29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

25. mál, kynbætur nautgripa

Gunnar Sigurðsson:

Það mætti virðast sem þetta mál væri smámál. En svo er þó ekki. Þetta er stórmál, stærra en margan grunar. Þess vegna er það, að jeg — með allri virðingu fyrir bændum þessa lands — efast um, að þeir sjeu sá rjetti aðili um framkomu þess. Og það er af því, að mjer er kunnugt um, að margir bændur halda stór kúabú í sveitum og hafa þó til þessa ekkert hugsað um kynbætur á nautgripastofni sínum. Þannig er tómlæti bænda á þessu sviði. Jeg veit það, að kynbætur á kúm eru langmerkustu nauðsynjamál bændá og borga sig betur en kynbætur á nokkrum öðrum skepnum.

Hæstv. atvmrh. (TrÞ) tilnefndi tvö kúabú, sem hafa bætt og umskapað kúakyn sitt. En jeg get nefnt þriðja dæmið. Það er af bændum í Þykkvabæ eystra. Þeir höfðu þá aðstöðu fyrir þjettbýlis sakir að geta á skömmum tíma og með hægu móti bætt kúakyn sitt að stórum mun. Enda eru kýr þeirra nú taldar með allra bestu kúm í Rangárvallasýslu. Það hafði þau áhrif, að þeir hafa nú mun betri aðstöðu með sölu á nautgripum en áður fyr; auk þess sem afurðir kúnna voru meiri en gerðist áður.

Jeg vil undirstrika það, að það borgar sig áreiðanlega að hafa þessa kynbótastarfsemi í sem allra bestu lagi. Tel jeg hjer rjett af stað farið, þótt breyta megi til, eftir því sem reynslan kennir, að betur fari. Í fjeð, sem til þess fer, er ekki horfandi. Það kemur margfalt aftur.