08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

16. mál, búfjártryggingar

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Jeg þarf í rauninni fátt að segja, því að eftir því, sem mjer skilst á háttv. frsm. minni hl., ber okkur ekki mikið á milli. Hann er mjer alveg sammála um það, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða. Það eitt skilur okkur á um, að hann vill fresta framkvæmd nauðsynjamáls, en á það getur meiri hl. ekki fallist. Hv. frsm. minni hl. hjelt því fram, að áreiðanlegan grundvöll vantaði til þess að byggja á, þegar iðgjöld væru ákveðin. Jeg vil benda honum á, að iðgjaldaákvæðin á að taka upp í reglugerð, en þau eiga ekki að standa í lögunum. En reglugerð er auðvitað hægt að breyta eftir ástæðum.

Þá talaði hann um, að heppilegra væri, að 2/3 atkv. þyrfti til þess að stofna vátryggingarfjelag. Um þetta mætti auðvitað tala. Og jeg hefi fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að það verði athugað í nefnd. Mætti breyta ákvæðunum, sem að þessu lúta, ef þörf þykir. Í þessu sambandi vil jeg þó geta þess, að í lögum um vátryggingu sveitabæja er einfaldur meiri hl. látinn ráða.

Hv. frsm. minni hl. er hræddur um, að atvmrh. fái of mikið vald. Jeg held, að þessi ótti hans sje ástæðulaus. Aðalstarf ráðherrans verður að sjá um reglugerðina. Hann þarf að safna drögum til hennar, og til þess nýtur hann vafalaust aðstoðar sjerfróðra manna. Þegar búið er að semja reglugerðina, er afskiftum hans að mestu lokið. Það er því engin ástæða til að ætla, að bæta þurfi manni í stjórnarráðið þeirra vegna.