28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg get ekki látið farast fyrir að minnast nú þegar á eitt atriði, sem kom fyrir í ræðu hv. 1. þm. Skagf. ( MG) , þó að hann raunar beindi því til hæstv. dómsmrh.

Hann fór, hv. l. þm. Skagf., að tala um það, sem hefði gerst síðustu vikuna áður en gamla stjórnin fór frá völdum. Og jeg ætla, að jeg tæki rjett eftir, að þessi hv. þm. segði, að hann hefði átt ákaflega annríkt síðustu dagana, sem gamla stjórnin sat, af því að hún hefði verið að keppast við að afgreiða mál áður en nýja stjórnin tók við. Jeg verð að segja það, að það mundu þykja ákaflega merkileg tíðindi í hverju þingræðislandi, að stjórn skuli vera önnum kafin að afgreiða mál, eftir að hún veit, að hún á að fara frá völdum — eftir að hún hefir fengið vantraust hjá þjóðinni.

„Mikið að gera“, segir hv. 1. þm. Skagf., og fyrv. stjórn hafði mikið að gera, af því að hún var að vinna verk, sem hún hafði enga heimild til. Með þessum orðum hefir hann ákært sjálfan sig fyrir það að þverbrjóta reglur þingræðisins. Eftir að stjórnin veit það, að hún er búin að missa traust þjóðarinnar — alt fram á þá stund, þegar hún er hrakin úr sessinum, er hún önnum kafin að afgreiða mál.

Og — eitt þessara mála er einmitt afgreitt 27. ágúst; þá er stór sjóður látinn af hendi við einkafjelag og afsalað umráðum ríkisins yfir honum. Og þennan dag var annar maður búinn að fá umboð til þess að vera forsætisráðherra landsins. Samt dirfist fyrv. stjórn að ráða til lykta svo stóru máli, og það með ákaflega varhugaverðum hætti. Öllu þyngri ákæra verður trauðla borin á fyrv. stjórn en þessi, sem hún ber á sig sjálf.

Nú skal jeg víkja að því, sem okkur, hv. 1. þm. Skagf. og mjer, hefir farið á milli. En jeg verð að segja það, að mjer þykir það hlálegt, að við ráðherrarnir skulum þurfa að sitja og geispa undir ræðum stjórnarandstæðinga sjálfan eldhúsdaginn. En hv. andstæðingar okkar eru ákaflega seinhepnir í sínum árásum. Fyrst ber hv. 1. þm. Skagf. það ákaflega lof á mig að líkja mjer við guðinn Janus, sem jafnglöggskygn var á fortíð og framtíð, og svo eru ræður þeirra svo nauðaleiðinlegar, að við getum varla varist því að sofna undir þeim.

Háttv. þm. er að ámæla mjer fyrir að leita álits sjerfræðinga um Titansjerleyfið. Hann segist nú ekki hafa ætlast til, að Steingrímur Jónsson ætti að fást við annað en hina „teknisku“ hlið málsins. Og ekki verður annað sjeð en að hann sje að „kritisera“ það, að álits rafmagnsstjórans skuli hafa verið leitað. En á þinginu í fyrra segir hann sjálfur: „Jeg tel víst, að hans (þ. e. Stgr. J.) aðstoðar verði leitað við samning sjerleyfisins“. Þegar jeg nú fer alveg eftir þessum ummælum fyrirrennara míns og sný mjer til Steingríms Jónssonar, fæ jeg skammir fyrir það hjá háttv. 1. þm. Skagf. Jeg skil ekki þessa framkomu.

Þá talaði hv. þm. um skattamálin. Og hann sagði, að jeg hefði fjölyrt um, að Íhaldsflokkurinn væri frekur í skattakröfum. Þetta er algert misminni hjá háttv. þm. Jeg hefi ávalt viljað hafa skattana svo háa, að ekki yrði tekjuhalli. Á þinginu 1926 var jeg á móti því að lækka skatta. En það voru flokksmenn háttv. 1. þm. Skagf., sem börðust fyrir því að varpa þá tekjum frá ríkissjóði, sem hann þarf nú að fá aftur, ef vel á að fara.

Um starfsmannahald í stjórnarráðinu standa orð mín enn óhrakin. Nú er þar aðstoðarmaður, sem vinnur 2 stundir á dag. Og stúlkan, sem áður var þar, hefir ómögulega getað haft skemri vinnutíma. Hjer er því ekki nein aukaeyðsla frá minni hálfu. Jeg skal jafnframt geta þess, að jeg álít, að framvegis þurfi ráðherra á aðstoð að halda í utanríkismálunum, meiri en hingað til. Og jeg vona, að nú eftir fáar vikur leggi af stað hjeðan maður suður til Geneve, til þess að kynna sjer þessi mál, með það fyrir augum, að hann geti orðið íslensku stjórninni til aðstoðar síðar.

Hv. þm. hjelt, að hann gæti afsakað snúning sinn í einkasölumálinu með því, að jeg hefði gengið frá orðum mínum við atkvæðagreiðslu um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu. En jeg sagði aldrei, að jeg ætlaði að greiða atkvæði móti kosningu Jóns A. Jónssonar, en aðeins hitt, að jeg sæi mjer ekki fært samvisku minnar vegna að greiða atkv. með henni. Og við þau ummæli stóð jeg.

En það er ekki furða, þó að hv. þm. vilji reyna að draga fjöður yfir framkomu sína í einkasölumálinu. Hún er alveg einstök. Árið 1921 er hann með tóbakseinkasölu. Þegar rætt er um það á þinginu 1924 að afnema þessa stofnun, farast honum svo orð:

„Og fyrir mitt leyti verð jeg að segja það, að verslunarhagnaðurinn hefir alls ekki brugðist vonum mínum. Aðstaða mín gagnvart þessari einkasölu er því hin sama og 1921.“

Og það er einmitt það skemtilega, og jafnframt alveg dæmalausa við framkomu hv. þm., að aðstaða hans er sú sama til einkasölunnar 1921, þegar hann greiðir atkvæði með henni, og 1924, þegar hann drepur hana.

Hv. 1. þm. Skagf. var eitthvað að tala um bautasteina. Hann gaf í skyn, að þrátt fyrir þetta þá mundi þjóðin sjá einhverja bautasteina eftir sig. Jeg held ekki, að þetta verði. En jeg ætla mjer að minna á annað, sem hv. þm. sagði. Hv. þm. sagði, að þegar við ráðherrarnir komum í stjórnarráðið, hefðum við fundið þar spörð — spörð eftir fyrv. stjórn. Og líkt ætla jeg, að fara muni með minningu hv. 1. þm. Skagf. Mig uggir, að þegar þjóðin fer að leita, eins og við ráðherrarnir leituðum í stjórnarráðinu, þá fari eins fyrir henni og okkur — samkv. orðum sjálfs hv. þm. (MG) — hún muni enga bautasteina finna, heldur einungis — spörð.