07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónason):

Mjer fanst í ræðu hv. frsm. minni hl. ekki gæta nægilegrar tilfinningar fyrir því, hvert ástandið er hjer á landi í þessum efnum. Betrunarhúsið er orðið alt of lítið. svo má segja, að heilir hópar af dæmdum mönnum leiki lausum hala, af því að þeir komast ekki inn í fangelsið. Fleiri og fleiri koma með læknisvottorð um það, að þeir sjeu sjúkir og þoli ekki að vera í sólarlausum klefum betrunarhússins við Skólavörðustíg. Jeg hefi áður skýrt frá því, að stjórnin hefir gert lítilsháttar tilraun til að einangra suma af þessum mönnum í sjúkrahúsi í Hafnarfirði, undir umsjón bæjarfógetans þar. En það hefir náð til alt of fárra. — Í haust skoraði almennur fundur lögfræðinga, sem haldinn var hjer í bænum, á landsstjórnina að taka þetta mál til skjótrar athugunar. Og einhver reyndasti dómari landsins greiddi frv. atkv. í hv. Ed., enda þótt hann sje íhaldsmaður. Hann sagðist gera það til þess, að sem allra skjótast yrði ráðist í framkvæmdir.

Þörfin á nýju betrunarhúsi væri svo brýn, að málið þyldi enga bið.

Mjer var það strax ljóst, að ef byggja ætti nýtt hús, hlyti það að verða töluvert dýrt, enda þótt að því ráði kunni að verða hallast. En nú stendur svo á, að landið á 50 þús. kr. í húsi austur á Eyrarbakka, sem upphaflega átti að verða spítali, en fróðir menn telja, að aldrei muni verða notað í þeim tilgangi. Nú er það ætlun mín, að athugað verði, hvort ekki megi nota þennan 120 þús. kr. hússkrokk til fangelsis. Jeg get skýrt frá því, að í haust fjekk jeg nokkra menn, bæjarfógetann í Reykjavík einn af fulltrúum hans, sem töluvert hefir kynt sjer þessi málefni, og húsameistara, ríkisins, til að fara austur með mjer og athuga spítalann. Þeim fanst sumt mæla með því að gera hann að betrunarhúsi og annað á móti, og komust að svo stöddu ekki að neinni ákveðinni niðurstöðu. Ennfremur get jeg getið þess, að í morgun hitti jeg að máli húsameistara ríkisins, sem nýkominn er úr utanför. Hafði hann það m. a. að erindi að athuga um 10 betrunarhús í Danmörku frá byggingarlegu sjónarmiði. Jeg hefi ekki enn haft tíma til að tala nákvæmlega við hann um árangur ferðalagsins. En jeg hefi gert ráðstafanir til að láta skoða erlend fangelsi nú í sumar frá fleiri sjónarmiðum.

Jeg get bætt því við, að það er sameiginleg skoðun mín og hv. þm. Seyðf., bæjarfógeta í Reykjavík, að ef það reynist hægt að nota Eyrarbakkaspítala í þessu skyni, þá sje mjög sennilegt, að eftir nokkur ár verði hann aðeins notaður sem slæpingjahæli og e. t. v. sem sjúkradeild, en nær Reykjavík yrði þá reist lítið hús, með vaxtarmöguleikum, fyrir almenna fanga. — Þetta er að vísu aðeins hugmynd okkar, sem vel má vera, að við hverfum frá við nánari rannsókn. En jeg tek þetta fram til að sýna, að jeg er ekki einn um þessar hugmyndir, heldur jafnframt einhver reyndasti dómari landsins, sem manna kunnugastur er ókostum fangelsisins í Reykjavík.

Jeg veit, að hv. frsm. minni hluta hlýtur að skilja, að ekki er til neins að breyta hegningarlögunum þannig, að slæpingsháttur sje gerður að glæp, nema hægt sje að þvinga slæpingjana til vinnu. Það gerði aðeins ilt verra að samþykkja slík lög, meðan ekki er í annað fangahús að venda en það, sem hjer er til. Það verður að fá þessa menn til að vinna, annaðhvort utan fangelsisins eða þar inni, en þá verða þeir líka að vera a. m. k. matvinnungar.

Jeg held, að háttv. 1. þm. Skagf. þurfi ekki að vera hræddur við að samþ. þetta frv. Þörfin er brýn á því, að eitthvað sje gert. Og við komum áreiðanlega ekki á annan ódýrari hátt upp heimili fyrir þessa menn. En jeg get lýst afdráttarlaust yfir því, að þessi heimild mun af núv. stjórn ekki verða notuð til að byggja nýtt fangelsi, ef spítalinn reynist ekki nýtilegur, nema leitað verði til Alþingis áður.