13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Ólafsson:

Jeg get sparað mjer að fara mörgum orðum um þetta mál, því að hv. þm. V.-Ísf. tók fram flest það, sem jeg vildi hafa um það sagt. Flestir eða allir, sem tekið hafa til máls, hafa látið í ljós þá skoðun sína, að hjer sje um mikið nauðsynja- og framfaramál að ræða, svo að mjer skilst, að menn eigi þá aðeins eftir að deila um það, hve hátt tillag ríkissjóðs til verksins eigi að vera. Það hafa verið leidd rök að því, að hjer stendur sjerstaklega á, þar sem um Reykjavík er að ræða. Það er löngu kunnugt, að sundlaug. sú, sem bærinn á, er langt frá því að vera viðunandi. Reykvíkingum hefir orðið þetta mjög tilfinnanlegt, ekki síst nú á síðustu árum, vegna þess, hve gestakomur bæði útlendra og innlendra gesta hafa aukist.

Það er nú svo, að eitthvað það fyrsta, sem útlendir gestir spyrja um, þegar þeir koma hingað til bæjarins, það eru laugarnar, „hinir heitu hverir og laugar“, sem eiga sinn stóra þátt í því að lokka útlenda ferðamenn hingað til landsins. Það er því skiljanlegt, að Reykvíkingum falli það ekki sem best að verða að bjóða þeim að synda í slíkum forarpolli sem sundlaugarnar hjer eru. Þess vegna vil jeg benda hv. þdm. á það, að það getur haft þýðingu, ekki einasta fyrir Reykjavík, heldur einnig fyrir landið út á við, að hjer sje sú sundhöll, sem hverri höfuðborg sem væri mætti vera sómi að að eiga, og allir, ekki einasta allir bæjarbúar, heldur einnig allir landsmenn, gætu verið hreyknir af.

Hv. þm. N.-Ísf. benti á það, að Reykvíkingar nytu meira góðs en aðrir landsmenn af ýmsum ríkisstofnunum, sem stæðu hjer í Reykjavík, og tók hann til dæmis landsspítalann. Jeg vil nú minna þennan hv. þm. á það, að Reykjavík hefir líka ýmsar skyldur og kvaðir fram yfir aðra landshluta. Má t. d. benda á það, að Reykjavík verður að halda uppi farsóttahúsi og gera ýmsar strangar ráðstafanir og allkostnaðarsamar gegn útbreiðslu farsótta, vegna þess að skip koma hingað fyrst og því mikil hætta á, að farsóttir berist hingað fyrst og síðan hjeðan aftur út um landið.

Jeg nefni hjer aðeins þetta dæmi, en það mætti benda á margt fleira til þess að sýna fram á það, að Reykjavík hefir ýmsum skyldum að gegna fram yfir aðra kaupstaði landsins, og að þess vegna verður sá baggi, sem Reykvíkingar hafa að bera, stærri en annara landsbúa.

Jeg geri ráð fyrir því, þótt ýmsir hv. þm. heyrist oft tala svo, sem þeir sjeu því algerlega andvígir, að nokkuð sje hlynt að Reykjavík, þá sjeu menn þó sammála um það, að það eigi að vera stolt allra landsmanna, að höfuðstaðurinn líti sem best út. Það er, eins og allir vita, mikill þáttur í því, hverjum augum útlendar þjóðir líta á menningu vora, hvernig höfuðborg vor lítur út í augum þeirra útlendinga, er sækja landið heim og oft sjá ekki annað af landinu en hana.

Þá sagði hv. þm. N.-Ísf., að það væri ekki mikill áhugi fyrir þessu máli hjer í bænum. Mjer er kunnugt um, að það hefir altaf verið og er enn mjög mikill áhugi fyrir þessu máli hjer í bænum. En nú, þegar það er ráðið, að tvær stórbyggingar, sem nú er verið að reisa hjer í Reykjavík, skuli verða hitaðar með laugavatni, þá finst öllum sjálfsagt, að það vatn verði notað til sundlaugar eftir að það hefir farið gegnum þessar byggingar og hitað þær. Og það má vel vera, að þetta almenna álit manna hjer í bænum hafi orðið til þess, að ýmsum virtist vera hjer minni áhugi fyrir sundhöllinni en í raun og veru er. Og þótt ýmsum kunni að virðast áhuginn lítill á þessu máli, þá er mjer kunnugt um það, að til eru þungar kröfur meðal manna hjer í bænum um endurbætur á bænum og þær stórfeldar; endurbætur, sem mönnum hefir þótt dragast of lengi, með tilliti til þess, hve mikils virði þær væru, þegar ræða er um heimsóknir útlendinga til landsins.

Jeg verð að segja það, að hann fer að verða í fylsta máta leiðinlegur þessi blær og andi, sem altaf svífur yfir, þegar talað er um það að gera eitthvað, sem gæti orðið Reykjavík til bóta. En þegar það er borið saman, sem gert hefir verið fyrir aðra landshluta, og það, sem gert hefir verið fyrir Reykjavík, með allan þann mannfjölda, sem hjer er saman kominn, þá held jeg, að enginn þyrfti að sjá ofsjónum yfir því, þótt þetta fje yrði veitt til sundhallarinnar.

Hvað viðvíkur því fordæmi, sem talað er um, að hjer sje verið að mynda, ef veittur sje helmingur kostnaðar, þannig að hjer eftir muni verða heimtað sama hlutfall til allra sundlaugabygginga úti um land, þá held jeg, að ríkið ætti ekki að sjá eftir því fje, sem til þess færi; það mundi koma í ljós með aukinni líkamsmenningu þjóðarinnar, að það fje hefði margborgað sig.

Jeg held, að hv. þm. V.-Ísf. hafi tekið fram svo margt af því, sem jeg hefði viljað segja, að jeg geti látið sitja við það, sem jeg hefi þegar sagt.