27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Lárus Helgason):

Um þetta frv. þarf jeg ekki að segja margt. Það er hvorki langt nje margbrotið. Það er fram komið af fullri þörf, þar sem vitanlegt er, að mikið er ógert af því að bæta nautgriparækt. Þau heimildarlög, sem áður hafa gilt um þetta efni, hafa ekki haft mikil áhrif til þess að ýta undir þetta mál. En það er svo þýðingarmikið, að enda þótt þessi lög hljóti að valda talsverðum erfiðleikum, virtist nefndinni ekki mega horfa í það. Nefndin er þeirrar trúar, að ef frv. þetta verður að lögum, verði mikil bót á þessu sviði. Það er ekki hægt að segja, að frv. valdi mönnum svo mikilla erfiðleika, að ekki sje við það unandi, þar sem undantekning er gerð fyrir þá, sem búa á afskektum stöðum. Yfirleitt sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en vænti þess fyrir hönd nefndarinnar, að því verði vel tekið í hv. deild.