28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg verð að leyfa mjer, þótt það sje sjálfsagt óvenjulegt við þetta tækifæri, að þakka hv. 1. þm. Skagf. (MG) fyrir að lýsa áliti sínu á mjer eins smekklega og hann gerði, enda tel jeg mjer það til tekna. Hann líkti mjer við gamalt latneskt goð, sem hafði tvö andlit. Hann hjet Janus, guðinn sá; janúarmánuður dregur nafn sitt af honum. Hann hafði tvö andlit, og horfði annað fram, en hitt aftur. Mjer er sönn ánægja að taka á móti þeim „komplimentum“ — ef jeg má nota það orð —, sem felast í þessari líkingu. Það er myndin af vitsmunamanninum, sem horfir fram og aftur og framkvæmir ekkert, nema að vel athuguðu máli. Og jeg verð að segja það, að jeg bjóst ekki við slíku hrósi (ÓTh: Það var heldur varla von.) frá einum af foringjum andstæðinganna. (MG: Misskilningur). Það getur ekki verið misskilningur, nema hv. þm. sje farinn að ryðga í goðafræðinni.

Jeg ætla þá að snúa mjer að fyrirspurninni og þeim ummælum, sem hv. 1. þm. Skagf. beindi til mín. Kem jeg þá fyrst að fyrirspurninni. Hv. þm. spurði, hvort jeg ætlaði að veita Titan sjerleyfið eða ekki. Því er nú til að svara fyrst, að jeg var spurður að þessu sama annaðhvort í dag eða gær og upplýsti þá, að þegar er búið að fá umsögn um málið frá einum aðilja, ráðunaut stjórnarinnar í vatnamálum, vegamálastjóra, og beðið eftir umsögn frá öðrum, rafmagnsstjóranum í Reykjavík, sem hv. 1. þm. Skagf. í fyrra sagði, að væri sjálfsagt að leita umsagnar hjá. Mjer þykir ekki rjett að lýsa yfir afstöðu minni fyrr en umsögnin er komin. Mjer finst sjálfsagt að taka ekki ákvörðun fyrr en öll gögn í málinu eru komin fram. Og mjer þykir það undarlegt, ef hv. þm. hefir haft þann sið, meðan hann sat í stóli atvmrh., að leita umsagna, en lýsa yfir úrslitum áður en þær umsagnir eru fengnar. Jeg mun ekki hafa þann sið, meðan jeg sit í þeim stóli. Háttv. þm. var að minnast á íhaldsflíkurnar, sem við framsóknarmenn hefðum farið í. En hann getur verið rólegur; þessum flíkum hans mun jeg ekki seilast eftir. Hann getur verið þess fullviss, að hann fær að eiga þær óáreittur af mjer. Hvorki í þessu nje öðru mun jeg fara í flíkur hans, enda geri jeg hiklaust ráð fyrir, að þær spryngju fljótt utan af mjer, og jeg neita því alveg að klæðast þeim. — En jeg vil bæta því við, að þegar umsögnin er komin og málið liggur fyrir í heild sinni, mun ekki standa á mjer að gefa þinginu skýr og ákveðin svör um það, hvort jeg mun veita sjerleyfið eða ekki.

Þá lýsti hv. þm. óánægju sinni yfir stefnu stjórnarinnar í samgöngumálum; annarsvegar yfir því, að minna væri nú veitt til vegalagninga en áður, og hinsvegar yfir því, að stjórnin fer fram á að fá heimild til að kaupa strandferðaskip. Jeg hefi svo oft vikið að þessu áður, að það er óþarfi að gera það enn einu sinni. Það er ekki stefna okkar að draga úr verklegum framkvæmdum, en við urðum að gera það, vegna þess, að Íhaldsflokkurinn skildi þannig við skattamálin, að ekkert var eftir í kassanum, þegar búið var að greiða kostnað af starfsmannahaldi og öðru. En það er regla, sem við munum fylgja, að leggja ekki fjárlögin fram með tekjuhalla. Hitt veit hv. þm. vel, að ef við fáum tekjuauka, erum við ráðnir í að bera fram brtt. og kippa þessu í lag. Stjórnin hefir fullan áhuga á samgöngubótum á landi og við viljum koma upp strandferðaskipi líka, ef þess er nokkur kostur. Við ætlum ekki að ganga með „fjáraukalögin miklu“ á bakinu; í þær íhaldsspjarir ætlum við ekki að fara. (MG: Við sjáum nú til). Nei, það er áreiðanlegt, að við ger um það aldrei.

Þá sagði háttv. þm., að jeg hefði breytt um stefnu í sendiherramálinu, og sagðist minna á það, ekki til að álasa mjer, heldur til að stríða. Jeg skil það mæta vel, að hv. þm. langi til að leysa frá skjóðunni og stríða mjer; það er sjálfsagt á eldhúsdegi. Jeg hefi líka sjálfur gert þetta sama, jeg hefi oft og tíðum strítt þessum hv. þm. áður fyrr, eins og hann mun minnast. En jeg vil minna á það, að þegar sendiherramálið lá fyrir á þingi 1924, var það annar maður, sem reis upp úr sæti sínu og hafði sömu aðstöðu og jeg og hjelt, að þessu mætti koma fyrir á hagkvæmari og ódýrari hátt. Þetta var fyrverandi forsrh. (JÞ), svo að háttv. þm. hlýtur að áfella hann, ef stjórnin er ámælisverð í þessu efni. (MG: Jeg áfeldi ekki).

Hv. þm. áfeldi mig fyrir að hafa hvikað frá Stefnu minni í þessu máli, þar sem jeg hefði borið fjárlögin fram með fjárveitingu til sendiherra; en jeg verð að hlýða landslögum, og samkv. þeim er skyldugt nú að veita fje til sendiherraembættisins. Jeg hlíti dómi hæstvirts forseta í þessu efni, sem úrskurðaði till. fjvn. um að fella niður launin frá í fyrra. (MG: Var ekki hægt að koma með frv?). Frv. er komið fram, og jeg mun gera grein fyrir aðstöðu minni á sama grundvelli og áður.

Þá var það aðstoðarmaðurinn við utanríkismálin í stjórnarráðinu. Á sínum tíma var ráðinn maður til þess starfa með miklu yfirlæti og miklu fje. Hinsvegar hefi jeg ekki bætt neinum við, því að þegar jeg tók við þessum málum, var starfsmaður fyrir, sem starfaði að þeim. En hann sagði starfinu af sjer, og þá tók jeg mann í staðinn, sem starfar ca. tvo tíma á dag. En jeg get bætt því við, að síðan ritdeilan var háð um þetta fyrir 8 árum, hafa utanríkismálin vaxið mikið, og jeg segi það hiklaust, að jeg álít, að nú þurfi fullkomnari starfskrafta.

Þá var það gengismálið. Hv. þm. sagði, að í Tímanum hefði jeg haldið því fram, að það væri óheppilegt, að krónan fjelli, en þó talið óhagstætt, að hún yrði hækkuð. Jeg hefi altaf viljað festa peningana og verið á móti sveiflum, hvort sem er upp eða niður, því að það er atvinnuvegunum til mikillar bölvunar. Jeg hefi altaf gert þá kröfu, að settur verði fastur og heilbrigður grundvöllur í peningamálunum.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði gengið á snið við fyrri skoðanir mínar í gengismálinu við stjórnarmyndunina með því að taka núverandi fjmrh. í stjórnina. Jeg viðurkenni með gleði, að jeg átti töluverðan þátt í því, að hann varð í stjórninni, en jeg get fullvissað hv. 1. þm. Skagf. um það, að enginn árekstur verður innan stjórnarinnar í gengismálinu fyrir það. Og jeg vil benda hv. þm. á það, að hæstv. fjmrh. hefir skipað hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sem formann gengisnefndarinnar, svo að menn ættu að geta rent grun í, hver er stefna fjmrh. og stjórnarinnar í gengismálinu. Þá vitnaði hv. þm. í frv., sem jeg flutti á þinginu 1926, og greinargerð þess, en þar segir, að fyrsti aðdragandinn til að festa krónuna verði að koma frá þinginu. Þetta er ekki í neinu ósamræmi við það, sem jeg hefi gert, og þegar hv. þm. er að tala um, að yfirlýsing þurfi að koma um það, að krónan verði ekki hækkuð, vil jeg hugga hann með því, að slík yfirlýsing kemur væntanlega áður en þingi verður slitið. Þá talaði hv. þm. um það, að bönkunum yrði að hjálpa. Það verður gert. Við þurfum ekki frv., þar sem við höfum valdið nú í okkar höndum.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt, að ljetta þyrfti áhættum gengisverslunarinnar af bönkunum. Fyrverandi fjmrh. þóttist hafa vald til þess undir vissum kringumstæðum. Aðstæðurnar hafa ekki breytst, en nú höfum við valdið og munum nota það til þess að hindra, að þau sömu óheillatíðindi gerist, sem gerðust í tíð fyrverandi stjórnar. — Hv. þm. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir okkar gerðum; við munum leggja ráðherrastöðurnar í veð til þess að hindra, að slíkar óheillir gerist aftur sem í tíð fyrverandi stjórnar. — Áður en til slíks dregur, mun jeg senda skeyti út fyrir pollinn og biðjast lausnar.

Þá var það gengisviðaukinn. Núverandi stjórn bar fram frv. um hann um leið og fjárlagafrv. var borið fram, en fyrverandi fjmrh. (JÞ) gleymdi því. Það var þess vegna fyllsta ástæða til að setja út á þetta í fyrra, en við mundum þetta og bárum fram frv. samtímis.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði fallið í sama pytt sem hann um áætlun á kostnaði við jarðræktarlögin. Jeg skal viðurkenna það, en jeg á mína afsökun í því, að jeg hafði engar skýrslur í desembermánuði, þegar jeg samdi áætlunina. (MG: Alveg eins og jeg). En jeg hefi beðið fjvn. að hækka áætlunina.

Jeg fer nú að hætta, en jeg verð að lýsa yfir því, að eins ánægður og jeg var yfir byrjuninni á ræðu hv. 1. þm. Skagf., eins óánægður var jeg yfir endinum, hans vegna sjálfs. Hv. þm. var að tala um, að engum stjórnmálamanni mætti líðast að breyta um stefnu og ganga í berhögg við skoðanir sínar. Jeg er þessu sammála og hefi slíkt aldrei gert; jeg hegða mjer eins og áður, og sá er einn munurinn, að nú hefi jeg valdið. En um háttv. 1. þm. Skagf. er mjer óhætt að segja, að enginn íslenskur stjórnmálamaður fyr nje síðar hefir gengið eins í berhögg við fortíð sína sem hann. Allir muna framkomu hans í tóbakseinkasölumálinu, hversu stjúpmóðurlega honum fórst við það barn sitt. En fáir munu geta hugsað sjer nógu harðan dóm á hann og voðalegan, þar sem hann hefir gengið svo mjög í berhögg við fortíð sína, að engan stjórnmálamann hefir hent annað eins, að verða bæði faðir og morðingi síns pólitíska barns.