13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Pjetur Ottesen:

Mjer fanst hæstv. forsrh. vera nokkuð viðkvæmur fyrir því, að jeg sagði, að stjórnin bæri þetta mál fram um leið og hún legði til að skera niður fjárframlög til verklegra framkvæmda. Vildi hann sýna fram á, að jeg færi þar með staðlausa stafi. Hæstv. forsrh. sagði, að stjórnin hefði bundið sig við að fara ekki út fyrir fjárlögin. (Forsrh. TrÞ: Jeg sagði það ekki). Það má vera, að hæstv. ráðherra hafi ekki sagt það með þessum orðum nú við þessa umræðu, en hann hefir sagt það við fjárveitinganefnd, og þykir mjer undarlegt, ef hann ber á móti því hjer, sem hann segir þar. Það er síður en svo, að jeg telji þetta óheppilega reglu, ef hæstv. forsrh. vildi þá sýna lit á að fylgja henni.

Hæstv. ráðherra er að hæla sjer af því, að stjórnin hafi ekki viljað bera fram fjárlagafrv. með tekjuhalla. Þó að þessar 100 þús. kr., sem stjórnin vill veita til sundhallar í Reykjavík, sjeu ekki teknar inn í fjárlagafrv., þá er það nú í raun og veru alveg sama, því það er ráð fyrir því gert að greiða þessa upphæð á næsta ári, svo þegar tekið er tillit til þessarar fjárveitingar, þá er fjárlagafrv. í raun og veru borið fram með tekjuhalla, sem nemur mismuninum á þessari upphæð og tekjuafganginum í fjárlagafrv. Það er þess vegna ekki ástæða fyrir hæstv. ráðherra að stökkva upp á nef sjer út af því, sem jeg sagði um þetta atriði.

Um rjettmæti þessarar stefnubreytingar, að hlaupa nú í að veita Reykjavíkurbæ helming kostnaðar við byggingu sundhallar, vil jeg geta þess, að svo hefir verið úti um land í sumum hjeruðum, að einstakir menn eða fjelög hafa komið upp sundlaugum, sem hafa kostað 10–20 þús. kr., án nokkurs atbeina úr ríkissjóði. En þeir, sem styrks hafa notið, hafa ekki fengið nema 1/5 kostnaðar. Þegar nú einstök hjeruð geta int þetta af hendi, þá ætti Reykjavíkurbæ ekki að verða skotaskuld úr því að koma sjer upp sundhöll á sama hátt. Enn má geta þess, að styrkur til sundlaugabygginga úti um land er eingöngu miðaður við sundlaugina sjálfa, en auk hennar þarf að byggja hús til afnota fyrir sundiðkendur, og hefir það ærinn kostnað í för með sjer, en í því skyni hafa sveitir landsins ekki fengið einn eyri.

Háttv. þm. V.-Ísf. hneykslaðist á því, að jeg skyldi tala um sjóinn, rjett eins og sjórinn væri slík forynja, að goðgá væri að láta hans getið. Jeg veit, að meiningin er ekki sú, að ætla sjer með auknum styrk til sundnáms að draga menn frá sundiðkunum í sjó. Sjórinn er stundum kaldur; jeg skal játa það. En lífskjör alls fjöldans af Íslendingum eru ekki á þann veg, að maður geti altaf haldið sig í hlýjunni. Það er holt og nauðsynlegt að venja sig við kuldann líka. Maður þarf ekki að hengja sig svo mjög í fornöldina til þess að sannfærast um þetta. En háttv. þm. V.-Ísf. lætur sjer ekki nægja minna en að seilast langt aftur í römmustu forneskju eftir líkingu til þess að heimfæra upp á mig. Jeg ætla ekki að svara þeirri líkingu, og jeg get vel sætt mig við að vera líkt við Cato hinn gamla.

Háttv. þm. hjelt því fram, að jeg hefði ekki viljað viðurkenna, að þetta fje, sem ætlað er til sundhallarbyggingar, færi til verklegra framkvæmda. Jú, mikil ósköp. Vitanlega er það líka verkleg framkvæmd. En það, sem jeg vítti, var aðeins það, að veita svo stóra upphæð til slíkra framkvæmda samtímis því, sem hæstv. stjórn er að skera niður fjárframlög til annara miklu nauðsynlegri framkvæmda.