13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð. Hjer hefir mikið verið talað um ósamræmi. Jeg vil aðeins minna á það, að hjer er eingöngu um heimildarlög að ræða, og get huggað háttv. þm. Borgf. með því að segja honum, að jeg geri alls ekki ráð fyrir, að þessi heimild verði notuð, ef ekki fást meiri tekjur en áætlaðar eru í fjárlagafrv. stjórnarinnar. En jeg býst við, ef tekjuauki fæst, að það verði hægt. Og þá kemur líka til mála að hækka aðrar fjárveitingar og stofna til frekari verklegra framkvæmda. Að þessu athuguðu ætti mönnum að vera ljóst, að í þessu eru alls ekki fólgið neitt ósamræmi.

Jeg vil ennfremur minna á, að tekjuáætlun fjárlaganna er sniðin eftir frv. því, er fráfarandi stjórn lagði fyrir þingið í fyrra til samþyktar. Síðan í fyrra hafa engar breytingar orðið á sköttunum. Eigi að síður hefir stjórnin lækkað áætlunina um ¾ milj. kr., þannig að grundvöllurinn, sem bygt skal á, er ólíku traustari núna en í fyrra. Ef háttv. þm. Borgf. því vill áfellast stjórn þá, er nú situr við völd, fyrir ógætilega tekjuáætlun, þá er í þeim áfellisdómi fólgin margföld ásökun á hendur þeirri stjórn, er fór með völdin síðastliðið ár og háttv. þm. hefir stutt.