13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Haraldur Guðmundsson:

Allir, sem tekið hafa til máls um þetta mál, hafa viðurkent, að hjer væri um mikið þjóðþrifa- og nauðsynjamál að ræða. En menn greinir á um það, eins og oft vill verða um slík mál, hvort hjer sje um svo aðkallandi þörf að ræða, að þetta mál eigi að sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum málum, er þeir telja einnig nauðsynleg og gagnleg.

Það er nú mín skoðun, að þetta mál sje svo mikið nauðsynja- og þjóðþrifamál, að ekkert annað kalli frekar að, og því sje alveg ótækt að láta það bíða eða sitja á hakanum.

Menn hafa deilt um það hjer, hve mikinn þátt ríkinu beri að taka í þeim kostnaði, sem framkvæmd þessa máls mundi leiða af sjer, og sumir haft það á móti frv., að í því væri, með ákvæðinu um framlag ríkissjóðs, brotin sú regla, sem hingað til hefði verið fylgt um framlag ríkissjóðs til sundlauga. Þeir hafa haldið því fram, að með því að samþ. frv. væri Reykjavík gert hærra undir höfði en öðrum landshlutum, og með því brotinn rjettur á þeim. Jeg skal ekki neita því, að ef litið er til fjárhæðanna eingöngu og nafnanna, sem fylgja, lítur svo út, sem þeir hafi nokkuð til síns máls. En það er alveg víst — og það mun verða viðurkent, þótt síðar verði —, að hjer er ekki fyrst og fremst að ræða um hjeraðsmál Reykvíkinga, heldur fyrst og fremst mál alls landsins. Það er kunnugt, að hingað til Reykjavíkur flykkist á vetri hverjum fjöldi ungra manna og kvenna í ýmsa skóla hvaðanæfa af landinu. Ef þessu fólki er nú gefinn kostur á því að nema sund með hægu móti, þá er auðsjeð, hvílíkt tækifæri það er til þess að breiða út sundíþróttina meðal landsmanna. Þetta unga fólk mun flytja með sjer íþróttina út um allar sveitir landsins, kynna mönnum hana og kenna og sýna mönnum fram á gagnsemi og ágæti listarinnar. Þetta verður áreiðanlega afleiðing þess, ef Sundhöll yrði bygð hjer í Reykjavík. Mönnum er það eitt ekki nóg að nema; þeir eru jafnan fúsir á að miðla af fróðleik sínum til annara. Jeg heyrði því haldið fram af einhverjum háttv. þm. — jeg hygg, að það hafi verið hv. þm. Borgf. —, að hjer í Reykjavík yrðu menn ekki varir svo mikils áhuga á sundíþróttinni, að það gæti hvatt þm. til þess að vera málinu fylgjandi.

Jeg vil benda þessum hv. þm. á það, að einstaka menn og fjelög hjer og bæjarstjórn Reykjavíkur hafa lagt mjög verulega af mörkum í þessu skyni. Sundlaugarnar hjer innfrá hefir Reykjavíkurbær bygt alveg án styrks úr ríkissjóði. Þar hafa ekki aðeins Reykjavíkurbúar lært sund, heldur einnig fjöldi manna annarsstaðar að. Sumir þeirra hafa síðan orðið til þess að kenna mönnum sund úti um alt landið. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir líka samþykt að hafa sundlaug í barnaskólanum nýja, og ekki farið fram á nokkurn styrk úr ríkissjóði til hennar, og ennfremur að nota heimild síðasta þings til þess að lögbjóða sund sem skyldunámsgrein við þann skóla. Fjelög íþróttamanna hafa styrklaust bygt sundskálanri í Örfirisey og sjeð um sundkenslu þar.

Um þá sundlaug, sem hjer er um að ræða, sundhöllina svo kölluðu, stendur alveg sjerstaklega á, því að það mál er, eins og sýnt hefir verið fram á, fult svo mikið mál allrar þjóðarinnar sem Reykvíkinga.

Það hefir verið rætt um það í fjvn., eins og hv. þm. Borgf. veit, hvort ekki mundi vera rjett að breyta hlutföllunum um tillag ríkissjóðs til sundlauga yfirleitt. Mjer er ekki kunnugt um hug annara manna til þess máls, en jeg fyrir mitt leyti mun verða fylgjandi því, að tillag ríkissjóðs verði hækkað til jafns við tillög hjeraðanna. Jeg álít, að það sje til vinnandi til þess að hvetja menn úti um land til þess að leggja sjálfir fram fje til þess að byggja sundlaugar og iðka sund meir en nú er. Og jeg er sannfærður um það, að sundhöll hjer í Reykjavík er stórt spor í þá átt að hvetja menn til þess að leggja meiri stund á sund en nú er gert, ekki aðeins Reykvíkinga, heldur einnig menn um land alt.

Það hefir verið tekið fram rjettilega af hæstv. forsrh., að það er alveg sjerstök þörf á því fyrir Reykjavík, að hjer sje kostur á góðri sundlaug. Jeg veit ekki nema það sje þörf á því að minna hv. þm. á það, ef svo kynni að vera, að þeir myndu það ekki fullvel áður, að kjör almennings og híbýlaháttur hjer í Reykjavík er svo bágborinn, að fólki er það nauðsyn að eiga kost á því að geta farið í bað iðulega, ef það á að geta gætt sæmilegs hreinlætis og haldið heilsu sinni. Það, að koma hjer upp sundhöll, sem allur almenningur getur náð til, er því nauðsynlegur liður í þeim ráðstöfunum, sem gera þarf til þess að ráða bót á ástandinu í heilbrigðismálum meðal almennings hjer í Reykjavík, auk þess, sem það yrði til þess að fleiri lærðu og iðkuðu sund en nú er. En í slíkum sjómannabæ sem Reykjavík er eiga allir að kunna að synda og kunna það vel.

Jeg saknaði þess hjá hv. 3. þm. Reykv. (JÓl), að hann skýrði frá því, hvað meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur mundi gera, ef breytt yrði ákvæðinu í frv. stj. um tillag ríkissjóðs. Jeg verð að segja það sem mitt álit persónulega, að jeg álít það dálítið hæpið, að hún telji sitt tilboð um framlag bindandi nema sú upphæð komi á móti, sem þar er gert ráð fyrir. Jeg hefi ástæðu til að ætla, að hv. 3. þm. Reykv. geti vel sagt um það, hvern veg meiri hluti bæjarstjórnar Reykjavíkur muni líta á það mál. Í bæjarstjórninni eiga sæti ýmsir menn, er telja mörg önnur mál svipuð nauðsynjamál sem þetta og meir aðkallandi, og þá gæti svo farið, ef tillag ríkissjóðs yrði lækkað, að það kynni að draga dálítið úr áhuga sumra bæjarfulltrúanna á þessu máli. Væri því gott, ef hv. 3. þm. Reykv. vildi nú upplúka sínum munni þar um.

Hv. þm. Borgf. er ákaflega hræddur um, að sundhöll hjer í Reykjavík muni „draga menn frá sjónum“. Það mun nú vera svo, að því er jeg held, víðast hvar á landinu, að það er aðeins um mjög stuttan tíma ársins, að almenningur getur iðkað sund í sjó. Þeir, sem eru heilsuveilir, fara ekki í sjóinn á vetrum, þegar „tólgar fjöruna“. Og ef hv. þm. Borgf. álítur það til þjóðþrifa, að menn fari í sjó, þá ætti hann einnig að sjá, að fyrsta sporið til þess, að svo verði, er að byggja sundhöll, svo almenningur geti lært sund, en þegar svo er komið, mun þess skamt að bíða, að allir fari í sjó, þegar það er hægt vegna veðráttu.