13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Hákon Kristófersson:

Þetta mál er svo vaxið, að jeg tel ástæðu til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu.

Jeg vil segja hæstv. forsrh. það, að hverjum þykir sinn fugl fagur, en ekki skal jeg deila við hann að öðru leyti. Jeg verð að líta svo á, að það sje miður sæmilegt af háttv. meðhaldsmönnum þessa máls að bregða öðrum um slæmar hvatir, þótt þeir hafi aðrar skoðanir á því. Það er leitt, ef satt væri, að þingmenn utan af landi væru líklegir til þess að standa í götu þjóðþrifamála, ef þau á einhvern hátt kæmu Reykjavíkurbæ sjerstaklega að notum.

Jeg álít þetta mál menningarmál, sem komi þjóðinni við í heild sinni. Í eðli sínu er það fyrst og fremst helgað höfuðstað landsins. Þar með er ekki fyrir það girt, að aðrir landshlutar njóti góðs af. Það er metnaðarmál hverrar þjóðar að hlynna að höfuðborg sinni. Það er metnaðarmál, og það er menningarmál að því leyti, sem gera má ráð fyrir, að þaðan renni þeir straumar, er móti þjóðlífið: Jeg sje mjer því ekki fært að vera á móti þessu máli, og það því síður, sem hjer er aðeins um heimild handa stjórninni að ræða. En því slæ jeg jafnframt föstu, að sami grundvöllur og gengið er út frá með þessu frv. um sundhöll fyrir Reykjavík verði að gilda fyrir önnur hjeruð um bygging sundlauga. Teldi jeg ver farið, ef svo yrði ekki. (Forsrh. TrÞ: Sömuleiðis). Er ólíku saman að jafna, hvað þetta er frambærilegra mál heldur en frv. um letigarðinn, sem hjer hefir verið á ferðinni, komið úr sömu átt.

Um það, að þingmálafundur norður í Húnavatnssýslu sje skilningsbetri á nauðsyn þessa máls heldur en háttv. þm. Borgf., hygg jeg, að geti leikið mjög á tveim tungum, enda þótt hv. þm. V.-Húnv. vilji láta líta út sem svo sje. Jeg leyfi mjer að efast stórlega um það. Hitt er engin furða, þótt þar fáist fylgjendur þessu máli sem öðrum úr sömu átt, þegar þeim er sagt að gera það. Þetta er ekki sagt til þess að hindra málið. Það er frekar sagt vegna þess, að það er alls ekki víst að gleggri skilningur sje á þessu máli í Húnavatnssýslu heldur en víða annarsstaðar. Og þess er vert að minnast, að það eru ekki altaf vitrustu mennirnir, sem bregða öðrum um skilningsleysi.

Í sambandi við þetta mál er eitt atriði, sem jeg vildi minnast á og mjer þykir athugavert. — Í c-lið frv. segir svo: að nemendur úr skólum, er landið kostar að meira eða minna leyti, fái ókeypis aðgang til æfinga í sundhöllinni. Út á þetta er í sjálfu sjer ekkert að setja. Jeg álít það alveg rjettmætt og sjálfsagt. En svo kemur d-liðurinn: að bærinn skuli selja aðgang almenningi, en þó ekki dýrara verði heldur en þarf til þess, að fyrirtækið beri sig. Þetta þykir mjer óviðfeldið og ekki rjettlátt. Jeg get sem sje búist við, að það verði aðallegast fátækasti hluti bæjarbúa, — sem beri uppi kostnaðinn við rekstur sundhallarinnar með þessu móti. En hinir, sem eru svo efnum búnir, að þeir geta sent börn sín í skóla, eiga að fá þessi hlunnindi ókeypis. Það mundi valda því misrjetti, er ekki yrði við unað til lengdar. Virðist enda ekki ósanngjarnt, þótt bænum væri gert að skyldu að veita öllum jafnt ókeypis aðgang og afnot af sundlauginni, eftir að hafa fengið svo ríflegan styrk til byggingarinnar.

Þá vil jeg og taka það fram í sambandi við þetta mál, að hæstv. forsrh. hefir fengið nýjan skilning á þörf sveitanna í þessu efni og hygst að sjá þeim fyrir hlutfallslega jafnháum styrk og þetta frv. heimilar að veita Reykjavíkurbæ. Er það lofsvert og ber að þakka það.