08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (657)

16. mál, búfjártryggingar

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Jeg skal þá með nokkrum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna jeg hefi ekki getað fallist á frv. þetta um búfjártryggingar, sem hjer liggur fyrir.

Eins og frv. ber með sjer, er hjer aðeins um heimildarlög að ræða, og er það kostur út af fyrir sig, en hinsvegar finst mjer það ókostur á frv. þessu, ef það er þannig úr garði gert, að það fælir búfjáreigendur frá því að vátryggja pening sinn, ef að lögum verður. Og það er einmitt þetta, sem jeg er hræddur um. Ef það er alment álitið, að búfjártryggingarfjelög sjeu bændum nauðsynleg, þá er það ókostur að ganga svo frá lögunum, að þau verði til þess, að menn hverfa frá þeirri sjálfsögðu skyldu, sem á þeim ætti að hvíla um að tryggja búpening sinn.

Eins og nál. mitt á þskj. 109 ber með sjer, þá er hjer um stórmál að ræða, sem alla landsmenn snertir, er lifandi pening hafa undir höndum. Og af því að þetta er svo mikið nauðsynjamál, þá er öll þörf á, að það sje sem best undirbúið. Nú hefi jeg vikið að því í nál. mínu, að mjög skorti á, að málið sje þann veg úr garði gert eða undirbúið, að við megi una, og á jeg þar þá einkum við, að enn vantar með öllu þann grundvöll, sem byggja verður á um hæð iðgjaldanna. Jeg álít, að slá eigi þann varnagla í upphafi að láta bændur sjálfa fjalla um þetta mál; þeir eru sínum hnútum kunnugastir og vita best, hvað þeim hentar, og geta þá ekki sagt á eftir, að lögin sjeu þeim óhentug. Jeg ætlast til þess fjelagsþroska af bændum, að þeir sjeu færir um að upplýsa, í hvaða mynd lögin ættu að vera og hvað sjálfum þeim væri hentugast og fyrir bestu. Þess vegna hefði jeg heldur kosið, að bændum hefði gefist kostur á að búa þessi lög í hendur sjer eins og tíðkast hjá þeim um verkfæri þau, er þeir nota við vinnu sína í þarfir búskaparins.

Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp dálítinn kafla úr nál., sem lagt var fram á Búnaðarþinginu 1927 og hljóðar svo:

„Á síðasta Búnaðarþingi var samþykt, út af frumvarpi Theodórs Arnbjörnssonar um búfjártryggingar, að fela Búnaðarfjelaginu að afla upplýsinga um vanhöld kynbótaskepna, svo komast mætti nær sanni um það, hve hátt tryggingargjaldið þyrfti að vera. Í þessum tilgangi hefir ráðunauturinn skrifað öllum hreppstjórum, en á svörunum hafa verið vanhöld; einungis 37 borist honum.

Fyrir því vill nefndin láta safna betri upplýsingum, og til þess að eiga, vissara að fá svör, vill nefndin, að stjórnarráð Íslands sje fengið til þess að kalla þær inn hjá hreppstjórum“.

Jeg skal ósagt láta, hvort þetta hefir verið gert, en jeg hefi að minsta kosti ekki orðið var við það, eða sjeð nein plögg, er benda til þess. En það, sem bent er á í þessu nál. Búnaðarþingsins, verð jeg að telja nauðsynlegan undirbúning málsins, og fyr en hann er gerður, finst mjer óráð að ganga frá lögunum til fullnustu.

Jeg get vel skilið, þó að hæstv. atvmrh. (TrÞ) hafi viljað flýta þessu máli, sem er í sjálfu sjer gott og hann jafnan velviljaður bændum. En jeg er hræddur um, að hans góði hugur hafi borið hann ofurliði og hann lagt of mikla áherslu á að flýta lagasmíðinni, svo að á henni er sá galli, að eftir á verður að ákveða um iðgjöldin.

Jeg er t. d. hræddur um, að búfjáreigendur í kaupstað, sem eiga kannske eina kú eða aðeins fáar skepnur, leggi ekki út í að vátryggja þessar skepnur sínar af þeim ástæðum, að þeir sjeu hræddir við, að iðgjöldin verði of há, — og þau verða of há. Þetta eru meðal annars aðalorsakirnar til þess, að jeg get ekki fallist á frv. eins og það er, enda álít jeg, að það sje ekki forsvaranlegt, að það verði að lögum að svo búnu.

Þá er annað atriði, sem mjer þykir ábótavant í frv., og það er um atkvæðamagn, sem til þess þarf að stofna, vátryggingarsjóði. Jeg fyrir mitt leyti hefði fremur kosið, að í staðinn fyrir einfaldan meiri hluta þeirra manna, sem hlut eiga að máli, væri ákveðið, að 2/3 hlutaðeigandi búfjáreigenda þyrfti til þess að samþ., hvort ráðast skyldi í að stofna vátryggingarsjóð fyrir búpening eða ekki. Annars gæti svo farið, að þeir ráði úrslitum þessa máls, sem eru í miklum minni hluta hvað tölu búpenings þess, er vátryggja á, snertir. Að þessu leyti hefði jeg haldið, að full nauðsyn væri á, að leitað væri til sem flestra búfjáreigenda í landinu um upplýsingar í þessu efni, og það áður en gengið væri frá lögum þessum að fullu.

Þá er í nál. mínu vikið að einu atriði enn, sem frv. þessu er fundið til foráttu. Og það er það, að atvmrh. sje gefið fullmikið vald eftir því, sem frv. gerir ráð fyrir. Það getur auðvitað stundum verið sá maður atvmrh., sem hefir ekki eins gott vit á þessum málum og bændur sjálfir, þótt hann geti verið góður og gegn á öðrum sviðum. En þessum hlutum hljóta bændur að vera best kunnugir, og ættu því öll slík deilumál að útkljást heima í hjeraði af bændum sjálfum, en ekki að leggjast undir úrskurð atvmrh. í stjórnarráðinu. En þó vil jeg taka það fram, svo ekki valdi misskilningi, að þessu, sem jeg sagði, er á engan hátt stefnt til þess manns, sem nú er atvmrh., enda er mjer kunnugt um, að hann ber mjög fyrir brjósti allan hag bænda.

En mjer virðist, að hjer geti verið um allumfangsmikið starf að ræða, er hefði það í för með sjer, að bæta yrði við einum eða fleiri mönnum í þá skrifstofu stjórnarráðsins, sem þetta heyrir undir. Hinsvegar hefir oft verið á það minst, að skrifstofubáknið í stjórnarráðinu væri orðið nóg og því meiri ástæða til að ljetta þar af einhverju heldur en bæta við.

Jeg álít líka, að það mundi fremur auka þroska bænda að leyfa þeim sjálfum að ráða þessum málum sínum til lykta og jafna sjálfir það, sem á milli bæri, t. d. um virðing á kálf eða hrút, en vera ekki að ónáða stjórnarráðið með slíka smámuni.

Annars finst mjer yfir höfuð, að á seinni árum hafi verið fullmikið að því gert að draga úr höndum bænda þau völd, sem eiga að vera heima í hjeraði til að útkljá innbyrðis deilur, í stað þess að leggja það undir stjórnarráðið. Öll slík „centralisation“ er að minni hyggju óheppileg og gerir ríkisreksturinn of dýran og margbrotinn. sveitirnar eiga sjálfar að hafa vald til þess að útkljá það einfaldasta í sveitarmálum, sem milli ber, og ónáða ekki stjórnina nema í brýnustu nauðsyn.

Jeg hefi þá með þessum orðum nefnt þær ástæður, sem liggja til þess, að jeg vil nú að þessu sinni afgreiða málið með rökst. dagskrá.

Jeg tel betra fyrir málið, að það bíði eitt eða tvö ár enn að lögleiða búfjártryggingar, og afla á meðan allra nauðsynlegustu upplýsinga, eins og síðasta Búnaðarþing lagði til. Að hasta málinu nú, þvert ofan í till. Búnaðarþings, og samþ. þetta frv. eins og það er úr garði gert, tel jeg ekki forsvaranlegt.