29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1929

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. kvartaði undan því í gær, að við Íhaldsmenn værum nokkuð daufir við eldhúsverkin. Með þessu skorar hann á okkur að setja nú upp svuntuna, en ef einhverjum skyldi verða á að taka með sjer skörunginn, verður að virða honum það til vorkunnar. Jeg skal reyna að stuðla að því, að hæstv. ráðherra sofni ekki undir minni ræðu, en ef hann sofnar, vænti jeg þess, að hann dreymi ekki vel.

Jeg hafði hugsað mjer að beina fyrirspurn til hæstv. ráðh. um gengismálið. En jeg bjóst við að geta látið það niður falla, þegar hæstv. fjmrh. fór að skýra deildinni frá sinni stefnu. En þrátt fyrir ræðu hæstv. fjmrh., finn jeg mig knúðan til að bera fram fyrirspurn mína.

Fyrir skömmu beindi jeg því hjer í hv. deild til hæstv. forsrh., hvort væntanlegar væru ráðstafanir frá hans hálfu í sambandi við gengismálið. Þess var að vænta, að hann, sem taldi gengismálið svo miklu þýðingarmeira en önnur mál, að hann kallaði það „mál málanna“, mundi nú gera sjerstakar ráðstafanir til að leiða það til lykta. En hverju svaraði hæstv. forsrh.? Hann sagði: „Jeg er ekki fjármálaráðherra“. Ef í þessu svari liggur ekki aðeins óviðeigandi tilraun til þess að svara í glettni alvarlegri fyrirspurn um mikilvægt mál, þá verð jeg að ætla, að á bak við það liggi sjerstök merking. En þegar jeg spyr, hver hún sje, er ef til vill best að svara með annari spurningu: Hver er fjármálaráðherra? Þegar það barst um landið, að hv. þm. Str., sem þá var, mundi mynda hina nýju stjórn, má telja fullvíst, að sá hluti þjóðarinnar, sem fylgdi honum vegna gengismálsins, hafi gengið út frá því sem gefnu, að yfir „mál málanna“ yrði settur sá, sem mest var festingarkempan. En alþjóð fjekk vitneskju um, að Magnús Kristjánsson ætti að gegna þessu vandasama og veglega starfi. Jeg hugsa, að þorri manna hafi litið á þetta sem óskeikulan vott um, að hjer væri mestur festingarmaðurinn í hópi Framsóknarflokksins. Við hinir, sem erum dálítið kunnugir því, sem gerist að tjaldabaki, vorum sammála um, að þingflokkur Framsóknarflokksins væri einhuga fylgjandi verðfestingu, nema einn einasti maður, Magnús Kristjánsson. Nú langar mig til að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hafi trygt sjer það, að stefna fjmrh. sje, þegar á hólminn kemur, sú sama sem hæstv. forsrh. hefir barist fyrir. Ef svo er ekki, hefir hann svikið sína hugsjón. Hæstv. fjmrh. gaf þær upplýsingar, sem raunar benda á, að hæstv. forsrh. hafi ekki trygt sjer þetta. Hæstv. fjmrh. sagði: „Mig varðar það mestu að varna verðfalli“. Og svo kom hin óvænta skýring: „Af því að þetta er stefna mín, að varna verðfalli, og af því að svo stendur á, að í náinni framtíð sje jeg enga leið til að hækka gjaldeyrinn, þá hefir tekist samvinna milli mín og flokksbræðra minna“. Af þessu verð jeg að álykta, að hæstv. fjmrh. sje ekki skoðanabróðir hæstv. forsrh. og þorrans af flokksbræðrum hans. En ef svo er, þá tel jeg, að hæstv. forsrh. hafi reynst ótrúr sinni helgustu hugsjón, sem hefir fleytt honum upp í forsætisráðherrastól. Jeg hefi verið milli vonar og ótta í þessu máli, síðan hæstv. forsrh. valdi þann fjmrh., sem nú er. Annað veifið hefi jeg haft ástæðu til að vera vongóður, en oft hefi jeg orðið að líta öðrum augum á. Skömmu eftir að núverandi hæstv. fjmrh. tók við völdum, skipaði hann nýjan formann gengisnefndarinnar þann mann, sem af mestu viti og mestri þekkingu hefir barist fyrir verðfestingu krónunnar. Þetta þótti mjer vera vottur um, að hæstv. fjmrh, hefði aðhylst festingu. Þegar hinn nýi formaður tók við starfi sínu, var hann albúinn til að hefjast handa og berjast með áhuga fyrir festingu. En fyr en varði sloknaði eldurinn. Hver greip í taumana? Formaður gengisnefndarinnar hófst handa um ýmsar ráðstafanir, sem telja varð nauðsynlegar, áður en gengið var til festingar. Úr þessu dró fyr en varði. Var það hæstv. fjmrh., sem var ekki festingarmaður og tók þess vegna í taumana, eða voru það yfirráðherrarnir, jafnaðarmenn, er gerðu það að skilyrði fyrir fylgi sínu, að krónan væri ekki fest? Jeg hefi heyrt það af vörum hæstv. forsætisráðherra, að ástæðulaust væri að fjalla um gengismálið nú, því að „við höfum valdið“. Það er rjett. Hann hefir valdið. En enginn veit, hve lengi það verður. Hitt er staðreynd, að fyrst þörf var á rannsókn í september í haust, þá sýnist sú þörf óbreytt ennþá. Hvað olli þá því, að hún fjell niður svo skjótt?

Hæstv. forsrh. veit, að þó jeg sje ekki fylgismaður hans, er jeg sammála honum um gengismálið. (Forsrh. TrÞ: Gleður mig, gleður mig!). Hann veit, að í því máli vil jeg styðja hann, en hinsvegar geri jeg þá kröfu, að hann tefli ekki úr höndum sjer tækifæri til að ráða því farsællega til lykta. Nú gefst honum slíkt tækifæri. En enginn veit, hvernig sakir standa á næsta þingi. Jeg get ekki aðhylst vel skrifaða grein í „Tímanum“ um, að ennþá sje óvarkárt að stíga síðasta sporið í þessu máli — að breyta myntlögunum, þó jeg hinsvegar telji, að heppilegra sje að leysa málið á annan hátt. Við höfum nú búið við sama verðgildi krónunnar í 2½ ár, og fultvíst er, að verðlagið í landinu hefir nú náð þeirri festu, sem yfirleitt er hægt að vænta. Jeg tel því, að ef á annað borð á að breyta myntlögunum, sje það fyllilega tímabært nú þegar.

Þetta spor getur hæstv. forsrh. stigið, ef hann vill. Með því getur hann trygt úrslit í þessu „máli málanna“, því ef búið er að breyta. myntlögunum, verður það ekki aftur tekið. Vanræki hæstv. ráðh. skyldu sína á þessu þingi, sýnir það, að hann ber sjálft málið ekki fyrir brjósti, því hvorki hann nje nokkur veit, hvort hann fer með völdin á næsta þingi. — Í slíku stórmáli sem þessu á maður heimting á að fá skýr og greinileg svör, og alþjóð á að fá að vita, hvað inni fyrir býr hjá hæstv. forsrh. og hæstv. stjórn yfirleitt.

Jeg ætla ekki að segja margt við hæstv. forsrh. fram yfir þetta. Jeg ætla aðeins að drepa á tvö atriði, sem umr. hafa gefið tilefni til og snerta hann sjerstaklega.

Hv. 1. þm. Skagf. hjelt því fram, að svo liti út, sem hæstv. forsrh. hefði snúist í sendiherramálinu, eftir að hann tók við stjórn. Hv. þm. benti á, að hæstv. ráðh. hefði á undanförnum þingum mjög skörulega barist gegn því, að sendiherraembættinu í Kaupmannahöfn væri haldið uppi. En nú aftur á móti gerir hæstv. forsrh. og hæstv. stjórn sitt til stuðnings þessu máli, með því að bera fram í fjárlögum fjárveiting til þess að standa straum af þeim kostnaði, er af sendiherraembættinu leiðir.

Hæstv. forsrh. var ekki lengi að smeygja sjer úr þessari snöru. Hann sagði sem svo: Þetta eru lög í landi hjer. Samkvæmt lögum á að vera sendiherra á þessum stað. Hæstv. forseti Nd. Alþingis úrskurðaði í fyrra, að ekki mætti bera fram till. um að fella niður þessa fjárveitingu af því að lög mæla svo fyrir, að hún skuli standa. — Með þessu áleit hæstv. forsrh. sig hafa vel svarað fyrir sig. Það er nú svo. Við skulum athuga önnur sambærileg atriði í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar. Eru það ekki lög í landi, að vöru- og verðtollur falli úr gildi 1. jan. 1929? En þó eru fjárlög fyrir það ár svo úr garði gerð af hendi hæstv. stjórnar, að þessir tekjuaukar eru þar taldir með tekjum ríkissjóðs, sem áætlað er, að inn komi á því ári. Af hverju? Af því að hæstv. ríkisstjórn ætlar að bera fram frumvörp í þá átt að lögfesta þessa tekjustofna áfram. Þessi aðferð þykir mjer alveg eðlileg og rjettmæt. En af því leiðir hitt, að hæstv. stjórn hefði getað farið alveg eins að, ef hún hefði ætlað sjer að vera fyrri stefnu sinni samkvæm: felt niður fjárveitingu til sendiherraembættisins með það fyrir augum að bera fram og fá samþykt á þessu þingi frv. um afnám embættisins.

Nei, sannarlega hefir hæstv. forsrh. snúist í þessu máli.

Jeg skal ekki lengja umr. mikið, þó að jeg minnist á Titanmálið.

Það hafa verið bornar fram fyrirspurnir til hæstv. forsrh. um það, hvort hann ætli sjer að veita sjerleyfið eins og lög standa til frá þinginu í fyrra.

Hæstv. ráðh. hefir svarað á þá leið, að það nái ekki nokkurri átt, að hann fari að kveða upp nokkurn dóm á þessu stigi málsins, þar sem skýrt sje ákveðið í heimildarlögunum, að senda skuli sjerleyfið til umsagnar sjerfræðingum, og væri það nú komið frá einum sjerfræðingnum og væri hjá öðrum, og biði hann nú eftir umsögn hans. Nú vil jeg spyrja, segir hæstv. forsrh.: Hvaða vit er í að vera að leita álits og umsagnar sjerfræðinga, ef ekki á að fara eftir því, sem þeir leggja til um málið? En litlu síðar sagði hæstv. forsrh.: Jeg hefi altaf verið varfærinn maður, og það er ekkert eins hættulegt fyrir hina íslensku þjóð og það að hleypa inn í landjð erlendu atvinnufyrirtæki, sem hefir 100 milj. kr. höfuðstól. — Má jeg nú spyrja hæstv. forsrh.: Er það virkilega hans alvara, ef þessi seinni sjerfræðingur, sem hefir málið nú með höndum, segir: jú, jú, veitið þjer bara sjerleyfið, það er alveg óhætt, — ætlar hann þá að veita sjerleyfið, sem hann telur þjóðhættulegast Íslendingum af öllu illu? Ætlar hann að gera það? Jeg spyr. Jeg veit, að hann ætlar ekki að gera það. En þessi svör hans voru alger meiningarleysa. Jeg skal virða það honum til vorkunnar. Því að sannleikurinn er sá, að hvar sem maður lítur í deildina, þá sitja þar fyrir flokksmenn hæstv. ráðherra og þeir krefjast þess af honum, að hann veiti sjerleyfið. En hann ætlar sjer ekki að veita sjerleyfið; en hann þorir ekki á eldhúsdegi að segja það hreinskilnislega, af því að hann er hræddur um, að það kunni að verða til þess, að flokksbræður hans telji sig knúða til að bera á hann vopn á sjálfan eldhúsdaginn.

Skil jeg þá við hæstv. forsrh. í von um, að hann hafi ekki sofnað undir ádrepu minni. — Mun jeg nú víkja máli mínu að hæstv. dómsmrh.

Því er haldið fram, að hann hafi brotið varðskipalög, sem samþykt voru hjer á síðasta þingi. Með því að það er þegar sannað af hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. 1. þm. Reykv. (MJ), væri það að ofreyna þolinmæði háttv. þingheims að leiða að því ný rök. Jeg vil aðeins taka undir með háttv. þm. Vestm. í tilefni af meðferð hæstv. ráðh. á skipstjórum varðskipanna. Jeg veit nú að vísu, að hæstv. dómsmrh. mun segja, að jeg sje að reyna að kaupa mjer hylli þeirra með því að bera hönd fyrir höfuð þeim, í von um, að þeir síðar virði það við mig með því að vera eftirlátssamir og vægir við þá togara, er jeg á þátt í að gera út, en slíkt læt jeg ekki á mig fá. Það vita líka allir, sem um málið vilja hugsa með sanngirni og ofstækislaust, að það er ekki á færi skipstjóranna að sleppa togurum, sem þeir hitta að veiðum í landhelgi, jafnvel þótt þeir væru til þess af vilja gerðir. Þeir standa þar ekki einir að verki, heldur í svo sem 20–30 votta viðurvist, þar sem er öll skipshöfnin. Þótt hæstv. dómsmrh. vildi bera þeim það á brýn, að þeir brjóti þannig lög landsins og bregðist skyldu sinni, þá er það staðreynd, sem ekki verður hrakin, að þeir geta það ekki án þess að upp komist.

Núverandi skipstjórar varðskipanna voru teknir úr þjónustu einkafyrirtækis, þar sem þeir höfðu 12 þús. kr. laun, til þess að gegna þeim trúnaðarstarfa fyrir landið, er þeir nú hafa á hendi. Sá, sem falaðist eftir þeim og fól þeim starfann, var þáverandi dómsmrh. hins íslenska ríkis. Hjet hann þeim sömu launum, sem þeir höfðu í sinni fyrri stöðu, til þess að þeir skyldu einskis í missa við skiftin. Það kann nú að vera, að dómsmrh. hafi þar ofmælt og ekki haft rjett til að gefa slíkt loforð upp á sitt eindæmi. En eins og á stóð, varð ekki hjá því komist, ef hann vildi tryggja landinu starfskrafta þessara manna. Nú óskaði hann eftir, að rjettur aðili, þ. e. Alþingi, yrði aðspurt í þessu máli. Og það varð. Alþingi í fyrra samþykti lög um launakjör skipstjóra og skipverja á varðskipum ríkisins. (Dómsmrh. JJ: Það gerði meira; það gerði þá alla að embættismönnum). Alþingi kvað þá upp sinn dóm um siðferðilega skyldu ríkisins til þess að halda skuldbindingar gerðar fyrir þess hönd af ráðherra. Það sagði sem svo: Þótt við viljum ekki í framtíðinni launa samskonar starfsmenn ríkisins svo hátt, þá er þó ekkert því til fyrirstöðu, að þessir menn njóti þeirra kjara, sem þeir hafa gefin loforð fyrir.

Skipstjórarnir eru teknir frá einkafjelagi, þar sem þeir hafa þessi laun. Ráðherra ræður þá til skipstjórnar á varðskipunum og heitir þeim sömu kjörum. Alþingi viðurkennir loforð ráðherra og samþykkir gerðir hans. — Þetta er í sem stystu máli sagan eins og hún gerðist, þar til hæstv. dómsmrh. kemur til skjalanna og svíkur alt, hefir loforð fyrirrennara síns og skuldbindingar Alþingis að engu, brýtur hið einfalda siðferðisboðorð að halda gefin loforð. Síðan hefir hann ofsótt þessa menn utan þings og innan á hinn svívirðilegasta hátt, sem ekki er siðgóðum mönnum sæmandi, síst manni í hans stöðu.

Nú segir hæstv. dómsmrh. sem svo: Þið hafið alt of há laun, miðað við aðra embættismenn. Jeg ætla að færa laun ykkar niður í það, sem háttsettir embættismenn, skrifstofustjórar í stjórnarráðinu t. d., hafa að launum. Þið getið verið fullsæmdir af því og það er nóg handa ykkur.

Við þetta er það að athuga í fyrsta lagi, að þeir hafa alt aðra og betri aðstöðu til þess að afla sjer aukatekna heldur en skipstjórar á varðskipum ríkisins, sem eru við starf sitt bundnir alla tíma. En það er alkunna, að íslenskir embættismenn eru svo illa launaðir — við höfum nú ekki efni á að gera betur til þeirra, — að þeir verða að afla sjer einhverra aukatekna til þess að geta lifað. Þeir lifa á snöpum. En skipstjórunum á varðskipunum er slíkt með öllu ómögulegt.

Þessi meðferð á skipstjórunum er því með öllu ótæk, og það ekki eingöngu vegna þessa. Því að auk þess sem því má ekki fram fara, að ríkið rifti gerðum samningum og brjóti siðferðilegan rjett á sínum borgurum, er framkoma ráðherra gegn þeim ótæk af fleiri ástæðum. Eftir því sem hæstv. dómsmrh. ætlast til, þá eiga launakjör þessara manna að vera verri en nokkurs, er svipaða atvinnu stundar hjer á landi.

Afleiðingin hlýtur að verða sú, að það verða ekki bestu og hæfustu mennirnir, sem við fáum í þessar stöður. Því er einu sinni svo háttað, að menn eru dálítið eigingjarnir. Hæstv. ráðh. prjedikar að vísu daginn út og daginn inn óeigingirni sína. Jeg veit ekki um það, hve mikið kveður að þessari óeigingirni í hans einkalífi. Það getur vel verið, að hann sje þar öðrum fremri, en hann er eigingjarn stjórnmálamaður, svo mikið er víst.

Afleiðingin af þessum lágu launakjörum er, eins og jeg sagði áðan, sú, að afburðamennirnir líta ekki við slíkum stöðum, heldur sækja annað, þar sem þeir sjá sjer og sínum betur borgið.

Jeg skal sleppa að ræða um þá hlið starfssviðs þessara manna, sem inn á við snýr, en aðeins geta þess, að ef eitthvað kemur fyrir á sjó, þá er jafnan viðkvæðið: senda Óðin, senda Þór. Hvernig sem viðrar skulu þeir jafnan vera viðbúnir, rjett eins og þessi skip hlýddu ekki sömu lögum og önnur skip, — skipshöfnin ódauðleg og skipunum ekki hægt að granda.

Út á við er þeim ætlað að halda uppi með festu og þó varkárni rjetti okkar gagnvart útlendingum. Sjófarendur og jafnvel þeir, sem einhver kynni hafa af sjóferðum, — hæstv. dómsmrh. enda líka —, vita, hvílíkum erfiðleikum það er oft bundið að ákveða með óyggjandi vissu, hvort skip, sem komið er að, sje innan landhelgilínu eða utan. Það þarf mentun og snarræði og einbeitni, ef starf skipherra á ekki að fara út um þúfur. Hver sökudólgur þykist hvergi hafa komið nærri landhelgilínu. Nú eru 4 togarar sektaðir fyrir landhelgibrot, og jafnvissir getum við verið um það, að þegar heim kemur, halda 4 skipshafnir því fram, að þeir hafi verið teknir saklausir og dæmdir ranglega. Málsmetandi menn erlendis hafa tekið okkar svari, er okkur hefir verið borin á brýn rangsleitni og yfirgangur í landhelgigæslunni, af því að þeir vita, að hún er í höndum samviskusamra og hæfra manna, sem hafa næga þekkingu og reynslu á sínu sviði. svo að hægt sje að treysta þeim. En við þurfum ekki að búast við að eiga málssvara, er á þarf að halda, ef ástæða er til þess að ætla, að þessi skilyrði sjeu ekki trygð til fulls.

Jeg ætla, að engar líkur þurfi að því að leiða, að lífsnauðsyn sje landhelgigæslu okkar unga íslenska ríkis, að í þessar stöður veljist sjerstaklega mentaðir, duglegir og vel hæfir menn. En slíkar kröfur samræmast illa lágum launum.

Hjer er á ferðinni frumvarp um skifting dómgæslu og lögreglustjórnar í Reykjavík. Það er komið fram í Ed. Jeg tók svo eftir, að hv. 2. þm. S.-M. (IP) og hv. 5. landsk. (JBald) hafi báðir lagt til, að launakjör þeirra manna, er fara með þessi vandasömu embætti, sjeu hækkuð að mun. Jeg tel það rjettmætt. En í því liggur viðurkenning þessara þm., flokksbræðra ráðh., á því, að afburðamönnunum sje ekki ætlað að sækjast eftir lágum launum.

Þá ætla jeg að víkja að nokkrum smáatriðum, sem komið hafa fram í umræðunum.

Hæstv. dómsmrh. rjeðst á hv. 1. þm. Skagf. út af strandmálinu. Mun jeg ekki rekja þá sögu, því að hæstv. ráðh. gerði það sjálfur allítarlega. Hann taldi það reginhneyksli, að ríkisstjórnin krafðist borgunar fyrir veitta aðstoð varðskips við björgun ensks togara, er strandaði hjer við land. Slíkar staðhæfingar eru í sjálfu sjer ákaflega barnalegar. Það er sitthvað, að ríkissjóður, sem gerir út varðskipin til landhelgigæslu, sendi þau til hjálpar nauðstöddum fiskimönnum hjer við land, eða að ríkið sje skyldugt, hvenær sem þess er óskað, að taka skipin af vettvangi til þess að bjarga skipi ókeypis til hagsmuna fyrir útlend vátryggingarfjelög. Það er bæði beint og óbeint tap fyrir ríkissjóð. Því að á þeim tíma, sem til björgunarinnar fer, getur viljað til, að varðskipið hefði tekið sökudólg, sem dæmdur hefði verið til sektar og sektin fallið í ríkissjóð; eða hinsvegar, að sökudólgur noti fjarvist varðskipsins til ólöglegra veiða. Ef þessi venja kæmist á, mundi af því stafa það, að allir sæktust eftir að fá varðskipin sjer til hjálpar, því að það væri langódýrast, ef ekkert endurgjald á að koma fyrir aðstoð þeirra.

Það veður, sem hæstv. dómsmrh. gerir af þessu máli, er því næsta broslegt og með öllu órjettmæt ásökun hans á hendur fyrverandi stjórnar út af gerðum hennar í því.

Sú leið, sem hæstv. dómsmrh. velur til þess að ráða bót á þessu „glapræði“ fyrirrennara sinna, er fullkomlega hlægileg. Hæstv. dómsmrh. finnur upp á því þjóðráði, að hans áliti, að gefa björgunarlaunin, eða þann hluta þeirra, er ríkissjóði bar eftir venjulegum reglum, erlendu góðgerðafjelagi. Ef ríkið hafði farið rangt að, þá var ekki hægt að bæta úr því á annan hátt en að bæta órjettjnn þeim, er hann þoldi. En ekki með því að hlaupa í að gefa þriðja aðilja rangfengið fje. Jeg býst við, að þetta fjelag, sem hlaut gjöfina, sje alls góðs maklegt. En ef hæstv. ráðh. skyldi þurfa að kaupa sálu sinni frið hjer eftir, þá vildi jeg mælast til þess, að hann ljeti þó að minsta kosti íslensk góðgerðafjelög sitja fyrir sálugjöfunum.

Það er næsta broslegt að heyra hæstv. ráðh. vera að tilfæra ummæli útlendra blaða, sem hann og hæstv. ríkisstjórn hafi fengið send í úrklippum. O, sei, sei. Ætli Lloyd George og Baldwin hafi svo sem haldið langar lofræður, er sagt. (Dómsmrh. JJ: Þetta er ljeleg enska hjá hv. þm.). Jeg býst við, að jeg kunni eins mikið í ensku og hæstv. dómsmrh., eins og fleiru. En það kemur ekki málinu við, hvor okkar er fremri að enskukunnáttu. Það kemur málinu við, hverjir það eru, sem þessi lofsamlegu ummæli koma frá. Og það eru nú bara þeir, sem gjöfina þáðu, sem eru að þakka rausnina, og því meiri og innilegri eru þakkirnar, sem gjöfin var óvæntari og óeðlilegri. — Þetta góðgerðafjelag er eitt af þeim fjelögum ytra, sem eru svo og svo rík, en hjer heima eru fjelög starfandi í sama tilgangi, en berjast við fátækt og fjeleysi. Framhjá þeim er gengið. Það er barnalegt að hæla sjer af þessu. Það er vítavert að hafa gert þetta. Má hver þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta, sem vill. Jeg geri það ekki.

Jeg skal ekki eyða orðum að gjöf Thorcilliisjóðsins. En jeg verð að segja það, að það var öldungis ósæmilegt, hvernig hæstv. dómsmrh. hagaði orðum sínum um Oddfellowregluna.

„Þetta danska leynifjelag“, á því var hann sí og æ að klifa. Svo var það fyrir honum nokkurskonar uppgötvun, að hv. 1. þm. Skagf. og fyrv. ráðh. skyldi vera meðlimur þessa fjelags. Allur tónninn í ummælum hæstv. ráðherra um þetta var með öllu ósæmilegur. Sjálft orðalagið, þótt ilt væri, var hátíð hjá þessum strákslega illkvitnistón, er einkennir alt tal hæstv. dómsmrh.

Hjer er um að ræða góðgerðafjelag, sem er með nokkurri leynd yfir sjer að vísu, og þótt það sje erlent að uppruna, þá er sú deild, er hjer starfar, fullkomlega íslensk. Og ráðstöfun hv. 1. þm. Skagf., er hann gerði sem ráðherra í lok stjórnartíðar sinnar, er í því fólgin, að hann ákveður að þiggja fyrir hönd Thorcilliisjóðsins ekki óverulega gjöf frá Oddfellowreglunni, með því skilyrði, að sjóðnum verði varið til þess að reisa berklahæli fyrir börn og reglan fái nokkurn íhlutunarrjett um stjórn sjóðsins.

Stjórn þessa danska leynifjelags, er hæstv. ráðh. kallar svo, skipa fyrverandi ráðherra og framsóknarflokksmaður Klemens Jónsson og annar merkur borgari þessa bæjar, og þriðji sá, er til skamms tíma hefir einn gætt sjóðsins: skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu.

Hæstv. dómsmrh. umhverfðist allur yfir því, að sjóðnum, sem á að verja til berklavarnahælis fyrir börn, skuli hafa fallið nokkurt fje, er ráðh. telur, að með rjetti tilheyri Vífilsstaðahælinu. Jeg fyrir mitt leyti álít það viðlíka hyggilegt að meta meira berklavarnahæli fyrir börn en Vífilsstaðahælið, þótt þarflegt sje, og hitt, að meta meira sundhöll en spítala, af því að sundhöllin á að skapa heilbrigði og koma í veg fyrir krankleik og minka þannig spítalaþörfina. Það á að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann.

Jeg hefi þegar talað of lengi, en á margt eftir ósagt, sem mig hefði langað til að segja, en ætla þó að sleppa.

Jeg get samt ekki stilt mig um að víta hæstv. dómsmrh. fyrir ummæli hans um Shellfjelagið. Hann sagði frá því með talsverðum fjálgleik, að líkur væru til, að Englendingar ætluðu sjer að koma hjer upp olíustöð fyrir flota sinn. Jeg ætla ekki að orðlengja um, hvaða ástæður sjeu fyrir hendi til þess að gera sjer slíkar getgátur. En jeg verð að halda því fram, að það sje ósæmilegt, að dómsmrh. skuli leyfa sjer að hugsa — bara hugsa — hvað þá segja slíkt, áður en hann hefir athugað, hvort fjelagið hafi með fjárhagslega aðstöðu eina fyrir augum ástæðu til þess að byggja olíugeymana svona stóra; en þeirri spurningu verður ekki svarað fyr en í fyrsta lagi er upplýst, hvað geymarnir þurfi að vera stórir til þess að fullnægja notaþörf dagsins í dag, og þar næst, hvort vextir þess fjár, sem kynni að hafa verið lagt í stofnkostnað umfram þarfir líðandi stundar, eru meiri en sá hagur, er fjelaginu fellur af lægri flutningskostnaði á olíunni, er fæst vegna stærri geyma. Það þarf ekki að vera miklu dýrara að flytja þangað í einu 8000 smálestir heldur en t. d. 5000 smálestir, því leigan er tiltölulega miklu ódýrari á stærri skipum en hinum minni. Ef fjelagið sparar meira á flutningskostnaði en sem svarar vöxtum og tilkostnaði við það að byggja stærra en þörf er á í svipinn, þá hefir það einnig trygt sjer framtíðarhlunnindi fyrir ekki neitt. Þó hæstv. dómsmrh. sje ekki verslunarfróður, þá ætti hann þó að skilja þetta.

En jafnvel þótt hæstv. dómsmrh. hefði haft meiri ástæðu til að viðhafa þau orð, er hann mælti um þetta, þá væru þau þó alveg ósæmileg fyrir mann, sem er í jafnhárri stöðu og hann er. Orð svona háttsetts manns um, að verið sje að tryggja einu stórveldanna sjerrjettindi hjer á landi, eru beinasta leiðin til þess að gefa öðrum stórveldum kröfurjett til sömu rjettinda. En af þessu stafar þjóðinni hinn ógurlegasti voði. Dómsmrh. gerir leik að því að rjúfa varnargarðinn. Borgarhliðin hefir hann opnað og boðið stórveldunum heim, að þau megi setjast að þeim gæðum, er til þessa hafa verið vöggugjöf íslensks frumburðarrjettar. Hvarvetna annarsstaðar, þar sem maður í svona hárri stöðu hefði sagt slík orð, þá hefði hann orðið að segja af sjer tafarlaust. (Dómsmrh. JJ: Ekki þótt götustrákur hefði heimtað það! — Forseti (hringir): Ekki samtal). Það gleður mig, að hæstv. forseti finnur ástæðu til að víta dómsmrh. (Dómsmrh. JJ: Nei, það er götustrákurinn, sem á er hringt). Já, það er götustrákurinn. Hann á að hætta að grípa fram í, en jeg að halda áfram að tala.

Jeg hefi þá um hríð deilt allfast á hæstv. dómsmrh. og nokkuð á hæstv. forsrh. Það er ekki ástæðulaust, að jeg hefi verið harðorður, því þeir hafa sjálfir skorað á okkur stjórnarandstæðingana að koma fram með ádeilur okkar. En nú vil jeg segja hæstv. forsrh., að „þó eru eftir ótaldar, allra þyngstu klyfjarnar, sem líka á að láta þar“.

Jeg verð að beina þyngstu atlögunni að hæstv. forsrh. Hann ber ábyrgð á þeim skugga, sem fallið hefir á íslenskt velsæmi við það að skipa dómsmálaráðherrasætið þeim manni, er nú situr þar. Menn hefði ekki undrað það eins mikið, þó þessi maður hefði fengið annað sæti í stjórninni. En að hann setti hann í þetta sæti, það undrar alla. Og það er vonlegt, því það hefir ekki farið dult með þjóðinni, að þetta er sá grimmasti, ranglátasti og óbilgjarnasti stjórnmálamaður, sem þjóðin hefir átt. Þetta er dómur meira en hálfrar þjóðarinnar um þennan mann, og jafnvel hans eigin fylgismenn bera það ekki af honum. Þeir fara ekki lengra í því en segja: „hann er rjettur á ykkur.“ Hann getur kannske verið það sem blaðamaður, en hann er ekki rjettur á þjóðina sem dómsmálaráðherra. Hún á sannarlega skilið að eiga betri dómsmálaráðherra. Annars hefir hann nú hvorki reynst betur nje ver en búast mátti við þennan stutta tíma, sem hann hefir setið að völdum. Hann hefir ofsótt borgarana. (Dómsmrh. JJ: Já, þjófana). Varðskipsforingjarnir eru engir þjófar. Hann hefir þverbrotið lögin, sólundað fje ríkissjóðs heimildarlaust. Þetta verður þjóðin alt að þola. En þó verður sú raunin, sem þingmenn verða að þola, þessi daglegi vaðall hans, allra þyngst. Aðrir þingmenn gætu ekki komið öllu því orðbragði að á heilu þingi, sem hann kemur fyrir í einni ræðu. Þegar maður kemur af þingfundi, er vanaspurningin þetta: Hvernig var dómsmálaráðherrann?

Og maður verður að svara, að hann hafi hvorki verið betri nje verri en venjulega. Hann er altaf sjálfum sjer líkur. Og þó er það einkum andinn, sem ríkir yfir orðalagi hans, illkvitnin og getsakirnar í garð andstæðinga hans, sem gera ræður hans andstyggilegastar. Við það bætist svo óvarkárnin út á við. Væri óskandi landsins vegna, að sem minst frjettist af því til annara þjóða.

Hæstv. forsrh. hefir gengið í ábyrgð fyrir dómsmálaráðherra með því að gerast formaður hans í landsstjórninni. Á sínum tíma verður hann krafinn til reikningsskapar á þeirri ráðstöfun. En jeg hygg, að hann verði aldrei maður til að greiða þá skuld, þótt hann sjálfur telji sig vera hinn pólitíska örn, en líki andstæðingum sínum við lambaspörð. En jeg er hræddur um, að þegar rannsókn fer fram á því hreiðri síðar, sem hæstv. forsrh. hefir hafst við í um stund, að þá verði það frekar grátitlingsegg en arnaregg, sem finnast þar. Hæstv. forsrh. verður ávalt pólitískur öreigi meðan ábyrgð á verkum dómsmrh. hvílir á honum. Eina bjargarvonin er, að stjórnin segi af sjer, og það ætti hún að gera sem fyrst. — Vona jeg, að hæstv. stjórn hafi nú ekki syfjað um stund.