14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Jón Þorláksson):

Það er ekki nema að litlu leyti rjett, að hjer í Reykjavík sje góð aðstaða til sundnáms. Hún er frekar lítilfjörleg fyrir allan þann mannfjölda, sem er í bænum. Og laugarnar eru auk þess uppteknar af skólanemendum, svo að meðan skólarnir eru hjer við nám, er erfitt að komast þar að, nema fyrir þá, sem kynnu að geta tekið hverja stund sem óskipuð er í laugunum. Auk þess eru sundlaugarnar svo fjarri bænum, að þeir menn, er vinna daglega vinnu, hafa lítil tök til að notfæra sjer þær í matartímanum; á morgnana kemst takmarkaður fjöldi að, og kvöldin eru útilokuð í skammdeginu vegna myrkurs. Þótt margir læri hjer sund, eru kringumstæðurnar svo, að ekki er hægt að nota laugarnar til sundiðkana, af því að þær eru ónógar fyrir svo mikinn fjölda, sem hjer er. Úr þessu á sundhöllin að bæta, svo að sundnám og dagleg iðkun sunds verði nokkur þáttur í lífi manna. Og það er ekkert, sem hægt er að gera með jafnlitlum tilkostnaði sem þetta til að ýta undir líkamsmentun landsmanna. — Allur kostnaðurinn er fólginn í þessu framlagi í eitt skifti fyrir öll. Það er venjan, að ríkið þurfi bæði að leggja fram stofnkostnað og rekstrarfje til menningarfyrirtækja, en hjer er svo um búið, að útgjöldin koma í eitt skifti einungis.