14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi segja fáein orð út af bráðabirgðaákvæði þessa frv. Þegar lög þau, er nú gilda um útvarp, voru samþykt, var jeg þeim fylgjandi, með því að mjer fanst ekki ósennilegt, að málinu yrði fyr hrundið í framkvæmd með því að fá það einkafjelagi í hendur. Framkvæmd þessara laga hefir nú gengið að ýmsu leyti skrykkjótt, að allmiklu leyti vegna annmarka, sem stafa af því, hve erfitt er að halda uppi útvarpi í svo litlu landi sem þessu. En fjelaginu hefir þó aðallega mishepnast í skiftum sínum við notendur sakir þess, að það var of bráðlátt eftir tekjunum. Það gerði of harðar kröfur til notenda, og hefir það orðið til flokkadráttar í útvarpsmálinu, milli fjelagsins annarsvegar og útvarpsnotenda hinsvegar. — Aðstaða útvarpsfjelagsins hefir altaf verið mjög erfið og þröngur fjárhagur þess. En jeg tel nauðsyn bera til, að það fyrirtæki, er frv. fjallar um, verði sjálfstætt fjárhagslega. Í 3. gr. er sagt, að halli af rekstrinum eigi að greiðast úr ríkissjóði. Mjer virðist óhjákvæmilegt, að nokkur halli verði fyrst í stað, ef ekki eru heimtuð ósanngjörn iðgjöld. Má búast við, að fjárhagur fyrirtækisins verði bestur, ef iðgjöldin eru við almennings hæfi. Þá ætti það ekki lengi að verða baggi á landinu. Þótt framkvæmd þessa máls heyri ekki undir þá stjórnardeild, er jeg veiti forstöðu, vil jeg segja þá skoðun mína, að jeg tel ekki geta komið til mála, að landið skifti sjer af útvarpsmálinu fyr en reist verður ný og stór stöð. Jeg tek þetta fram til þess, að það sje skýrt, að a. m. k. einn úr stjórninni álítur enga skyldu hvíla á henni um að sjá fyrir minni bráðabirgðastöð, enda mundi sennilega svo fara, að allir yrðu óánægðir með hana.