07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Nefndin hefir klofnað um málið. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykt.

Eins og frv. ber með sjer, er það heimild fyrir stj. til að verja 100 þús. kr. til að kaupa land og reisa á því betrunarhús og letigarð. Eiga þar að vera góð skilyrði fyrir útivinnu. sjerstaklega mun stj. hafa í huga að nota spítalann á Eyrarbakka í þessu augnamiði. Hæstv. dómsmrh. hefir skýrt frá, að hægt sje að fá spítalann af Landsbankanum, sem á hann með öllu, fyrir um 20 þús. kr. Yrði spítalanum þá breytt eftir því sem þyrfti, en ekkert er afráðið um þetta enn.

Það er viðurkent, að það er full nauðsyn á að fá nýtt fangahús. Það, sem til er, er of lítið og mjög svo ófullnægjandi. Fangarnir, sem inni eiga að vera, munu jafnvel þurfa að senda umsóknir til þess að komast að. Nefndin álítur, að úr þessum húsnæðisvandræðum þeirra þurfi að bæta, eins og t. d. bæjarfógetinn í Reykjavík og allir, sem hafa afskifti af þessu, eru sammála um.