07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. meiri hl. með fyrirvara, sakir þess, að jeg get í raun rjettri gengið inn á nokkuð af röksemdaleiðslu hv. minni hl. — Hjer er ómótmælanlega tilfinnanlegur skortur á betrunarhúsi og mikil nauðsyn, að undinn sje bráður bugur að því að byggja það. Jeg álít, að það borgi sig meira að segja vafalaust frá hagfræðilegu sjónarmiði. Hegningarhúsið hjer er vandað hús, og það er á góðum stað í bænum, og má nota það undir opinberar skrifstofur eða hafa mikið fje upp úr því á einhvern annan hátt. Það er svipað eins og um ýmsar þær byggingar, sem hv. 1. þm. Skagf. nefndi, að það er beinn fjárhagslegur gróði að ráðast í þær, t. d. hús fyrir opinberar skrifstofur. Þótt taka þurfi nokkur lán til að koma á fót slíkum fyrirtækjum, er það ekki lengi að borga sig fjárhagslega, auk óbeins hagnaðar.

Mín hugsjón er sú, að byggja sameiginlega betrunarhús og letigarð á einhverjum afviknum stað, sem helst ætti að vera í nágrenni við Reykjavík. Því álít jeg það algerða bráðabirgðaráðstöfun, ef Eyrarbakkaspítali yrði notaður, enda þótt jeg vilji ekki setja mig á móti því, vegna hinnar brýnu nauðsynjar. En það mun sýna sig, að dýrara verður að reka þessar stofnanir, letigarðinn og betrunarhúsið, sína í hvoru lagi. Enda mun það nú óvíða gert í þeim löndum, sem lengst eru komin í þessum efnum.