23.01.1928
Efri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1608 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Samkv. frumvarpi þessu er ætlast til, að Alþingi kjósi með hlutbundinni kosningu í byrjun hvers kjörtímabils nefnd, er hafi með höndum nokkurn hluta mentamálanna. Yrðu henni með því falin nokkur störf, er stjórnin og aðrir trúnaðarmenn landsins hafa áður haft.

Fyrsta hlutverkið, sem nefndinni er ætlað, er að úthluta því fje, sem Alþingi leggur fram til viðurkenningar skálda og listamanna. Ýmsar aðferðir hafa nú verið reyndar til úrlausnar á þessu máli. Sú fyrsta var, að þingið sjálft úthlutaði þessu fje. Var það eflaust lakasta úrlausnin, ekki vegna þess, að þingið væri ekki í sjálfu sjer dómbært um þau mál, heldur af hinu, að jafnan lenti í hörðum deilum og löngum umræðum, þegar farið var að meta og vega verðleika umsækjenda. Slíkar umræður urðu nokkurskonar kvikskurður á mönnunum.

Næst var sú skipun upp tekin, að fela sjerstakri nefnd málið til meðferðar. Var hún skipuð af háskólaráðinu og Bókmentafjelagsstjórninni. Síðast fjekk svo landsstjórnin úthlutunina í sínar hendur.

Að vísu hefir ekki komið fram nein veruleg „kritik“ á því fyrirkomulagi, sem nú er. En hitt sýnist þó betra og eðlilegra, að sjerstök föst nefnd hafi þetta með höndum heldur en stjórnir, sem venjulega sitja aðeins skamma stund og brestur því eins gott yfirlit yfir þetta og nefnd, sem búast má við, að starfi um lengri tíma. Stjórninni mundi frekar hætta við að gera glappaskot. Get jeg nefnt dæmi, sem að vísu er alveg heiðarlegt, en sýnir þó, að stjórnirnar hafa ekki ávalt fylgt sömu reglu um kaup listaverka. Um tíma hafði ekkert verið keypt af Ásgrími málara. En nú hefi jeg keypt 3 málverk af honum. Má vera, að það sje of mikið, en að áður hafi það verið of lítið.

Í nefnd, þar sem allar stefnur ættu fulltrúa, ætti að mega búast við meiri jöfnuði. Jeg skal ekki fjölyrða mjög um aðra liði frv. Aðeins drepa á sumt lauslega.

Það hefir verið kvartað yfir því af listamönnum landsins, að talsvert fje færi úr landi fyrir altaristöflur, sem gerðar væru af útlendum mönnum. Það sýnist mjög vel við eigandi að láta íslenska málara búa til altaristöflur handa íslensku kirkjunum. Aðrar þjóðir keppast við að nota sína eigin málara. Og í öðrum löndum er það svo, að málarar geta ekki vænst neins markaðs utan síns eigin lands, nema þeir sjeu orðnir heimsfrægir. Nefndin ætti einmitt að sjá um það, að íslensku málararnir fái að sitja fyrir í þessu efni.

E-liðurinn, sem er um það, að nefndin úthluti styrk til stúdenta og líti eftir, hvernig honum sje varið, er að nokkru leyti breyting á eldri lögum. Nefndin ætti að geta haft góð tök á að úthluta þessum styrk þannig, að hann kæmi sem rjettlátast og hagkvæmast niður. T. d. ætti hún að vita. í hvaða stöður helst vantaði menn í það og það skiftið, og koma í veg fyrir, að of margir fengju styrk til sama náms. Er ilt, að slíkir menn þurfi að leita úr landi til atvinnufanga og tapist þannig þjóðinni að loknu námi.

F-liðurinn lýtur að atriði, sem ekki er enn komið í framkvæmd, en gert er ráð fyrir að komi, nefnilega því, að ein tegund af styrk sje sú, að styðja námsmenn og aðra til utanfarar með því að sjá þeim fyrir ókeypis fari með skipum Eimskipafjelagsins. Fjelagið er nú styrkt af ríkisfje, en hefir oft alt of fáa farþega milli landa, vegna samkepni hinna fjelaganna tveggja, er við það keppa nú. Þetta gæti því verið ýmsum þægilegt, án þess að það kostaði landið eða Eimskipafjelagið mikið. Að greiða þannig fyrir utanferðum manna gæti oft gert mikið gagn. Jeg skal taka dæmi. Þjóðskáldið Matthías Jochumsson, sem var alla æfi efnalítill og sat í lágt launuðu embætti, hafði brennandi löngun til utanfarar og gat ótrúlega oft veitt sjer það, að fara utan. En það er sennilegt, að einmitt þessar ferðir hans hafi átt mikinn þátt í því, að hann hjelt miklum sálarkröftum til hárrar elli. Þar var að vísu um stórskáld að ræða, en þó gætu fleiri haft gott af því, að gata þeirra væri greidd á þennan hátt.

Síðasti liðurinn lýtur að öðru frv., og skal jeg ekki tala um hann að sinni.

Ekki er gert ráð fyrir, að nefnd þessi fái nein laun fyrir störf sín fyrst um sinn. Ef störf hennar kynnu síðar að verða aukin svo, að ekki þætti fært, að hún starfaði kauplaust, má altaf ákveða þóknun til hennar í fjárlögum.

Jeg vil svo óska, að frv. þessu verði vísað til mentmn., að umr. lokinni.