29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

25. mál, kynbætur nautgripa

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) ætti að koma í fjósið á Hvanneyri og sjá hið skínandi fallega kúakyn, sem þar er upp komið á tiltölulega mjög skömmum tíma fyrir skynsamlegar kynbætur. Eða þá nautgripastofn Blikastaðabóndans, sem er á sama hátt til kominn og ber langt af því, sem íslenskir bændur eiga að venjast. Á þessum tveim stöðum er árangurinn af kynbótum sýnilegur, og hann er: hækkuð ársnyt kúnna um mörg hundruð lítra. Þetta getur og tekist annarsstaðar. Það er staðreynd, að hægt er að hækka meðalkýrnytina, og má öllum vera ljóst, hvílíkur hagur bændum gæti orðið að því. Það er meiningin með þessu frv. að setja þá löggjöf, er setji skrið á kynbætur nautgripa og stuðli að því, að fljótum og góðum árangri verði náð.