13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Auðunn Jónsson:

Skoðun mín er sú, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða, en því miður eru mörg nauðsynjamál, sem við getum ekki framkvæmt á næstu árum, jafnvel þó að við viðurkennum þörfina. Þetta mál er nú samt eitt þeirra, sem rjett er að framkvæma fyrir 1930. En eins og frv. er og eins og áætlað er framlag ríkissjóðs, get jeg ekki fylgt því. Með frv. er gengið inn á nýja braut, þar sem farið er fram á, að ríkissjóður styrki byggingu sundhallar að helmingi, en hingað til hefir ríkissjóður styrkt slíkar framkvæmdir í sveitum landsins með aðeins einum fimta hluta, og oft ekki einu sinni svo mikið. Oft eru sundlaugar bygðar aðeins fyrir samskotafje og framlög frá viðkomandi hjeraði. Það má að vísu segja, að fleiri en Reykvíkingar hafi not hinnar fyrirhuguðu sundhallar hjer, en svo er og um aðrar sundlaugar í landinu, að þeirra njóta fleiri en íbúar þess hjeraðs, sem sundaugin er í. Til dæmis hafa bæði Vestur-Ísfirðingar og Austur-Barðstrendingar stundað sundnám í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það er líka svo, að Reykjavíkurbær hefir komist undan ýmsum kvöðum, sem alment eru lagðar á önnur hjeruð, og vil jeg þar sjerstaklega til nefna, að bærinn mun ekki hugsa til sjúkrahúsbyggingar, þar sem nú er verið að reisa landsspítalann. En ýmsir kaupstaðir, eða að minsta kosti Ísafjarðarkaupstaður, hafa lagt á sig þunga byrði til þess að geta komið sjer upp vönduðu sjúkrahúsi. Um styrk til Reykjavíkurbæjar sjerstaklega virðist mjer stundum vera gengið of langt, þegar borið er saman við aðra kaupstaði landsins. En hitt skal fúslega viðurkent, að frá Reykjavík fljóta ríkissjóði miklar tekjur.