21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg verð að lýsa yfir því, að jeg er þakklátur fyrir það, að þetta frv. er komið fram. sundið er hollasta íþróttin og jafnframt nauðsynlegasta. Samkvæmt gildandi lögum má koma á sundnámsskyldu í kaupstöðum, og er það hin brýnasta nauðsyn, ekki síst í Reykjavík, sem er mesti fiskiveiðabær í Norðurhöfum og þar sem hver maður ætti því að vera syndur. En slíkri sundnámsskyldu er ekki hægt að koma á fyr en til eru nægar sundlaugar til náms, og það verður ekki í Reykjavík fyr en slík sundhöll er komin upp, því að sundlaug sú, sem nú er notuð, er allskostar ófullnægjandi nú, hvað þá heldur ef öll hin upprennandi kynslóð ætti að læra sund.

Jafnframt er hjer um hagsýni að ræða á notkun laugavatnsins, því að ætlast er til, að það verði leitt til bæjarins og með því fyrst hitaðar upp opinberar byggingar, en síðan aðeins notaður afgangurinn af vatnshitanum í sundlaugarnar í Sundhöllinni.

Þetta mál hefir verið mikið áhugamál íþróttamanna hjer í bæ, en átt litlum vinsældum að fagna meðal ráðandi íhaldsmanna hjer, sem hafa tafið framgang þess á ýmsa lund.

Jeg hygg því, að lofsyrði hv. 1. þm. Reykv. hafi naumast verið af heilum huga töluð. Jafnvel þegar kunnugt var, að hæstv. stjórn ætlaði að leggja þetta frv. fyrir þingið, þá kostaði það harða „agitation“ að koma málinu gegnum bæjarstjórnina hjer. Í ljósi þeirrar staðreyndar skiljast lofsyrðin.

Þá talaði hv. 1, þm. Skagf. um það, að tillagið til sundhallarinnar, sem gert er ráð fyrir í frv., væri miklu hærra hjer en lagt hefði verið til sundlauga annarsstaðar.

Það er gert ráð fyrir því, að Sundhöllin kosti 220–230 þús. kr., og af því leggur ríkissjóður 100 þús. kr., en Reykjavíkurbær þá 120–130 þús. kr., auk þess sem bærinn leggur til endurgjaldslaust leiðslu á vatninu, sem mun kosta yfir 100 þús. kr., lóð alldýra, er kostar sjálfsagt 20–30 þús. kr., og fleira, svo hjer er ekki um það að ræða, að ríkið leggi til helming kostnaðar, heldur sennilega fjórðung. Hitt væri ekki óeðlilegt, þótt ríkið legði tiltölulega meira til sundlaugar hjer í bænum en annarsstaðar, vegna þess að hjer eru opinberir skólar, sem sóttir eru hvaðanæfa af landinu og ætlast er til, að fái ókeypis aðgang að sundhöllinni og ókeypis sundkenslu. Er því aðstaðan öll önnur hjer en úti um sveitir landsins, þar sem ekki er eins alment gagnið af sundlaugunum eins og hjer í bænum, og því ekki nema eðlilegt, þótt Sundhöllin í Reykjavík væri styrkt fram yfir venjulegar sundlaugar í sveitum, þótt þær eigi alt gott skilið.