13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Pjetur Ottesen:

Enda þótt mál þetta sje nauðsynlegt, sem jeg vil síst bera brigður á, þá tel jeg þó, að taka þurfi tillit til mögulegleikanna. Hjer er farið fram á að veita 100 þús. kr. til sundhallar í Reykjavík, og það er gert af stjórn, sem samtímis fer fram á í tillögum sínum að lækka svo skiftir hundruðum þúsunda króna fjárframlög til verklegra framkvæmda í landinu, þ. e. vega, brúa, síma og vita. Mjer finst því ástæða til þess að athuga þetta dálítið nánar. Er þá fyrst að athuga, hvort hjer sje veitt fje eftir sömu hlutföllum og gert hefir verið áður til hliðstæðra fyrirtækja; en því skýtur þá heldur skökku við, því til sundhallar þessarar á að veita helming kostnaðar, í stað þess að til sundlauga úti um land hefir ekki verið veitt nema 1/5 kostnaðar. Það er fyrst þegar til þess kemur, að það á að fara að reisa sundhöll fyrir Reykjavík, að stjórnin rýkur upp til handa og fóta og ber fram tillögur um, að ríkið leggi fram helming kostnaðar. Jeg vil ekki þar með segja, þótt freistandi sje, að þessi stefnubreyting eigi sjer stað vegna þess, að hjer á Reykjavík hlut að máli. En það er óneitanlega lítið samræmi í því hjá hæstv. stjórn, að jafnframt því, að hún leggur til, að ríkið greiði helming kostnaðar til sundlaugar í Reykjavík, lætur hún standa óbreytt í fjárlögum ákvæðið um það, að til sundlauga úti um land skuli ekki greitt úr ríkissjóði nema 1/5 hluti kostnaðar.

Það er enn annað, sem bendir á það, að þessi skoðanaskifti sjeu tengd við það, að um er að ræða fjárframlag til framkvæmda hjer í Reykjavík, sem sje það, að það eru eingöngu búsettir menn hjer og gjaldendur þessa bæjar, sem beita sjer fyrir þessari fjárveitingu. (ÓTh: Og þeir einir tala á móti frv., sem eru utan Reykjavíkur). Já, það er ekki nema eðlilegt; þeir sjá ekki ástæðu til að gera Reykjavík hærra undir höfði í þessu efni en öðrum hjeruðum landsins. Það er talað um þetta sundhallarmál hjer sem ákaflega mikið nauðsynjamál, og vil jeg ekki bera brigður á það, að svo sje, en að nauðsyn Reykvíkinga í þessu efni sje svo miklu brýnni en annara hjeraða á landinu, að það rjettlæti að verja svo miklu fje nú úr ríkissjóði til þessa verks og gera Reykjavík svo miklu hærra undir höfði um fjárframlög í þessu efni en öðrum hjeruðum, því mótmæli jeg algerlega.

Það er öllum kunnugt, að hjer í Reykjavík er sundlaug og hefir verið haldið þar uppi sundkenslu um langt skeið, en þeirri sundlaug kann að vera í ýmsu ábótavant. Þá er því haldið fram, að í þessari sundlaug sje eini möguleikinn fyrir Reykvíkinga til sundiðkana. Þetta er ekki rjett. Jeg veit ekki annað en hjer sje skamt til sjávar, en það er alkunnugt, að sjóböð og það að synda í sjó er hámark hollustunnar við böð.

Það er að vísu svo, að á ýmsum tímum árs er ekki öllum hent að synda í sjó, því þrátt fyrir alt íþróttaskvaldrið munu þeir margir vera, sem kveinka sjer við kalda vatnið. En á dögum Bessastaðaskóla — en þar var vagga íþróttanna á landi hjer í þá tíð — víluðu skólapiltar ekki fyrir sjer að steypa sjer í sjóinn um háveturinn, og mig minnir, að Páll Melsteð segi frá því einhversstaðar, að þeir hafi synt, þótt svo mikið frost væri, að „það tólgaði fjöruna“, eins og hann komst að orði. Nei, þótt þetta sje mikið nauðsynjamál, þá má ekki gleyma því, að það eru fleiri leiðir til þess að skola skítinn af skrokknum á sjer en að gera það í yfirbygðri sundlaug, og jeg yrði að telja það mikla afturför og mjög óheppilegt, ef þessi „höll“ yrði til þess að draga menn frá sjónum.

Jeg sje enga ástæðu til þess að hækka nokkuð tillagið úr ríkissjóði til þessarar sundlaugar frá því, sem verið hefir og aðrir hafa notið og eiga auðsjáanlega að njóta áfram.

Ef hjer er um svona mikið nauðsynjamál að ræða fyrir Reykjavíkurbæ eins og haldið er fram, þá þarf síst að telja það eftir Reykvíkingum að byggja sína sundlaug með sama styrk og aðrir hafa notið. Það er þá bara af því, að þetta er ekki eins mikið nauðsynjamál og af er látið, ef það stendur í vegi fyrir framkvæmd málsins, hvort veitt verður úr ríkissjóði ½ eða 1/5 kostnaðar.

Ræða háttv. þm. Dal., eða sá hluti hennar, þar sem hann talaði um það, hve langar skólasetur væru óhollar fyrir unglingana, og það þyrfti að gera sjerstakar ráðstafanir þess vegna, var mjer mikið gleðiefni.

Þetta gladdi mig mjög mikið, því að við deildum um þetta fyrir nokkrum árum, jeg og hv. þm. Dal. Jeg hjelt þá fram þessari skoðun, en háttv. þm. Dal. kallaði það þá fjarstæðu og kvað það ekki ná neinni átt. Það gleður mig, að hv. þm. Dal, skuli hafa komist að raun um það, að það var mikið hæft í því, sem jeg hjelt þá fram.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en ef það er rjett, að það sje nauðsyn á að koma upp sundhöll, þá vænti jeg þess, að það sje svo mikill skilningur á þeirri nauðsyn Reykjavíkurbæ, að framkvæmdir verði ekki látnar stranda á því, hvort veittur er helmingur eða lægra hlutfall.

Ef skilningur manna á þessu máli er ekki meiri en það, að framkvæmdin strandi á því, þá vaknar mikill ótti um það, hvort skilningurinn á þessu máli er þá svo almennur hjá öllum fjöldanum, að sundlaugin komi að tilætluðum notum.