29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1929

Einar Jónsson:

Í nótt, þegar fundi var frestað, stóð svo á, að jeg var næstur á mælendaskránni. Ber mjer því að byrja að þessu sinni. Að vísu er það svo, að brotsjóirnir lenda mest á þeim, sem fyrstir eru í för. Svo var það í nótt um hv. 1. þm. Skagf. (MG), en vita má um leið, að þeir, sem andmæltu honum mest, voru ekki hálfir menn á við hann að neinu leyti. Þar verður öðru máli um mig að gegna, en jeg mun reyna að segja ekkert annað en það eitt, sem rjett er og satt.

Það stendur nú svo einkennilega á fyrir mjer, að þetta er í 12. sinn, sem jeg er við eldhúsdagsumræður hjer á Alþingi. Alla þessa eldhúsdaga hefi jeg hlustað eftir svörum stjórnanna, og hefi jeg aldrei heyrt neina eiga eins erfitt til andsvara og núv. hæstv. stjórn í nótt. En þetta er ofureðlilegt, því að jeg hefi aldrei. frá því jeg komst til vits og ára, vitað ríkjandi stjórn gera eins mörg axarsköft og þessi hefir gert þann stutta tíma, sem hún hefir með völdin farið.

Það mun nú ekki þykja gott að kasta slíkum orðum fram algerlega órökstuddum, en í viðbót við það, sem áður er komið, skal jeg nú tína til eitt eða tvö atriði, sem sanna, að þetta er ekki algerlega úr lausu lofti gripið. Skal jeg um leið játa, að mjer þykir leiðinlegt að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur, og þótt jeg sje ekki beint skyldugur til þess, þykist jeg þó mega til, vegna mála, sem mitt kjördæmi snerta.

Þar vil jeg fyrst nefna hjeraðsskólamálið, sem mörg undanfarin ár hefir verið mikið áhugamál bænda í Árnes- og Rangárþingum og þeir treysta hæstv. stjórn til að styðja og styrkja. Enda eru til margar umsagnir frá hæstv. dómsmrh. á undanförnum árum um fylgi við það mál. En jeg tel hann ekki veita því máli mikinn stuðning, þegar hann leggur samþykki á, að skólinn verði einn fyrir tvö hjeruð, ef hann ætlar síðan að reisa hann á hjara annarar sýslunnar. Því að nú hefi jeg heyrt, að skólann eigi að reisa á Laugarvatni, þrátt fyrir öll mótmæli sýslubúa í báðum sýslunum og óskir þeirra. — Fyrir einu ári völdu sýslunefndir báðar nefnd til að velja skólasetrið og fengu oddamann skipaðan af stjórninni. Fjell alt í ljúfa löð hjá sýslunefndum og var ákveðið, að úrskurði þessarar nefndar skyldi almenningur hlýða. Þessi nefnd leit svo á, að besta skólasetrið væri að Árbæ í Holtum. Jeg er þessu alveg samþykkur, ekki síst vegna fossins í Rangá, sem fellur hjá bænum og getur orðið skólanum ljós- og hitagjafi. En ef nú á að fara að snúast á ný í málinu og flytja skólann á fjarsta horn Árnessýslu, tel jeg ekki rjett að farið. Jeg skal nú játa, að jeg er ekki svo kunnugur gangi þessa máls í seinni tíð, að jeg geti fullyrt, hvað er að gerast, en hitt get jeg fullyrt, að hjeraðsbúar verða ekki ánægðir, nema valinn verði sá staður handa skólanum, sem nefndin taldi hæfastan.

Mjer er dálítið sárt um þetta mál, austurhjeraðanna vegna. Þar sem mentunarleysið er mikið, er mikil nauðsyn að reisa góða skóla. En það verður að fara rjetta leið í því sem öðru. Til að þreyta hv. deild ekki mikið lengur, get jeg nú látið útrætt um þetta mál. Jeg legg það ekki í vanda minn að halda tveggja klukkutíma ræður, eins og viss þingmaður gerir. Jeg var þessum hv. þm. fyrst samtíða í hv. Ed. í fyrra, og mjer er engin launung á því, að hann þreytti mig óskaplega með sínum eilífu ræðuhöldum. Þessum ræðum, sem altaf voru langar og einatt leiðinlegar.

Þá vil jeg minnast á annað nauðsynjamál austurhjeraðanna, járnbrautina. Tvo undanfarna daga hafa komið fram fyrirspurnir til hæstv. atvmrh. (TrÞ) um þetta mál, frá mjer og hv. 1. þm. Skagf. (MG). Við fengum nokkuð greinileg svör um það, hvað málinu liði, en loðin að því leyti, að hæstv. ráðh. vildi ekki lýsa sinni eigin afstöðu. En úr því að minst er á þetta mál, sakar ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðh., að jeg hefi heyrt hann tvisvar tala um þetta mál og komast í miklar mótsagnir við sjálfan sig. — Við vorum saman á fundi að Ægisíðu sumarið 1926, og þegar hæstv. ráðh. var spurður um afstöðu sína til járnbrautarmálsins, þá sagðist hann vera vinur bændanna í því máli sem öðrum. Bændum þótti gott að heyra þetta, enda höfðu þeir sjeð skrif í sömu átt í blaði hans og hjeldu, að þeir mættu treysta honum. — En jeg stóð hjer inni í hv. deild í fyrra, þegar greidd voru atkvæði með nafnakalli um þetta mikla mál, og þá kom það undarlega fyrir, að jeg heyrði núv. hæstv. atvmrh. segja ákveðið nei. Þar með var hæstv. ráðh. kominn í brigðmælgi gagnvart bændum; því er ómögulegt að neita. En ef hann vildi nú málsins vegna og þessara landshluta snúast enn á ný í málinu, þá yrði hann maður að meiri og betur þokkaður í austursveitunum.

Það er leiðinlegt fyrir hvern þingmann að geta vitnað í svo og svo margt, sem stjórnin hefir á samviskunni, og geta talið upp syndir hennar dægrum saman. En það ætti að vera hægðarleikur um núv. hæstv. stjórn. Væri t. d. ekki vert að minna hæstv. stjórn á nokkur atriði, sem eiga sammerkt í ýmsu, en þó er ekki til neins um að tala, nema stjórnin bætti ráð sitt eða þjóðinni yrði það til leiðbeiningar! T. d. væri ekki fjarri sanni að minna á allar fullyrðingar í „Tímanum“ um einkasölur á mörgum vörum, um stýfingu peninganna og margt annað, sem hæstv. stjórn er nú bersýnilega horfin frá. Af hverju er hún horfin frá því? Af því að nú sjer hún, að hún hefir á undanförnum árum skrifað af svo miklu alvöruleysi um málin, að enginn má taka mark á henni.

Í þessu sambandi vil jeg minnast á, að mig tekur sárt til þeirra merku og góðu bænda, sem eru í Framsóknarflokknum, að þeir hafa látið skrif Tímans koma sjer út í þá vanvirðu að gerast samflokksmenn jafnaðarmanna. Þeir reka sig á bráðum, en það er aðeins vafamál, hvort það verður fyr en um seinan. En einhverntíma hljóta þeir að sjá, að þeir berjast þarna móti eigin hagsmunum. Jeg er nú svo nískur, að jeg tími illa að sjá eftir þessum vinum mínum í vinnumensku til Rússlands, en þeir eru strax komnir áleiðis þangað. Jeg álasa ekki jafnaðarmönnum, því að jeg hefi aldrei álasað þeim, sem hafa haldið fram skoðunum sínum. En jeg álasa Framsóknarmönnum, sem gagnstætt stefnu sinni og hagsmunum láta teygja sig út í rússneska fenið. — Jeg ætla ekki að fara að tala um danska gullið, en þó verð jeg að segja, að ilt er í efni, ef hæstv. stjórn styðst við flokk, sem lifir á erlendu fje.

Jeg vildi helst óska, að Framsóknarmenn sneru aftur strax í kvöld frá villu sinni og rækju frá sjer rauða bolann.

Það er einkennilegt, að alt það álas, er núv. hæstv. stjórn hefir hlotið, tekur alls ekki til eins af ráðherrunum. Af hverju er það? Það er af því, að hann er elstur og merkastur maðurinn og fer helst sínar leiðir. Jeg held, að það mundi vekja almenna ánægju í landinu, ef hinir tveir ráðherrarnir segðu af sjer og skildu hæstv. fjmrh. (MK) einan eftir. Samt held jeg nú, að þetta sjeu alt í raun rjettri góðir drengir og gætu góðu komið til vegar, ef þeir vildu nota sig rjett.

En hlægilegt var montið hjá hæstv. forsrh. og leiðinlegt fyrir hann sjálfan, þegar hann settist niður í sæti sínu í nótt með þessum aftaka rembingi og sagði, að hv. 1. þm. Skagf. hefði ekki reist sjer neina bautasteina í stjórnarráðinu, heldur aðeins skilið þar eftir spörð.

Jeg mun nú fara fljótt yfir sögu. En þó að einhver tæki það fyrir að vera langorður, þá væri það reyndar ekki verk hvorki hæstv. dómsmrh. eða atvmrh. að álasa fyrir það, þar sem sannanlegt er, að þeir eru allra manna langorðastir. Til dæmis hefir hæstv. dómsmrh. haldið 120 ræður, sem fyltu 557 dálka, á einu þingi, enda kemst enginn í hálfkvisti við hann. Og margt af þessu er óþarft, ósatt og öfgafult. Jeg ætla að vorkenna honum fyrir þetta og fleira og vona, að hann sem ráðherra bæti ráð sitt í þessu og öðru og taki alt aðra stefnu en hann nú hefir. Og jeg vildi að endingu óska, að þessir hæstv. ráðherrar væru svo vel innrættir, að þeir sæju sóma sinn í að styðja að hinum nauðsynlegustu hjeraðsmálum og styrkja þau eins og þeir sjá sjer fært, og það sem fyrst, svo sem járnbrautina austur. Annars er það margt, sem þarf að leita aðstoðar um til hæstv. ráðherra; en mönnum er bara svo ósýnt um að leita til þessara ráðherra.