06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla ekki að bæta hjer miklu við, en vegna þess að hv. 3. landsk. kom með fáeinar aths., er jeg álít ekki rjettar, ætla jeg að svara þeim með nokkrum orðum.

Jeg vil benda á það, að það mundi trauðla hækka álitið á vissri tegund af áætlunum, ef það væri rifjað upp fyrir mönnum, hvaða skoðun sjerfræðingar höfðu á raflýsingu Reykjavíkur um það leyti sem gasstöðin var bygð, og svo þegar áætlaður var kostnaður á rafstöðinni, fimmfaldaðist sú kostnaðaráætlun, er til framkvæmdanna kom. Að slíkum áætlunum er ekkert gagn. Mætti þar t. d. benda á kostnaðaráætlun við skeiðaáveituna, sem fjórfaldaðist í meðförunum. Viðvíkjandi því, er háttv. 3. landsk. sagði um það, hve nauðsynlegt er að byggja vel fyrir framtíðina, þá er enginn því jafnkunnugur og hv. 3. landsk., sem er verkfræðingur, hve erfitt er að sjá slíkt fyrirfram, sem dæmi þess er brúin á Gljúfurá í Borgarfirði, sem ekki er hættulaus yfirferðar að vetrarlagi, einungis vegna þess, að þessa var ekki gætt í fyrstu. Jeg mun því taka vel upp hinar föðurlegu ráðleggingar, er hv. 3. landsk. gaf mjer í þessum efnum. Annars mun hv. 3. landsk. eflaust eiga fleiri endurminningar frá starfi sínu en þessa um brúna á Gljúfurá; ein af þeim er hinn frægi Kveldúlfsbúkki, sem sjest þegar ekki er hátt í sjó og kennir sína eigin lífsspeki. En sem sagt, þegar þess er gætt, hve verkfræðingar hjer á landi, eins og t. d. hv. 3. landsk., hafa lítið reynt að fylgjast með þróun og framförum í fræðigrein sinni erlendis, þá verð jeg að álíta það virðingarvert, að gerðar sjeu tilraunir til þess af leikmönnum að leysa þau mál, er ætla mætti, að þeir (verkfræðingar) ljetu sig nokkru skifta, úr því að reynslan, sem fengin er af þessum mönnum, er ekki glæsilegri en þetta. Jeg er ekki eins bölsýnn og hv. 3. landsk., sem álítur, að þetta muni ekki takast.

Þar sem hv. þm. vjek að þeim orðum mínum, að engum mundi hafa dottið Eyrarbakki í hug í þessu sambandi, ef ekki stæði þannig á með spítalann, þá er alls ekki þörf á því að gera ráð fyrir, að ekki megi nota þennan stað. Mjer finst aftur á móti margt mæla með því, að staðurinn sje góður, þar sem hann er mjög nærri þessu stóra þorpi og þar að auki mun þar ódýrast fæði á öllu Íslandi.

Hv. 3. landsk, hjelt, að það mundi nokkuð dýrt fyrir landið að reka bú á þessum stað. Jeg álít, að ekki sje hægt að spá neinu um það fyrirfram. Aftur væri jeg algerlega á móti því, ef reka ætti mörg bú á þennan hátt. Jeg hygg, að hv. 3. landsk. viðurkenni með reynslu þeirri, er fengin er frá Vífilsstöðum, að ekkert vit sje í að hafa þarna mannmargt heimili, nema nota landið umhverfis til ræktunar, svo að fá mætti a. m. k. mjólk og kartöflur til búsins sjálfs.

Það yrði alveg að fara eftir reynslunni um það, hvort það þætti tiltækilegt að hafa stærra bú, til þess einungis að græða á því. Á svona mann mörgu heimili, sem þarna mætti búast við að yrði, er það sjálfsagt að nota vinnukraft fólksins til þess að afla fæðu, svo sem föng eru á eftir þörfum búsins.