10.02.1928
Efri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

16. mál, búfjártryggingar

Páll Hermannsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 126. Mjer kom fyrst til hugar að bera brtt. fram á þeim grundvelli, að 5. gr. frv. fjelli burt. En við nánari athugun komst jeg þó að þeirri niðurstöðu, að enda þótt sauðfje yrði ekki trygt í náinni framtíð, þá gæti það þó átt sjer stað um hross. Brúkunarhross eru svo gagnlegir og verðmætir gripir, að líkur eru til, að þau mundu fljótlega verða tekin með. Að öðru leyti er rjett, að sjerákvæði 5. gr. haldi sjer, sjerstaklega vegna útigangshrossanna. Verður allri varfærni að beita hvað þau snertir.

Til þessarar brtt. liggja tvær ástæður. Önnur sú, að jeg álít, að ekki sje framkvæmanlegt að tryggja sauðfje alment, af því heilsufar og höld fjárins miðast mikið við eigendurna sjálfa. Vanhöld á fje fara eins mikið eftir mönnunum, er um það hirða, eins og þau ákveðast af almennum ástæðum. Sjúkdómar stafa æðioft og engu síður af meðferð fjárins en af óviðráðanlegum orsökum. Sama er að segja um hættur fyrir fje bæði af vötnum og veðrum. Það fer eftir umhyggju fjármanna, hvort hættur af slíkum orsökum koma að sök eða ekki. Þannig er þá sýnt, að almenn trygging sauðfjár gæti um of orðið á kostnað hirðumannanna.

Hin ástæðan er sú, að jeg lít svo á, að ótti eða uggur við þetta atriði kynni að verða til þess, að menn færðu sjer síður í nyt þau hlunnindi og það gagn, er af þessu frv. gæti stafað, ef það yrði að lögum.

Jeg hygg, að hjer muni fara á sama hátt og um vátrygging sveitabæja, að meira beri á of mikilli tregðu í byrjun heldur en ógætilegri notkun heimildarinnar.

Jeg býst við, að þessi breyting sje í raun og veru meira á orðum en anda. Þótt greinin hefði staðið óbreytt í frv., geri jeg ekki ráð fyrir, að það kæmi að beinni sök, því áður en farið væri að nota ákvæði 5. gr. myndi að öllum líkindum vera farin fram fyrsta endurskoðun og máske endurbót á þessum lögum. En jeg hygg, að brtt. sje til bóta og að hv. deild ætti að samþ. hana.