06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg gat ekki hugsað mjer, að hæstv. dómsmrh. væri of stór upp á sig til þess að hlusta á vinsamlegar ráðleggingar mínar og tillögur í þessu máli. — sú hefir samt orðið raunin, og notar hann tækifærið til þess að hreyta í mig ónotum, eins og hans er vani bæði utan þings og innan. Jeg mun heldur ekki þreytast á að nota málfrelsi mitt til þess að svara honum, eins oft og þess þarf við.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um kostnaðaráætlanir verkfræðinga um rafmagnsveituna í Reykjavík, var bara vitleysa. Þar hefir aldrei neitt ósamræmi átt sjer stað, svo jeg viti til. Það, sem gert hefir verið, hefir verið í algerðu samræmi við áætlanirnar, nema með þeim breytingum, sem leiða af almennum verðlagsbreytingum. Hið sama er að segja um skeiðaáveituna. Þegar hæstv. dómsmrh. segir, að hún hafi orðið 4 sinnum dýrari en áætlað var, þá er það í fyrsta lagi fals vegna þess að þar tekur hann með vexti og afföll á veðdeildarlánum, sem aldrei er vani hjer á landi að reikna með kostnaði við áætlanir um mannvirki. Í öðru lagi er það fals vegna þess, að svo stóð á, að milli kostnaðaráætlunarinnar og framkvæmdanna lá hin mesta breyting, sem orðið hefir á verðlagi hjer. Kostnaðaráætlunin var gerð árið 1915, en framkvæmd á árunum 1919–'22, eða þegar mest var dýrtíðin. Hæstv. dómsmrh. má grípa til þessa eins oft og hann vill í rökþroti sínu; jeg mun ætíð endast til að leiðrjetta framburð hans.

Þá drap hæstv. dómsmrh. á það, að mannhætta væri að fara yfir brúna á Gljúfurá. Brúin er vel traust og hefir þar að auki þann kost, að hún er lagleg. (Dómsmrh. JJ: Hverjum þykir sinn fugl fagur!). Hún hefir verið gefin út á póstkorti meðal mynda af fegurstu stöðum landsins, og verð jeg að segja, að þetta kort er eitt af þeim fallegri.

Átylla hæstv. dómsmrh. til þess að koma með slettur í garð þeirra manna, er unnu að brúnni, er sú, að báðumegin við hana eru brattar brekkur og festir stundum snjó á nyrðri brekkunni á vetrum. Því er nú svo farið hjer á landi, að erfitt mun að gera við því, þótt skafl komi í veg, enda mun slíkt ekki fyr hafa verið gert að niðrunarefni í garð þeirra verkfræðinga, er vegina lögðu. Í þessu tilfelli er það nú með öllu ástæðulaust, því að fyrir mörgum árum lagði jeg ráðin á að byggja grjótgarð uppi á hæðinni til þess að beina skafrenningnum frá brekkunum og koma þannig í veg fyrir, að þar myndaðist skafl. Þetta dugði á meðan þessu litla mannvirki, sem kostaði innan við 100 kr., var haldið við. Náttúran hefir kannske ekki ennþá mint á þörfina á að endurreisa garðinn, með því að leggja duglegan skafl í brekkuna.

Kveldúlfsbúkkann getur hæstv. dómsmrh. sjálfur sjeð á sínum stað, jafnvel þótt hásjávað sje, og þarf ekki að kafa eftir honum.