14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Fyrir mjer vakti að taka það skýrt fram, að jeg sem einn úr stj. álít, að ekki geti komið til mála neitt millistig í útvarpsmálinu, áður en fullkominni stöð er komið upp. Jeg tek þetta fram vegna þess, að bráðabirgðaákvæði það, sem hv. Nd. bætti við frv., er svo skilið af sumum, að ætlast sje til, að stj. komi í veg fyrir, að útvarpsstarfsemi hætti á meðan verið er að undirbúa framkvæmdir. Jeg vildi með því, sem jeg sagði áðan, gera hv. þdm. kunnugt, að jeg er algerlega mótfallinn því, að ríkið fari að reka smástöð. Fyrir mjer er aðalatriðið að fá góða stöð, sem geti borið sig sjálf og þjóðin geti orðið ánægð með. Slíka stöð á ríkið að reisa, eða enga ella.