21.01.1928
Efri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1558 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

25. mál, kynbætur nautgripa

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það stendur eins á um þetta frumvarp og hið fyrra (frv. um búfjártryggingar). Það er samið í samráði við stjórn Búnaðarfjelags Íslands og hlutaðeigandi starfsmenn þess.

Jeg fjölyrði ekki um þá almennu nauðsyn að stuðla að kynbótum búpenings í landinu. Það er viðurkent af skynbærum mönnum, að þær sjeu mikils til of hægfara, þrátt fyrir virðingarverða viðleitni einstakra manna og fjelaga. Er tími til kominn að geta með löggjöf hjálpað til frekari framkvæmda á þessu sviði.

Fyrir tveimur árum voru hjer á þingi sett lög um kynbætur hesta. Þau hafa borið góðan árangur, jafnvel meiri en við var búist. Framkvæmdir, stofnun kynbótafjelaga, girðingar o. s. frv., hafa orðið meiri þessi 2 ár heldur en mörg ár næstu þar á undan.

Tilgangurinn með þessu frv. er að koma sama skriði á framgang kynbóta á sviði nautgriparæktarinnar.

Jeg legg til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til landbn.