfandi, þá sýnist nefndinni ekki nauðsynlegt, að þingið ráðist í að gera þessar breytingar nú.

Jeg vil ekki gera mikinn ágreining um þetta, ef það þykir nauðsynlegt, en jeg hefði kunnað betur við, að þessu atriði hefði ekki verið hraðar svo mjög, svo sem hv. efri deild vill vera láta, með jafnófullkomnum undirbúningi og að jafnlítt athuguðu máli og þetta virðist vera.