29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

25. mál, kynbætur nautgripa

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg stend upp vegna fyrri brtt. á þskj. 323. Að vísu getur leikið nokkur vafi á, hvort sú brtt. sje nauðsynleg. En þó verð jeg að telja vissara og skýrara, að sú breyting komist að, er þar er farið fram á, til þess að taka af öll tvímæli. En mjer líkar ekki orðalag brtt. Tvær litlar setningar eru þar óþarfar og frekar til lýta og til þess að gera rugling. Sú fyrri er orðin: „hvort heldur fyrir sjálfa sig eða aðra“. Þetta er óþarft, sömuleiðis niðurlag till.: „nema samþykki hennar komi til“.

Jeg legg til, að hvorttveggja verði felt burt og brtt. hljóði svo: og er öllum óheimilt að nota önnur naut til undaneldis en þau, er til þess hafa verið valin af kynbótanefnd. Vonast jeg til, að háttv. flm. till. (HK) sjái, að þetta raskar ekki efni hennar, og geti því fallist á að breyta henni svo.

Er hún á þennan hátt gleggri og nær til fulls því, sem til er ætlast.

Leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. í þessa átt og óska eftir, að hún fái að koma til atkvæða.