08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Eins og tekið er fram í nál. minni hl. mentmn. á þskj. 85, tel jeg verkefni nefndar þeirrar, er frv. gerir ráð fyrir, of ósamstætt, af því að nefndinni eru ætluð störf, sem krefjast mjög ólíkrar þekkingar, og of víðtækt að því leyti, sem umráð þeirra mála, sem undir nefndina eiga að heyra, virðast beinlínis með þessu frv. dregin úr höndum landsstjórnarinnar. Jeg álít það tæplega gerlegt um svo stóran flokk mála, sem frv. nær yfir. Það er fyrirsjáanlegt, ef þessu yrði framgengt og nefndin tæki til starfa á þeim grundvelli, sem frv. gerir ráð fyrir, þá mundi innan langs tíma hlaðast svo mikið starf á hana og safnast svo stórt skjalasafn, skjöl, sem nú eiga að rjettu lagi heima í kenslumálaráðuneytinu, að myndast mundi heil stjórnarskrifstofa.

Jeg álít heldur ekki heppilegt að draga ábyrgð um tilhögun þessara. mála úr höndum ráðherra. Það er satt best að segja, að nefnd skipuð þrem mönnum, kosin með hlutfallskosningum af Alþingi, þar sem hver stjórnmálaflokkur reynir að koma að sínum fulltrúa, ber í raun og veru ekki ábyrgð á neinu. Valdinu þarf að vera svo fyrir komið, að hægt sje að koma fram ábyrgð, a. m. k. fyrir dómstóli almenningsálitsins, fyrir það, sem þykir misfarast um meðferð þessara mála.

Á einu sviði þessara mála álít jeg, að stj. þurfi að hafa fasta nefnd sjer við hlið til aðstoðar. Og það er nefnd, er fjalla skyldi um þau mál, er snerta listir.

Eins og kunnugt er, hefir verið gerð tilraun til þess að koma skipulagi á þau mál að því leyti, sem reynt hefir verið að fá nefnd utan þings til þess að vera til aðstoðar stjórninni um úthlutun styrks til skálda og listamanna. En það hefir mistekist. Jeg er því fylgjandi, að nú verði gerð tilraun til að bæta úr á þann hátt, sem frv. fer fram á. Með því að kjósa slíka nefnd geta þingflokkarnir valið menn í hana með tilliti til þess, að þeir geti lagt eitthvað gagnlegt til þeirra mála, er snerta listir. Það er svo, að það eru dálítið sjerstakir hæfileikar, er menn þurfa að vera gæddir til þess að vera liðtækir til þeirra hluta, og það eru þeir sjerstöku hæfileikar, sem eiga að ráða valinu. Aftur á móti er vonlaust um málið, ef verksvið nefndarinnar að vera svo vítt, að einskis eins manns þekking nje gáfur spenni yfir. Þá verður ekki um annað að ræða en pólitískt reiptog um skipun nefndarinnar og ábyrgðarleysi.

Það er tvent í þessu frv. þeim málum alveg óviðkomandi. Úthlutun námsstyrks til stúdenta er þessu alveg óskylt mál. svo er fyrir mælt í lögum nr. 35 frá 1925, að landsstjórn sje heimilt að veita 4 stúdentum árlega, í 4 ár hverjum, styrk til náms við erlenda háskóla. Till. um þennan utanfararstyrk, sem bundinn er við nýútskrifaða stúdenta, skulu koma frá nefnd, sem skipuð er þrem mönnum, rektor mentaskólans, öðrum manni, kosnum af Stúdentaráði háskólans, og þeim þriðja, sem tilnefndur er af háskólaráðinu. Með þessari skipun á jafnan að vera fyrir hendi í nefndinni næg þekking á hinum nýútskrifuðu stúdentum, svo að hægt sje að telja fulltrygt, að ekki fái styrk aðrir en þeir, sem líklegir eru til þess að geta stundað nám til menningar sjer og frama og verða þjóð sinni þarfir menn að námi loknu. Það er alveg nauðsynlegt, að þeir menn, sem eiga að gera till. eða ákveða um þessa utanfararstyrki, hverjum þeir sjeu veittir, hafi til að bera sem nánastan kunnugleika af hæfileikum umsækjenda, þegar úr svo stórum hópi er að velja. Tel jeg því betur borgið í höndum þeirra aðilja, er nú eru til kvaddir, heldur en ef væntanleg mentamálanefnd Íslands ætti þar ein völd um.

Sama er að segja um utanfararstyrk, sem veittur er til verklegs náms og aðallegast fer til iðnaðarmanna, sem ætla að fullkomna sig í iðn sinni erlendis. Sú styrkveiting mun fara fram á þann hátt, að iðnfjelögin á hverjum stað, ef þau þá eru til, eða einhver velmetinn handiðnarmaður veitir ungum umsækjanda meðmæli sín sem efnilegum iðnnema, og þessi skjöl fara síðan ásamt umsókn í atvinnumálaráðuneytið. Þar eru þau metin af hlutaðeigandi embættismanni og ráðherra. Tel jeg það líka afturför frá því, sem nú er, ef þingkosin nefnd ætti að fara að ráða fram úr þeim efnum.

Jeg álít, að um þessa úthlutun námsstyrkja skifti það mestu máli, að sem minst pólitísk áhrif komist þar að. En með þessu frv. er einmitt boðið upp á reiptog pólitískra hagsmuna innan nefndarinnar. Jeg skal að vísu játa, að jeg veit ekki, hvort þetta frv., sem borið er fram af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, getur og náð til þeirra mála, sem heyra undir atvinnumálaráðuneytið. En mjer skilst hinsvegar, bæði af orðalagi og efnismeðferð 2. gr. frv. og greinargerðar, er því fylgir, að það muni vera tilætlunin.

Eftir þessar almennu aths. skal jeg þá snúa mjer að einstökum gr. frv. og brtt. mínum.

Í 1. gr. frv. er það ákvæði, að hlutgengir eða kjörgengir í nefndina sjeu þeir einir, sem búa í Reykjavík eða svo nærri bænum, að þeir geti sótt þangað fundi daglega. Þar er ennfremur það ákvæði, að nefndin skuli starfa endurgjaldslaust, nema öðruvísi sje ákveðið í fjárlögum. Jeg get nú ekki álitið, að það sje rjett eða sanngjarnt að krefjast þess af mönnum, að þeir vinni þessi störf launalaust fremur en önnur. Þess vegna hefi jeg borið fram brtt. á þá leið, að kostnaður við nefndarstörfin greiðist af skrifstofufje Stjórnarráðsins, eftir reikningi, sem ráðh. úrskurðar. Það þýðir það, að ráðh. getur fært reikninginn niður, ef honum sýnist hann of hár.

Þá er 2. brtt. mín um það, að nefndin skuli vera ríkisstjórninni til aðstoðar í þeim málum, sem falla í hlutverk hennar, og það þýðir ekki annað en það, að öll þau gögn, sem nefndin hefir með höndum, skuli jafnan ganga til Stjórnarráðsins og afgreiðast þaðan, að athuguðum tillögum nefndarinnar, en ekki beint frá nefndinni sjálfri.

Jeg verð að líta svo á, að ef hæstv. dómsmrh. (JJ) setur sig upp á móti þessu, þá sje það af því einu, að hann sje enn ekki nógu kunnugur stjórnarframkvæmdum. Það væri ákaflega óheppilegt, ef nefndinni væri fengin heimild til að gefa út ávísanir á fje úr ríkissjóði, sem ríkisfjehirðir yrði að greiða eins og þær kæmu frá ráðuneytinu. Með því væri verið að dreifa ávísanavaldinu, sem nú er hjá fjmrh., þannig, að allar ávísanir verða að vera undirritaðar af honum eða þeim manni, sem hann hefir til þess löggilt. Jeg vona, að hæstv. dómsmrh. fallist, hvað sem öðru líður, á þessa brtt. mína. Þetta var nú um 1. gr. og upphaf 2. gr.

Þá er d-liður 2. gr. f stjfrv. hljóðar hann svo: „Að kaupa altaristöflur handa kirkjum allra þjóðkirkjusafnaða, eftir því sem fje er til þess lagt frá hlutaðeigendum“. Nú er það svo, að þegar keyptar eru altaristöflur fyrir þjóðkirkjusöfnuði, eru þær oftast nær keyptar fyrir gjafafje. Jeg álít nú, að löggjöfin geti alls ekki bundið hendur þessara manna, sem fjeð gefa, um kaupin, enda er þeim þá altaf önnur leið opin, nefnilega að gefa hlutinn, en ekki fjeð. Það eina, sem hægt er að gera af ríkisvaldsins hálfu, er orðað í brtt. minni: að leiðbeina um kaup á altaristöflum handa kirkjum. Það mundu bæði gefendur og söfnuðirnir láta sjer vel líka, því að þeir aðiljar væru þá ekki bundnir við að fara eftir till. nefndarinnar, nema því aðeins, að þær líkuðu vel.

Þá hefi jeg lagt til, að stafliður e. falli burtu. Þessi námsstyrkur stúdenta, sem hjer um ræðir, mun vera sá, sem heimilað er að veita samkv. lögum frá 1925, en hinn styrkurinn „til annara nemenda erlendis“, hefi jeg litið svo á, að væri sá styrkur, sem veittur er í fjárlögum til verklegs framhaldsnáms erlendis. Jeg álít nú, að þessum málum sje betur komið eins og nú er. En það stendur fleira en þetta í þessum lið. Nefndinni er þar uppálagt, með aðstoð sendimanna landsins erlendis, að hafa eftirlit með styrkþegum erlendis, og hún á að geta svift þá framhaldsstyrk, ef sannanlegt sje, að þeir fari illa með fje sitt og tíma.

Það er nú yfirleitt föst regla um sendimenn landa, að minsta kosti sendiherra, að allar málaleitanir til þeirra eiga að koma frá heimastjórninni, nefnilega frá þeim ráðherra, sem fer með utanríkismálin, sem hjer er forsrh. Sendiherrar eru yfirleitt tregir til að taka við öðrum málum en þeim, sem koma beint frá stj. þeirra, enda álít jeg, að heppilegra verði að fylgja þessari reglu einnig í þessu máli, með því að stj. hefir miklu betri aðstöðu til að fá þetta eftirlit framkvæmt en nefndin.

Þá hefi jeg ennfremur lagt til, að f-liður 2. gr. fjelli niður. Þessi liður hljóðar svo í frv.: „Að úthluta ókeypis fari milli Íslands og annara landa, til manna, sem fara til útlanda til alþjóðargagns“.

Mjer finst það ekki rjett að setja svona klausu í lög, þar sem landið hefir ekki, mjer vitanlega, ráð á neinu ókeypis fari milli landa, nema þegar „Esja“ fer út til eftirlits og viðgerðar. Það væri þá, að minni hyggju, betra að kveða svo á, eins og felst í 6. brtt. minni, að nefndin skuli hafa á hendi þau störf önnur, sem henni kunna að verða falin.

Þá hefi jeg ennfremur lagt til, að 3. gr. frv. falli burt. Hún hljóðar svo: „Með lögum þessum eru úr gildi numin öll eldri lög og fyrirmæli, sem fara í bága við lög þessi“.

Jeg verð nú að segja það, að það út af fyrir sig að setja svona gr. í stjfrv., lýsir alveg óverjandi hroðvirkni. Það hefir hingað til verið alveg ófrávíkjanleg regla að taka til, hvaða lög og fyrirmæli væru feld úr gildi, til þess að allur almenningur gæti vitað, hvað væri lög í landinu. Jeg minnist þess ekki að hafa fyrri sleð það í stjfrv., að slept væri allri aðgæslu um þetta, en nú sjer maður þetta í fjölda stifrv. Ef mínar brtt. yrðu samþ., sje jeg ekki, að þetta frv. geri neina breytingu á eldri lögum eða fyrirmælum. Samkvæmt því hefi jeg lagt til, að 3. gr. yrði feld niður.