28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Það þarf í raun og veru ekki langa framsögu í þessu máli, því að jeg býst við, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer það og sjeu því velviljaðir. Þó skal jeg í fáum orðum drepa á aðdraganda þess.

Eftir þál. frá síðasta þingi voru þeir Gísli J. Ólafson landssímastjóri, Páll E. Ólason prófessor og Jón Eyþórsson veðurfræðingur skipaðir í nefnd til þess að rannsaka og gera tillögur um ríkisrekstur útvarps. Hefir nefnd þessi svo samið ítarlega skýrslu um málið, og nægir að vísa til hennar, því að í henni felast upplýsingar um flest það, sem menn þurfa að vita í þessu máli.

Um nauðsyn þessa máls þarf ekki að fara mörgum orðum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að við, sökum strjálbygðar landsins og erfiðra samgangna, höfum mikla þörf á því að fá sem best útvarpstæki, til þess meðal annars að fá veðurfregnir, tímamerki, afla- og markaðsfregnir. Þá má og benda á sparnaðarástæður í sambandi við frv. Eftirspurnin eftir nýjum símalínum fer altaf vaxandi, meira til þess að fá fregnir en til þess að senda skeyti víða hvar. En margir líta svo á, að þörfum þeirra hjeraða, sem afskekt eru, væri betur fyrir komið á þann hátt að gera þeim kleift að fá víðvarp heldur en þó bygðar væru þar símalínur, sem engan veginn bera sig fjárhagslega. Þá má líka benda á, að útvarpið getur haft mikla þýðingu til menningar og mentunar, ef viturlega er á haldið. Gegnum það getur farið fram ýmiskonar fræðsla. Það má víðvarpa bestu fyrirlestrum, söng og hljóðfæraslætti. Jafnvel er ekki óhugsandi, að fækka mætti prestum, ef það næði almennri útbreiðslu.

Að því er snertir rekstur útvarpsstöðva, þá er hann mjög mismunandi í hinum ýmsu löndum. En flest ríki virðast þó hallast að því, annað tveggja að reka það sjálf eða hafa hönd í bagga með því. Því að reynslan vill altaf verða sú, þegar slík fyrirtæki eru rekin af einstaklingum, þá hugsa þeir fyrst og fremst um sinn hag. Alveg eins og t. d. ef síminn væri einkaeign, þá myndu eigendurnir kinoka sjer við að leggja línur þangað, sem lítilla tekna væri von.

Það varð ofan á í útvarpsnefndinni að leggja það til, að ríkið tæki málið í sínar hendur, og að sömu niðurstöðu komst allsherjarnefnd líka. Útvarpsnefndin leggur til, að ríkið láti reisa útvarpsstöð í Reykjavík, er ekki hafi minni orku en 5 kw. í loftneti til víðvarpssendingar og sje ennfremur þannig gerð, að nota megi hana til venjulegra skeytasendinga til útlanda, og sje orka hennar í loftneti þá ekki minni en 10 kw. Aðalatriðið er, að hún leggur til að reisa eina stóra stöð, en ekki margar minni. Áætlað er, að stöð þessi kosti um hálfa miljón kr. Þetta er mikið fje, og er von, að mörgum blæði það í augum. En það er ekki eins tilfinnanlegt eins og maður heldur í fyrstu, því að samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar er rekstrarhallinn ekki nema 4 fyrstu árin; eftir það er gert ráð fyrir, að stöðin fari að gefa tekjur.

Niðurstaða allshn. er því sú að stefna beri að því, að ríkið taki að sjer rekstur stöðvarinnar, og leggur nefndin áherslu á, að útvarpsstarfseminni verði haldið áfram hjer á landi, því ella myndi alt það starf, er fjelag það, sem hjer hefir rekið útvarp, hefir int af hendi, verða til einskis. Eins og jeg hefi tekið fram áður, tel jeg það sjálfsagt að hafa ríkisrekstur á þessari stöð, en myndi þó skoða huga minn, ef kostur væri á að gefa einkafjelagi leyfi um stuttan tíma, með því skilyrði þó, að ríkið tæki fljótlega málið í sínar hendur. Til þess að sýna fram á, hve nauðsynlegt er að flýta því, að ríkið taki mál þetta í sínar hendur, vil jeg geta þess, að talið er heppilegast að hafa væntanlega stöð með langri bylgjulengd. En svo stendur á, að nýlega er búið að banna stöðvar með langri bylgjulengd í Evrópu. Var það gert á alþjóðafundi, sem haldinn var í Washington. Dragist því lengi að koma stöðinni upp má gera ráð fyrir, að ekki verði hægt að fá tæki með þessari bylgjulengd.

Brtt. nefndarinnar eru allar lítilvægar. Aðalbreytingin er í því fólgin að heimila stjórninni að taka lán í þessu skyni. Það kom til tals í nefndinni, hvort ekki væri tiltækilegt að fá þjóðleikhússjóðinn lánaðan til þessara hluta. Og jeg fyrir mitt leyti tel ekkert á móti því. En sjái stjórnin sjer fært að útvega peninga á annan hátt, er jeg því samþykkur.

Þá hefir allshn. talið betur fara á því að hafa orðið „útvarp“ um þessa hluti. Finst það viðfeldnara en „víðvarp“.

Að því er snertir bráðabirgðaákvæðið, að stjórninni sje heimilt að taka að sjer ríkisrekstur á útvarpi nú þegar með minni stöð en hjer ræðir um, meðan verið er að koma upp hinni stærri, vil jeg taka það fram, að minsta kosti fyrir hönd margra í nefndinni, að við væntum þess, að stjórnin fari ekki á neinn hátt ver með þá menn, sem brotið hafa ísinn í þessum málum hjer, og jafnframt hafa tapað fje á því, heldur en nauðsyn ber til, án þess jeg vilji á nokkurn hátt hvetja til þess, að hún geri það landinu til tjóns.