29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Jónsson:

Við höfum nú staðið hjer í eldhúsinu um stund. Hjer var vakað alllengi fram eftir síðustu nóttu, og enn er komið fram á kvöld og sýnist þó enn ekkert lát á umr.

Þegar litið er á það, hve stuttan tíma hæstv. stjórn hefir enn setið að völdum, hljóta menn að undrast, hve mikið eldsneyti henni hefir þegar tekist að draga saman. Því að það er óneitanlega geysimikið verk, ef ætti að telja upp allar syndir hennar og átelja þær svo sem vert væri. Það hefir nú þegar verið minst á allmargar þeirra, en jeg ætla nú samt að bæta nokkrum við og drepa lítillega á nokkrar þær helstu.

Eins og Guðmundur Finnbogason sagði einu sinni um Matthías Jochumsson, að það yrði að fyrirgefa honum það, að hann hefði ort fleiri góð kvæði en kæmust fyrir í einni bók, eins vil jeg segja, að menn verða að fyrirgefa það, að hæstv. stjórn hefir á sinni stuttu æfi tekist að afbrjóta fleira en við Íhaldsmenn getum átalið á einni kvöldstund.

Jeg hefi nú hugsað mjer að athuga dálítið gerðir hæstv. stjórnar, og þá sjerstaklega aðgerðir hæstv. dómsmrh. út af gagnfræðaskólannm á Akureyri.

Reyndar finst mjer, að hæstv. ráðherrar eigi þar allir óskilið mál, því að þeir virðast allir hafa tekið sig saman um að fremja þá lögleysu, sem framin hefir verið í því máli.

Jeg hefi að vísu þegar borið fram fyrirspurn og till. til þál. út af þessu máli, en af því að þær hafa ekki enn komist að, ætla jeg að taka málið til umr. nú, þótt ef til vill gefist tækifæri til þess síðar að ræða málið nánar, nefnilega þegar þáltill. mín kemur til umræðu.

Eins og kunnugt er, fór hæstv. dómsmrh. frægðarför mikla tjl Norðurlands í haust.

Stjórnarblaðið „Tíminn“ segir frá þessari för 5. nóv.: „Hann“ (þ. e. dómsmrh.) „heimsótti gagnfræðaskólann á Akureyri og færði honum aukin rjettindi“.

Eðlilegt var, að ýmsir væru dálítið spentir að vita, hver þessi auknu rjettindi væru, því að varla gátu það talist beinlínis aukin rjettindi, þó að hæstv. dómsmrh. færði skólanum að gjöf Baulu-mynd Ásgríms í þessari sömu ferð. Það var um þessar mundir, þegar ráðherrann var að víðvarpa málverkasafni ríkisins um ýmsa eldfima timburhjalla landsins.

En lausn málsins kom. Hún er í brjefj frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 25. okt. 1927. Brjef þetta. hljóðar svo:

„Á fundi 22. okt. s. l. hefir ráðuneytið ákveðið, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri skuli hjer eftir hafa heimild til þess að halda uppi lærdómsdeild, eftir sömu reglum og gilda um lærdómsdeild Mentaskólans samkv. reglugerð frá 1908, með 2 minni háttar breytingum viðvíkjandi aldurstakmarki og sumarleyfi. Skal þessi deild hafa rjett til þess að útskrifa stúdenta, og fari próf þeirra, þar til öðruvísi verður ákveðið með lögum, að öllu fram eftir ákvæðum gildandi prófreglugerðar máladeildar Mentaskólans, enda veiti allan sama rjett“. — Svo er heitið reglugerð.

Það var þá hvorki meira nje minna en stjórnarráðsbrjef fyrir þessu! Og ráðherrarnir, svona nýkomnir í stöðuna með svima af upphefðinni, hafa víst varla getað hugsað sjer öllu öflugra skjal en svona brjef, samið „á fundi“ í ráðuneytinu.

Akureyrarbúar, eða þeir, sem að skólamálinu stóðu, urðu vitanlega glaðir yfir þessari „gjöf“. Dómsmrh. var haldin syngjandi veisla og hann hyltur í ræðum og söngvum. Hvort Akureyringar hafa gert sig samkvæmishæfa eftir recepti ráðh., er eftir að vita.

Einn andstæðingaritstjórinn sagði: „Hví er engin hirð um slíkan mann?“ (Dómsmrh. JJ: Það var ennþá betra h j á „Mogganum“!).

Þetta var sannarlega heiðursdagur dómsmálaráðherrans. —

En lán þessa heims er hverfult. Varla var dagurinn liðinn, þegar ónotalega skýflóka fór að draga upp, og hreyttust úr þessum flókum ónota skúrir.

Það var sem sje farið að spyrja um heimildir. Það var farið að efast um löggjafarmátt ráðherranna, jafnvel þótt þeir væru „á fundi“. Stjórnarráðsbrjef eru því miður ekki lög. En allir eiga að hlýða lögunum, og líka ráðherrarnir „á fundi“.

Stjórnarblaðið var látið rífa seglin. Í grein um þetta mál 12. nóv. er nú ekki lengur talað um aukin rjettindi, heldur stendur þar: „Hjer hefir það eitt verið gert, að heita Akureyrarskóla rjettindum“. Þetta kemur ekki rjett vel heim við ráðherrabrjefið, sem jeg las áðan, og það breytist ekkert við það, þó að stjórnarblaðið sje látið feitletra orðið heita. Í brjefinu er að vísu heitið reglugerð um skólann, en rjettindin eru tvímælalaust gefin, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri skuli hjer eftir hafa heimild til“ o. s. frv.

Jeg er nú að vísu ekki lögfræðingur, en bæði hefi jeg fært málið í tal við nokkra lögfræðinga, og auk þess sýnist það liggja nokkuð beint við. Og jeg fæ ekki betur sjeð en að ráðherrunum „á fundi“ í stjórnarráðinu hafi tekist að fremja þrefalda lögleysu með þessu stutta brjefi sínu.

1. Jeg skal þá byrja á því, sem stjórninni mun veita einna skást að færa einhverjar tylliástæður fram fyrir, sem sje það, að stjórnin gefur hjer með Akureyrarskóla allríflega fjárveitingu án allrar heimildar til slíks frá Alþingi. Fullkomin lærdómsdeild hlýtur að kosta mikið fje, annars verður hún kák eitt og þeim til stórtjóns, sem hún á að verða að gagni.

Stjórnin mun í þessu sambandi vitna í það, að oft er nauðsyn að grípa fyrirfram talsvert fje úr ríkissjóði upp á væntanlega fjárveitingu. En enga nauðsyn er hjer hægt að benda á. Þetta mál gat allra hluta vegna beðið til Alþingis, nema bara vegna þessa eina: Dómsmálaráðherrann hefði orðið af veislunum og ræðunum.

Allir munu nú sjá, hvað í því felst, ef ráðherrar færu að taka upp á þessu, að setja upp dýrar stofnanir án þess að spyrja Alþingi. Í því felst annaðhvort það, að ráðherrarnir neyða sína menn síðar til þess að samþykkja þetta, og þar með eru gjöldin komin, eða að þetta verk þeirra verður hreinasta lokleysa. Og svo mun vera um þessa skólastofnun. Hún er hrein lögleysa, þar til fje er veitt í fjárlögum til hennar. Akureyri er jafnlærdómsdeildarlaus eins og ef einhver fjósakarl framan úr Bárðardal hefði komið til Akureyrar og gefið þeim þar skóla. Hitt er annað mál, hvort flokkur hæstv. stjórnar leysir vandræði hennar eins og styr leysti vandræði Vermundar mjóa forðum.

2. Í öðru lagi hefir stjórnin með þessu farið í bág við háskólalögin 30. júlí 1909.

Í stjórnarráðsbrjefinu segir sem sje svo um próf úr þessari svonefndu lærdómsdeild, að það skuli veita „allan sama rjett“ og stúdentspróf frá mentaskólanum. — Hvaða rjett veitir nú stúdentspróf frá mentaskólanum? Fyrst og fremst þann, að samkvæmt háskólalögunum eiga stúdentar kröfu til þess að innritast í háskólann, og þennan rjett mun því stjórnin hafa ætlað að gefa þeim, sem útskrifast úr Akureyrarskóla.

Í háskólalögunum segir svo í 17. gr., að þeir einir hafi rjett til innritunar í háskólann, sem lokið hafa prófi við hinn almenna mentaskóla eða annan lærðan skóla honum jafngildan.

Einhver aukatilsögn og prófmynd frá Akureyri nær alls ekki til þess að fullnægja þessu skilyrði. Samt hefir háskólaráðið þrisvar sinnum verið spurt um þetta mál.

1926 spurðu þingmenn Eyf. háskólaráðið, hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu, að stúdentar frá Akureyri fengju háskólavist. — Meiri hl. háskólaráðsins gaf það svar, að ef sama eftirlit væri haft með prófi frá Akureyri, mundi vera hægt að leyfa þetta, en bætir svo við: „ef það þætti ekki koma í bága við háskólalögin“.

1927 spurði kirkjumálaráðherrann um þetta sama út af þál. í Sþ. um stúdentspróf á Akureyri. Háskólaráðið svaraði þá meðal annars: „Meðan ekki er komið á fót fullkominni lærdómsdeild við gagnfræðaskólann á Akureyri, verður skólinn ekki talinn jafngildur hinum almenna mentaskóla í Reykjavík“.

Þetta var skýrt svar, eins og málið lá þá fyrir. Í fyrra svarinu tjáir háskólaráðið sig ekkert hafa móti stúdentum frá Akureyri, ef þeir sjeu svo úr garði gerðir, að ekki fari í bág við háskólalögin, en í síðara svarinu kveða þeir upp úr með álit sitt á skólanum og því stúdentsprófi svonefndu, sem þá átti að fara að löggilda.

„Háskólaráðið telur ekki unt að neita nokkrum þeim um viðtöku í háskólann, sem lokið hefir stúdentsprófi í hverri stofnun sem er, svo fremi að hún fullnægi þeim skilyrðum, sem sett eru um nám og próf (sbr. 17. gr. háskólalaganna) í lærdómsdeild hins almenna mentaskóla í Reykjavík, — eða settar kunna að verða“.

Jeg hefi tilgreint þessi svör háskólaráðs, úr því að þau liggja fyrir, en ekki af því, að jeg telji háskólaráðsúrskurð í þessu efni hafa veitt úrslitaatkvæði. Lögin sjálf verða að skera úr. Og eftir þeim hefir háskólaráðið að mínu viti tekið fulllint á málinu. Lögin heimta sem sje skýlaust próf, ekki aðeins frá einhverjum skóla, heldur frá lærðum skóla jafngildum mentaskólanum í Reykjavík.

Dómsmálaráðherrann mun halda því fram, að hann hafi nú uppfylt allar kröfur háskólaráðs með þessari stofnun lærdómsdeildar við gagnfræðaskólann á Akureyri. Hann hafi nú „sett á fót fullkomna lærdómsdeild við gagnfræðaskólann á Akureyri“, eins og háskólaráðið orðar það.

En þar er sá hængur á, sem jeg hefi getið um, að stofnun þessarar lærdómsdeildar er alger markleysa, meðan ekki er veitt fje til hennar. — En auk þess mun jeg nú sýna, að þessu verður ekki einu sinni bjargað með fjárveitingu. Hjer bætist sem sje við 3. lögleysan, sem jeg tel hafa verið framda með þessu þráttnefnda stjórnarráðsbrjefi. En það eru lögin um sjálfan gagnfræðaskólann á Akureyri, sem þar er brotið í bág við.

Akureyrarskóla er skipað með lögum nr. 20, 9. júlí 1909. Í þeim lögum er hann skýrt nefndur „gagnfræðaskóli“, svo að erfitt er að sjá, hvernig hann getur án lagabreytingar fullnægt því skilyrði háskólalaganna að vera „lærður skóli“.

Þar er og skýrt og greinilega afmarkað kenslusvið hans og nefndar námsgreinir.

Kennarafjöldi er ákveðinn, 4 kennarar, og er einn af þeim meistari. Yfirleitt eru lögin svo greinileg sem frekast má verða og takmarka hann alveg við hlutverk hans sem gagnfræðaskóla.

Hvernig er það nú mögulegt að breyta þessum eða öðrum lögum með Stjórnarráðsbrjefi?

Slíkt nær auðvitað engri átt. Það er svo alkunnugt og viðurkent, að það er nærri því skömm að vera að taka það fram í þingræðu, að slík brjef og reglugerðir geta aðeins haft gildi innan vjebanda laganna. Það má kveða nánar á um eitt og annað, en aldrei breyta neinu í lögunum, enda er þá ekki gott að sjá, hvað lög ættu að þýða.

Það er leiðinlegt að þurfa að vera að rifja upp þetta stafróf hjer frammi fyrir háttv. þingm., sem auðvitað þekkja þetta allir fyrir löngu, en hvað skal gera, þegar svona nokkuð kemur fyrir, að landsstjórnin þekkir ekki stafina? Er um nokkuð annað að gera en taka hana á knje sjer og reyna að kenna henni að stafa?

Svona litu auðvitað allir á það, sem áður höfðu komið á breytingum á þessum skóla. Með lögum þeim, sem áður voru nefnd, voru numin úr gildi l. nr. 38, 10. nóv. 1903, er skólinn var fluttur til Akureyrar, en þau lög breyttu aftur eldri lögum um Möðruvallaskóla. — Þeir vissu það þá, að það þarf lög til þess að breyta lögum.

Þegar svona er ástatt, að stjórnin virðist hafa gengið á svig við ekki minna en þrenn lög, er ekki furða, þó að mann langi til að spyrja um heimildina og mótmæla þessum lögleysum. Það stendur næst.

Nú get jeg sagt, að lokið sje mínu aðalerindi við hæstv. stjórn. Þó get jeg ekki stilt mig um að minnast á eitt atriði enn, sem kemur við afgreiðslunni í stjórnarráðinu. Um það mál, sem jeg ætla að gera að umtalsefni, er getið í blaðinu Vísi, og hefi jeg raunar ekki neinu við það að bæta, sem þar er sagt. Þykir mjer þó rjett, að það komi fram hjer á hv. Alþingi.

Það, sem jeg ætla að tala um, er það, þegar gert var tilboð um innanhússhúðun Landsspítalans.

Eins og allir vita, hefir mikið fje verið veitt til Landsspítalans. Þjóðin hefir tekið við hann sjerstaklega miklu ástfóstri. Undir því er ekki lítið komið, hvernig hagað er framkvæmdum öllum um hann. Má ætla, að þjóðin láti sig það ekki litlu skifta, hversu varið er því fje, sem hún hefir lagt fram, að miklu leyti með frjálsum samskotum, til þessa fyrirtækis.

Í auglýsingu stjórnarinnar, sem birtist 12. okt. síðastl., stendur þetta m. a. þar sem tekið er fram, hvernig tilboðin skuli vera:

„Tilboð í framangreind verk skal svo gert, að sjertilboð sje um kjallara og hverja hæð fyrir sig og aðaltilboð um alt saman í senn, sjertilboð í gjallsteypu og slitlög öll á gólfum“.

Vitanlega var það alveg rjett að óska eftir sundurliðuðu tilboði. Kæmu misjafnlega hagfeld tilboð um einstaka hluta verksins frá sama manni, var ekki nauðsynlegt, að hann tæki það alt, ef lægra tilboð kæmi frá öðrum um suma liði. Jeg vil í þessu sambandi leyfa mjer að biðja hv. þdm. að taka vel eftir því, að óskað er eftir því, að slitlög og gjallsteypa sje reiknuð sjerstaklega.

Skal jeg nú segja sögu þessa máls áfram og tel mig gera það best með því að lesa upp kafla úr umræddri grein í blaðinu Vísi, sem rituð er af stjórn Múrarafjelags Reykjavíkur og dagsett 23. nóv. síðastl.:

„Á tilskildum tíma voru 4 tilboð komið á skrifstofu húsameistara, og viljum vjer ekki þreyta lesendur vora á að geta nema tveggja þeirra, þess lægsta og þess, sem svo var úr garði gert, að það gat orðið lægra með munnlegri skýringu.

Fyrsta tilboðið, sem upp var lesið, var svona:

Tilboð frá undirituðum í innanhúðun Landsspítalans samkvæmt lýsingu.

Sjertilboð í:

Kjallara ...............

kr. 22500

I. hæð ..... ..........

— 25000

II. hæð ..... ........

— 25500

III. hæð...... .... ....

— 26200

Loft ..................

— 15500

Í alt verkið að undanskildum gólfum (slitlagi og gjallsteypu) kr. 112000 — eitt hundrað og tólf þúsund krónur. — (Mismunur á samanlagðri upphæð sjertilboðanna og tilboði í alt verkið byggist á þeim hagnaði, sem af því hlýtst að taka alt verkið í einu).

Sjertilboð í slitlag og gjallsteypu á gólf kr. 13000. — þrettán þúsund krónur. —

Reykjavík, 22. okt. 1927.

Þessar upphæðir voru umsvifalaust lagðar saman og litið svo á, að tilboðið næmi alls 125 þús. kr.

Næsta tilboð, sem upp var lesið, höfum vjer hví miður ekki orðrjett við hendina, en sundurliðun þess var þannig:

Fyrir kjallara .........

26 þús. kr.

— I. hæð .. .... ..

29 — —

— II. hæð .. ......

30 — —

— III. hæð ..... ...

30 — —

— Lofthæð ........

15 — —

Aðaltilboð 119 þús. kr. Sjertilboð í gjalllög og slitlög 18500.

Með tilboð þetta var farið á sama hátt og hið fyrra. Upphæðirnar voru lagðar saman og álitið, að tilboðsupphæðin næmi alls 137500 kr.

En er öll tilboðin höfðu verið lesin upp, kemur munnleg skýring frá tilboðsgefanda þessa tilboðs. Heldur hann því nú fram, að slitlög og gjallsteypa sje innifalið í aðaltilboðinu, þ. e. þessum 119 þús. kr.

Hvort skýring þessi hefði komið fram, ef öll tilboðin hefðu verið hærri en 137500 kr., er ósannað mál.

Ekki hreyfði húsameistari neinum mótmælum, en virtist taka þessa munnlegu skýringu fyllilega til greina. Má þetta undarlegt virðast, því hann hefir látið svo um mælt, að hefði tilboðsgefandi sökum forfalla verið fjarstaddur og skýring þessi ekki komið, þá hefði verið litið svo á, að tilboð þetta næmi 137500 kr.“

Endirinn varð svo sá, að þetta tilboð var tekið.

Það var nú ekki nema von, að Múrarafjelagið, sem gætir hagsmuna þeirra manna, sem múraraiðn stunda, teldi þetta nokkuð einkennilegt. Stjórn þess sneri sjer til dómsmálaráðuneytisins með brjefi dags. 5. nóv. síðast]., þar sem hún gerði grein fyrir skilningi sínum á málinu og æskti þess, að ráðuneytið tæki lægsta tilboðinu. Brjefið er stillilega og kurteislega ritað. En hvað skeður? Stjórn Múrarafjelagsins fær harðort brjef frá ráðuneytinu, þar sem þess er getið, að þó að ekki verði höfðað mál gegn henni nú, skuli hún gæta þess að skrifa ekki fleiri þvílík brjef. Í lok stjórnarbrjefsins standa þessi orð:

„Að þessu sinni mun ráðuneytið ekki láta höfða mál gegn fjelagsstjórninni, en best mun henni að skrifa ekki fleiri brjef hingað, ef vel á að vera.“

Það er því ekki að ófyrirsynju, að stjórn Múrarafjelagsins kemst svo að orði í Vísisgreininni:

„Af einskærri náð ætlar dómsmálaráðherrann ekki að lögsækja okkur í þetta skifti. En vjer iðnaðarmenn vitum, hvers vjer megum vænta í framtíðinni af þessum dómsmálaráðherra bænda og jafnaðarmanna, ef vjer gerumst svo djarfir að leita rjettar vors og látum álit vort í ljós á þeim málum, er varða heill og framtíð stjettarinnar.“

Já, það er sannarlega ekki ofmælt hjá greinarhöf. Menn vita, á hverju þeir eiga von, ef þeir dirfast að leita rjettar síns gagnvart rangsleitni þessa hæstv. dómsmrh.

Jeg hafði satt að segja búist við, að jafnaðarmenn hjer í deildinni mundu hreyfa þessu máli. Bæði láta þeir jafnan svo, að þeim sje ant um hina vinnandi stjett, og auk þess var það flokksbróðir þeirra, sem lægsta tilboðið átti og fyrir ranglætinu varð, maður, sem þeir m. a. hafa stutt til að komast í bæjarstjórn. Það var Kjartan Ólafsson, sem hefði átt að fá vinnuna.

Nú kunna einhverjir að segja, að ekkert sje um þetta að fást, fyrst sá, sem samið var við, lækkaði tilboð sitt; það hafi þó orðið gróði fyrir landið. En þetta er skakt hugsað. Þó að svo færi, að aðaltilboð hans yrði lægst, átti stjórnin aðeins að ganga að því ú frádreginni gjallsteypu og slitlögum á gólfum, en taka svo aukatilboði frá hinum, sem lægra buðu í þann hluta verksins. Á því hefði græðst 6500 kr.

En stjórnin hefir hjer gert sig seka um margt í einu: Hún hefir varpað frá sjer 6500 kr., og þannig sóað fje ríkisins að óþörfu, brotið sína eigin skilmála og svarað kurteislegri málaleitun dónalega. Nú vildi jeg gjarnan heyra, hvernig hæstv. dómsmrh. fer að verja þessa framkomu.

Skal jeg nú hverfa frá þessu efni, en áður en jeg hætti, ætla jeg að minnast á 1–2 mál í viðbót. Hv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir nú sýnt deildinni ljóslega fram á sinnaskifti hæstv. forsrh. Er það að vísu gleðilegt, ef hjer er að sannast máltækið gamla, að þeim, sem guð gefur embætti, gefur hann líka vit. Og jeg vil óska þess, að guð haldi áfram að gefa hæstv. ráðherrum meira vit. En þó að mjög hafi skift um til hins betra um þá, kemur fram í sambandi við sinnaskiftin ein mjög athugaverð staðreynd. Því að þegar þeir breyta nú um afstöðu, sjest af því, að þeir hafa áður siglt undir fölsku flaggi. En það er alls óvíst, að þeir væru nú þar, sem þeir eru, ef þeir hefðu gengið til kosninganna undir sínu rjetta flaggi, því að á sínum fyrri stefnumálum hafa þeir flotið upp: ráðherrastólana.

Jeg ætla að minnast á Titansjerleyfið. Mjer þykir undarlegt, hve varfærinn hæstv. forsrh. er nú alt í einu orðinn í því máli. Þegar það var til umræðu í fyrra í þessari hv. deild, talaði hann að vísu lítið, en kvaðst þó ekki hika við að greiða atkv. gegn sjerleyfinu. En nú er hann orðinn furðulega varfærinn. Hann ætlar alveg að kæfa málið í umsögnum, rjett eins og þegar menn styttu einum rómverska keisaranum aldur með því að kæfa hann í rúmfötunum. Honum finst nú goðgá að kalla þetta járnbrautarmál. En jeg held, að ef bændur fá sína nauðsynlegu og margþráðu járnbraut austur yfir fjall, sje sama, hv að málið er nefnt. Hæstv. ráðh. segir, að fossavirkjunin þarna eystra verði ekki gerð fyrir landbúnaðinn. En hann laut þó sjálfur svo lágt í fyrra fyrir hönd bænda að biðja um, að bændur fengju ódýran áburð frá Titan, ef til virkjunar kæmi. Við þetta er í sjálfu sjer ekkert að athuga, en með því er viðurkend gagnsemi virkjunarinnar fyrir landbúnaðinn.

Hæstv. dómsmrh. fáraðist mjög út af olíugeymum Shellfjelagsins við Skerjafjörð. Jeg kem ef til vill að þeim síðar. En mjer þykir ákaflega einkennilegt, að hann skyldi ekki geta um olíugeyma þá, sem British Petroleum Co. byggir hjerna við höfnina. Mætti þó minnast á það fjelag, því að það er gamall kunningi. Við það gerði landsverslun sinn nafnfræga samning, sællar minningar, sem lesa má um í þingtíðindum frá fyrri árum. E. t. v. hvílir einhver helgi yfir nafni þessa fjelags í. augum hæstv. dómsmrh. En mig langar samt til að bera fram spurningu í sambandi við það. Jeg hefi heyrt að þetta fjelag hafi sýnt Íslendingum þá lítilsvirðingu að láta á sjer skilja, að hjer mundu engir þeir menn, sem færir væru um það að smíða olíugeymana. Þetta minnir á gamla niðurlægingartíma þjóðarinnar, þegar Danir hjeldu, að Íslendingar gætu ekki neitt. Það minnir á þann tíma, þegar ekki þótti einu sinni fært að nota ísl. sand við byggingu dómkirkjunnar í Reykjavík. Hjer kemur fram hið gamla vantraust á Íslendingum og öllu íslensku, sem stafar af því, að við höfum til skamms tíma verið lokaðir úti frá svo mörgum sviðum.

Nú jæja, þetta fjelag, sem grætt hefir stórfje á olíuverslun hjer, launar nú gróðann með þessari lítilsvirðingu. Ef til vill hefir það fengið þetta álit á okkur við það að kynnast verslunarviti okkar í olíusamningunum. Jeg skal nú ekki fullyrða neitt um það, hvað hæft er í þessum fregnum, að fjelagið hafi viljað fá að flytja inn enska smiði. En þetta er altalað, og stjórnin á að hafa veitt leyfið. Jeg veit heldur ekki sönnur á því. En nú vil jeg spyrja hæstv. atvmrh.: Er þetta satt? Nú hefir það sýnt sig, að íslenskir járnsmiðir gátu sett upp olíugeymana við Skerjafjörð, sem eru þó miklu stærri en geymarnir við höfnina. Hafa þeir því fullkomlega rekið af sjer ámælið.

Hæstv. fjmrh. hefir að mestu leyti verið friðhelgur í þessum umræðum. Og jeg vil ógjarnan brjóta þann frið, sem yfir honum hvílir. En jeg verð að beina til hans spurningu um gengismálið. Það var hæstv. forsrh., sem benti mjer á að gera það. Það er kunnugt, að hæstv. fjmrh. hefir verið á móti stýfingu. Hann og Klemens Jónsson höfðu sjerstöðu í því máli innan Framsóknarflokksins, að því er sagt var. Nú hefir hæstv. forsrh. gefið mjer tilefni til þess að halda, að hæstv. fjmrh. hafi snúist hugur. Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að sjer þætti það ótrúlegt og taldi, að hæstv. forsrh. mundi hafa vikið frá sinni stefnu. En sá hæstv. ráðh. (TrÞ) sagði, að það væri hæstv. fjmrh. (MK), sem hefði látið kúska sig. Og hann benti á eitt atriði því til stuðnings, sem jeg hafði ekki athugað fyr. Það er, að hæstv. fjmrh. hefir skipað sem formann gengisnefndar einhvern hinn allra ákveðnasta og duglegasta verðfestingarmann þingsins, hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Jeg skal játa, að þetta er mjög hæfur maður. En jeg segi þetta af því, að skipun þessa manns styrkir mjög það, sem hæstv. forsrh. heldur fram, að hæstv. fjmrh. hafi látið kúska sig. Það verður að teljast alveg óverjandi, ef hann hefir skipað andstæðing sinn í þessu máli í gengisnefndina. Liggur þá sú skýring nærri, að honum hafi snúist hugur og skipað núverandi skoðanabróður sinn. En til þess að binda enda á óvissuna, ber jeg fram spurninguna. Hún er eiginlega frá hæstv. forsrh., en jeg flyt hana fyrir munn hans. Og spurningin er: Hver er afstaða hæstv. fjmrh. í gengismálinu?

Mjer er mjög umhugað að fá svar hans við þessari spurningu, því að hingað til hefi jeg verið rólegur, af því að jeg hjelt, að því mætti treysta, að hann væri móti stýfingu.

Áður en jeg hætti, ætla jeg snöggvast að snúa mjer aftur að hæstv. dómsmrh. Mjer finst nú altaf einna mestur akkurinn í honum. Hæstv. forsrh. var og eldfimur fyrrum, en nú er hann eins og honum hafi verið dýft ofan í einhvern vatnsgeymi.

(Forsrh. TrÞ: Ætli það hafi verið olíugeymir?). Nei, það hefir víst verið eitthvað annað í þeim geymi, því að hæstv. forsrh. er nú hreint hættur að loga og vatnsbragð af öllu, sem frá honum kemur. En hæstv. dómsmrh. er altaf jafneldfimur. Um hann gæti það átt við, sem Shakespeare segir um feitu eldabuskuna, að í henni sje svo mikill eldsmatur, að í henni muni loga heila viku eftir að öll veröldin er brunnin til ösku.

Hæstv. dómsmrh. var að víta hv. þm. Vestm. (JJós) fyrir að hafa haldið langa ræðu um lítið efni. En efnið, sem sá hv. þm. talaði um, var hvorhi meira nje minna en það, að dómsmrh. landsins hefði brotið tvenn lög. Þetta þykja hæstv. dómsmrh. smámunir einir, að slíkt sje á hann borið. Hamingjan hjálpi þeirri þjóð, sem á þann mann að æðsta verði rjettlætis og. laga, sem svo hugsar. Hæstv. dómsmrh. gat haldist það uppi stöðu sinnar vegna að segja, að hv. þm. Vestm. færi með rangt mál, en varð þá auðvitað að sanna orð sín. En að segja, að það sjeu smámunir — það er óþolandi af dómsmálaráðherra. Hann á að gæta laganna í landinu. Og allir vita, hve erfitt og vandasamt verk það er. En fyrsta atriðið er þó það, að þeir sjeu ekki sjálfir lögbrjótar, sem gegn lögbrotum eiga að standa. Það er eins og Gissur biskup Einarsson sagði, að mig minnir við Pjetur Einarsson: „Ber og þeirri hönd hreinni að vera, sem af vill þvo annara saura“. Jeg veit ekki, hvar við stöndum, ef það fer að tíðkast, að ráðherra brjóti lög landsins og púkki upp á meirihlutavald til þess að fríkenna sig. Þá höfum við þetta þrent: Alþingi setur lögin, konungur staðfestir þau og ráðherrann brýtur þau.

Hæstv. dómsmrh. þarf ekki að taka hart á hv. þm. Vestm. fyrir langa ræðu. Hann hjelt sjálfur miklu lengri ræðu til þess að verja sig. Jeg hlustaði vandlega eftir, hvað hann hefði fyrir sig að bera, og heyrðist það ekki vera annað en það, að allir skipverjar hefðu haldið heilsu og þessi voðalega skráning ekki reynst neitt bráðdrepandi; varðskipin væru út um öll höf að taka togara eftir sem áður! o. s. frv.

Þá mintist hæstv. dómsmrh. á það, að fyrirrennari sinn, hv. 1. þm. Skagf., hefði brotið lögin um atvinnu við siglingar. Ef maður ætti nú að nota sömu rök gegn þessu og hæstv. ráðherra varði sig með, þá veltur alt á því, hvort nokkur hefir mist heilsuna við það, að þessar undanþágur voru veittar. Nú hefir ekki heyrst neitt um það, að heilsufar manna hafi versnað við þetta, og því er hv. 1. þm. Skagf. sýkn saka. Annars er það algengt, að það sje stolið frá mönnum og þeir haldi þó heilsu sinni eftir sem áður, sömuleiðis að nöfn sjeu fölsuð án þess að nokkur leggist í rúmið. Ef því hæstv. dómsmrh. færir þau rök ein fyrir því, að hann hafi ekki brotið lög landsins með skrásetningunni, að skipshafnirnar á varðskipunum hafi haldið heilsu sinni, ja — þá veit jeg ekki, hvað margir sökudólgar verða yfirleitt dregnir fyrir lög og dóm og látnir sæta ábyrgð fyrir lögbrot.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að fleiri ráðh. en hann hefðu brotið lög landsins. Í því sambandi las hann upp úr sjer heilan lista af ráðherralögbrotum. Það var heldur skemtilegur lestur, eða hitt þó heldur. Eins og það sje sjálfsagt, að einn ráðherra brjóti lögin, þó að aðrir ráðherrar hafi gert það, eða nokkur afsökun, þó að einhver annar hafi drýgt sama glæpinn og maður sjálfur. Hæstv. ráðh. minti mig á refinn, sem vildi láta aðra refi taka af sjer skottið, af því að hann var skottlaus sjálfur. Jeg segi hvorki, að hæstv. dómsmrh. sje skottlaus nje að hann sje refur, en hinsvegar svipar honum í þessu til þess, sem dæmisöguhöfundurinn á við.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hv. þm. Vestm. hefði haft það á tilfinningunni, að málið, sem hann var að flytja, væri útvatnað. Það er satt, að mikið hefir verið talað og ritað um málið, og jeg býst við því, að að hefði verið fundið, ef svo hefði ekki verið. Þá hefði verið sagt: Hjer sjáið þið, hvort þetta hefir verið alvarlegt. Það hefir varla verið nefnt! En jeg get fullvissað hæstv. ráðh. um það, að málið er ekki útvatnað fyrir það; hann hefir framið alveg vaskekta lögbrot. Og það er hreinasti misskilningur, ef hann heldur, að megi útvatna lagabrot eins og saltkjöt eða eitthvað þesskonar, eða þvo það af eins og blóðbletti úr fötum. Það væri það sama og sakamaður segði vjð dómarann, þegar hann væri búinn að vera lengi undir rannsókn: Heyrið þjer, herra dómari, finst yður ekki þessi glæpur farinn að verða útvatnaður? Væri ekki betra að sleppa mjer? Hæstv. ráðh. státaði og sagði: „Komið þið bara með landsdóm“. Hann kvaðst fús til þess að láta hengja sig, ef saklaus maður yrði hengdur á undan. Jeg held, að hann ætti að stinga höfðinu í þá snöru, sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) bauð honum upp á, en hún er sú, að fram fari ný rannsókn á kosningasvikunum og báðir leggi við þingmensku sína.

Hæstv. dómsmrh. er svona mikill á lofti af því að hann veit, að hann er í meiri hl. Hann hefir sína vopnuðu riddara og getur því vaðið uppi og sagt með sama rjetti og Brennus, þegar hann kastaði sverði sínu á vogarskálina: „Vei þeim sigruðu“. Hann manar að draga sig fyrir landsdóm, af því að hann veit, að flokkur hans hindrar það. „Asnana og vísindamennina í miðið“, sagði Napóleon forðum og skipaði liðinu í teningsfylkingu utan um þá. Hann var þá að búa sig undir orustu við Egypta, og þegar þeir svo rjeðust á, ljet hann skjóta í allar áttir. Hæstv. ráðh. hefir sterkan flokk, sem náttúrlega setur hann í miðið, ef til skarar skríður og farið verður fram á, að landsdómur dæmi í máli hans. Og því verður ekki hægt að koma fram landslögum á honum, þó að sekur sje. Það er alveg eins og í fornöld, þegar ribbaldahöfðingjar hjeldu seka menn, svo að ekki var hægt að hafa hendur í hári þeirra.

Þá sagði hæstv. ráðh., að Íhaldsflokkurinn hefði ætlað að verða vitlaus út af frv. um eftirlit með skeytasendingum togaranna, og vildi með því sýna, að flokkurinn hefði sýnt fláttskap í málinu. En hvernig hefir honum sjálfum farið? Þegar talað er um að gera raunverulegar umbætur í Strandvarnarmálinu, efla sjálfstæði yfirmanna á skipunum og hafa þá ánægða, þá er eins og hæstv. ráðh. sje stungið upp í hrútshorn. En hinsvegar ætlar hann að rifna af áhuga, þegar talað er um að banna togurunum að nefna ömmu og gera slíkar hjegómaráðstafanir. Ef þessi framkoma er ekki fláttskapur, veit jeg ekki, hvað því nafni á að nefnast.

Hæstv. dómsmrh. tók sjer fyrir hendur að gera eldhúsdag á fyrverandi stjórn. — Það, sem sjerstaklega vakti eftirtekt mína, var hvað hann taldi það ógurlegt brot, að hjer hefði verið leyft samskonar fyrirkomulag á olíuverslun eins og gerist yfirleitt hjá menningarþjóðum. Hæstv. ráðh. ætlaði alveg að ærast yfir olíugeymunum við Skerjafjörð. Hann sagðist hafa verið þar á gangi, en sjer hefði ekki verið hleypt inn í girðinguna. (Forsrh. TrÞ: Jeg fjekk það ekki heldur. — ÓTh: Voru fleiri með í förinni? — Forsrh. TrÞ: Já, og enn fleiri). Jeg verð að játa það, að mjer þykir vænt um, að fjelagið lætur ekki hvern sem er ganga þar um eins og heima hjá sjer, því að jeg þykist vita, að hæstv. ráðh. hafi ekki farið fram á þetta í embættisnafni, ella hefði þeim að sjálfsögðu verið hleypt inn. Hitt læt jeg vera, þó að öllum sje ekki leyft að valsa þarna innan um nokkur þúsund tonn af olíu, því ekki þarf annað en að fara dálítið óvarlega með eldspýtu, til þess að sjórinn og landið alt hjer umhverfis fljóti í logandi olíu, og það mun varla þykja skemtileg tilhugsun. Jeg vona, að British Petroleum sje jafngætið.

Hæstv. ráðh. ljet í veðri vaka, að hjer væri um einhver dólgsleg ósköp að ræða, þar sem eru Shelldunkarnir við Skerjafjörð, og þetta væri ef til vill undirbúningur undir að halda hjeðan út herskipum. Satt að segja sá jeg ekki, að hann sýndi fram á nokkuð voðalegt við þetta í sinni afarlöngu ræðu, enda virðist það alls ekki neitt voðalegt, þó að hjer sje farið að versla með olíu á sama hátt og tíðkast annarsstaðar í heiminum. Hæstv. ráðh. vill kannske, að olíuverslunin sje rekin með sama sniði og verið hefir. Það ætti kannske að halda öllu í gamla horfinu, líkt og þegar kolunum var skipað upp í pokum, sem menn voru að burðast með á bakinu. En hann verður að sætta sig við það, að nú eru aðrir tímar, og jeg fæ ekki skilið, að hann þurfi að rifna, þótt olían sje flutt í tankskipum og geymd í stórum geymum. Mjer virðist, sem engin ástæða sje til að amast við fjelaginu fyrir það eða nokkuð annað, svo lengi sem það heldur lög landsins.

Hæstv. ráðh. talaði um, að ala mætti heilan herskipaflota á olíunni úr þessum dunkum. Jeg verð nú að játa það, að jeg sje ekki, hvað dunkarnir hafa að segja, ef slíkt liggur á bak við. Jeg held, að það dragi lítið um þá, þegar um þessháttar er að ræða. Og jeg býst við, að stórveldunum yrði ekki skotaskuld úr að byggja hjer nokkra geyma, ef þau á annað borð teldu sjer það sæma að rjúfa hlutleysi landsins á ófriðartímum og vildu halda hjeðan út herskipum. Þeim mundi varla vaxa það í augum að koma upp nokkrum tíu potta dunkum, þegar út í það er komið. En jeg skil ekki, af hverju Shellfjelagið er svo hættulegt í þessum efnum, því að jeg veit ekki betur en að því standi margar þjóðir, en ekki nein ein.

Þá fór hæstv. dómsmrh. að sýna þekkingu sýna á olíuspursmálinu og tala um baráttuna um olíuna. En hann sýndi greinilega, að hann þekkir ekkert inn á það mál. Þessi barátta er ekki um að selja olíuna frekar en aðrar vörur, heldur um olíulindirnar. Það er kapphlaupið um þær, sem ætlar að sturla stórþjóðirnar og verða þeim að styrjaldarefni. Allar vilja þær sölsa lindirnar undir sig, hvort sem þær eru nú í Ameríku, Rússlandi, Persíu eða einhversstaðar annarsstaðar. Þessi harða barátta er ákaflega skiljanleg, því að olíunotkun þjóðanna vex hröðum skrefum. Olían er alstaðar að ryðja sjer til rúms og olíuskip að leysa gufuskipin af hólmi. Við Íslendingar eigum stóran skipastól eftir tiltölu, og ef farið verður að knýja hann áfram með olíu í stað kola, verður olíuþörfin mikil. Það er því engin furða, þótt framsýn fjelög komi sjer hjer upp stórum olíugeymum. Því betur standa þau að vígi, þegar breytt verður um. Og mjer virðast framkvæmdir Shellfjelagsins sýna eðlilega útsýni yfir framtíðina.

Jeg ætla ekki að hafa þetta lengra. Aðalatriðið fyrir mjer var að sýna fram á og fá að vita, hvort hæstv. dómsmrh. hefði brotið lög landsins eða ekki. Hann má vita það, að hann er þjónn þingsins, hann er vinnumaður, sem á að hlýða skipunum húsbóndans, en ekki vera svörull og óhlýðinn. En ef hann hefir svo sterkan flokk, að ekki er hægt að reka hann, á hann að minsta kosti að fá skömm í hattinn hjá öllum þeim, sem þekkja sóma sinn.