14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1672 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg held, að hæstv. ráðh. hafi ekki getað fengið það út úr orðum mínum, að jeg væri að mæla með einhverju kákmillistigi milli þess, að útvarpsstöðin hjer hætti og ný stöð kæmist á fót. Jeg sagði einmitt, að komið gæti fyrir millibilsástand, þegar engu verði útvarpað. —

En jeg vil nú aðeins drepa á eitt, sem ekki hefir enn komið fram í umræðunum. Á það verður að leggja mikla áherslu, að fullkomið eftirlit verði með því, að engin hlutdrægni eigi sjer stað við útvarpssendingu, þegar það er komið í hendur hins opinbera. Árið 1925 var lagt ríkt á við stj. að gæta þess, að engri hlutdrægni væri beitt, einkum að einum stjórnmálaflokki væri ekki gert hærra undir höfði við útvörpun frjetta en öðrum ö. s. frv. En því er ekki að leyna, að á þessu þykir hafa orðið nokkur misbrestur. Vil jeg þess vegna víkja því til hæstv. stj., að hún gæti þess vandlega að búa svo um, þegar hin nýja stöð kemur, að þar eigi sjer engin hlutdrægni stað. T. d. getur það haft mikla þýðingu, ef einu blaði eru veitt forrjettindi fram yfir önnur um að lesa upp frjettir þess, sem e. t. v. eru meira og minna litaðar. En það er víst, að slíkt hefir átt sjer stað nú. Skora jeg á hæstv. stj. að taka það til athugunar.