14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vil með örfáum orðum lýsa afstöðu minni til þessa máls. Álit mitt á gagnsemi sundnáms og sundiðkana er rótgróið. Jeg álít, að það hafi mikla þýðingu, bæði heilsufræðilega og menningarlega, og jeg hika ekki við að greiða þessu frv. atkv. mitt, þó að hv. þm. Snæf. hafi minst á annað mál, sem á mikil ítök í mjer. En jeg er svo bjartsýn, að jeg vona, að það mál fái góða afgreiðslu, eftir öllum sólarmerkjum að dæma, bæði vegna sóma þings og þjóðar og aðkallandi þarfa, þótt ekki sje enn nein ákvörðun tekin í því. Og jeg greiði atkv. með þessu frv. í því trausti. Sundhallarmálið er bæði hollustu- og menningaratriði. Það er ekki minni vandi að gæta fengins fjár en afla; jeg á hjer við heilsuna, sem við flestöll fáum í vöggugjöf; alt, sem styrkir hana, er rjett og sjálfsagt að styðja.

Það er skekkja hjá hv. þm. Snæf., að allir hafi greiðan aðgang að sundlaugunum hjer í Reykjavík. Jeg hefi nú í 30 ár kent eða staðið fyrir kvennaskólanum, sem á að hafa aðgang að laugunum, en það hefir oft ekki verið hægt fyrir nemendur þess skóla að komast þar að dögunum saman. Því er það ekki rjett, að Reykjavík sje borgið hvað sundnám snertir, þótt það sje ólíkt betra nú en áður var, síðan sundskálinn var bygður í Örfirisey. En betur má, ef duga skal, og að því þarf að stefna, að hver karl og kona læri að synda, bæði vegna hollustunnar og til þess að geta bjargað sjer úr lífsháska.