29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

25. mál, kynbætur nautgripa

Halldór Stefánsson:

Út af tali hæstv. atvmrh. (TrÞ) um árangur kynbóta á stórbúum þeim, er hann tilnefndi, vil jeg geta þess, að þar er ólíku saman að jafna við strjálbýlið í sveitunum. Stórbændur, sem hafa svo stór bú, að þeir geta haft sjerstakt naut handa kúm sínum, eiga ólíkt auðveldari aðstöðu en smábændur, sem eiga fáar kýr hver og búa dreifðir og afskektir. Í þjettbýlinu er það aftur á móti miklu auðveldara að koma við skipulagsbundnum kynbótum. Við þurfum aldrei að gera okkur vonir um eins mikinn árangur í strjálbýlinu úti um sveitir landsins. Þá er og fleira, sem stuðlar að því, hve nytháar kýr reynast á þessum stórbúum, svo sem t. d. haganlegt fóður, óvenjulega góð húsvist o. fl.

Aðalágreiningurinn milli mín annarsvegar og hæstv. atvmrh. og háttv. landbn. hinsvegar er um það, hvort rjett sje að afgreiða þetta mál án þess að leita álits viðkomenda, þ. e. bænda, sem eiga að því að búa í framtíðinni.