13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Halldór Stefánsson:

Ýmsir hv. þm. hafa orðið til þess að leggjast af kappi á móti brtt. minni á þskj. 142. Ummæli þeirra hafa þó að ýmsu leyti ekki snert málið sjálft, heldur verið almennar hugleiðingar um íþróttalíf.

Út í þær umr. ætla jeg alls ekki að fara að blanda mjer. Jeg fæ ekki sjeð, að slíkar umræður komi máli við í þessu sambandi. Fleiri eru íþróttir en sund. Hjer kemur það eitt máli við, hvort ástæða er til að leggja fram hlutfallslega meira fje úr ríkissjóði þegar Reykjavík á í hlut en verið hefir áður.

Hæstv. forsrh. sagði, að tvær væru leiðir í þessu máli til þess að ná samræmi. Önnur væri sú, að lækka tillagið úr því, sem nú er, en hin að hækka það í framtíðinni. Það er alveg rjett, þessar leiðir eru báðar til — þó verður misrjetti gagnvart þeim, sem búnir eru að koma upp sundlaugum. En mig furðar á, að ekki skuli hafa opnast augu sumra þeirra, sem þessu fylgja, fyrir auknu hlutfallsframlagi ríkissjóðs fyr en nú, og það einmitt þegar sá aðili á í hlut, sem minsta þörf hefir á auknu hlutfallsframlagi.

Hv. þm. Dal. sagði, að brtt. mín væri hættuleg fyrir málið. Jeg fæ ekki sjeð, hvernig það má vera, ef áhuginn fyrir því er eins mikill hjer í bænum og af er látið. Því aðeins getur hún verið hættuleg fyrir það, að bæjarbúa skorti skilning og áhuga fyrir því, en það er gagnstætt því, sem mótmælendur till. hafa fullyrt. Ef sú væri nú raunin á, þá væri æskilegt, að áhrifa- og áhugamennirnir, sem hjer hafa talað, beittu fortölum sínum í þá átt að hafa áhrif á áhugaskort bæjarbúa. Það væri þá rjettmætt og gæti orðið málinu til mikils gagns. Annars þykir mjer leitt, að meiri hl. nefndarinnar skuli vera á móti brtt. minni, því að jeg álít rjettmætt, að hún nái fram að ganga.

Hv. þm. V.-Ísf. hefi jeg svarað með því, sem jeg hefi þegar sagt, og skal ekki orðlengja það frekar.