27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

25. mál, kynbætur nautgripa

Hákon Kristófersson:

Út af ummælum háttv. frsm. (LH), að nægar tryggingar væri að finna í ákvæðum 3, og 5. gr. frv., verð jeg að taka það fram, að í þeim eru ekki fólgnar neinar tryggingar. Þar er ekkert sagt um það, að mjer sje ekki heimilt að ala hvaða ótugtarnaut að kyni til, sem mjer sýnist, og nota hvort heldur fyrir kýr mínar eða annara. Það stendur alls ekkert um það í gr., þótt kynbótanefnd hafi sjeð til þess, sem henni er þar heimilað að gera ráðstafanir um, að þá sje mjer eða öðrum óheimilt að hafa þau naut til undaneldis, sem okkur gott þykir. Þau mega bara ekki ganga á öðrum. Það má hver sem vill ala upp naut til sjálfsafnota og láns handa öðrum, hvað sem kynbótanefnd segir. Þótt svo sje ákveðið í 5. gr., að öll naut önnur en þau, er kynbótanefnd ætlar til undaneldis, skuli gelt eða höfð í öruggri vörslu, ef eldri eru en 8 mánaða, þá afsannar það alls ekki það, sem jeg hefi bent á. Vilji jeg ala naut, er mjer það heimilt, aðeins skylt að sjá til, að það leiki ekki lausum hala.

Jeg get ekki gert að því, þótt hv. frsm. vilji ekki viðurkenna þetta. Það er jafnrjett fyrir því.