22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Þorláksson:

Hv. frsm. landbn. gerði þá grein fyrir aðalákvæðum 9. gr., að þau lækkuðu að vísu verð jarða í viðskiftum, en ekki sem framleiðslutækis. Hann hefir alveg rjett fyrir sjer þar. En hvað þýðir þetta? Jú, það þýðir, að með framkvæmd 9. gr. er verið að taka nokkuð af verði jarðarinnar sem framleiðslutækis frá eigendunum og gefa það öðrum. Ákvæðið er í sjálfu sjer svo óeðlilegt, að jeg efast um, að það verði nokkurntíma framkvæmt. Sennilega verður farið svo í kringum það, að það nái aldrei tilgangi sínum. Og þó að svo kunni að fara, að það komi til framkvæmda, þá veldur það áreiðanlega megnri óánægju, og úr henni verður bætt þegar hún er orðin svo mikil, að hinir óánægðu geta haft áhrif á löggjafarstarfsemina. Má nefna dæmi hjeðan úr Reykjavík, þegar eigendur sumra fasteigna voru gerðir rjettlægri en aðrir. En nú eru þessir menn orðnir svo margir, að ekki er lengur hægt að halda fyrir þeim þessum rjetti.

Mjer þótti vænt um, að hv. frsm. tók skynsamlega í málið, eins og hans var raunar von og vísa. En ekki veit jeg, hvort jeg hirði um að bera fram neinar tillögur til breytinga. Jeg vil aðeins leyfa mjer að benda hv. nefnd á það, að jeg ætla, að leigan verði að vera svo há, að leigutaki beri allar afborganir til sjóðsins. Raunar held jeg, að tölurnar í gr. megi standa, ef aðeins er settur sá fyrirvari, að leigan fullnægi þessu skilyrði.

Mig undraði ekki, þó að hæstv. dómsmrh. fyndi ástæðu til að taka til máls um þetta frv. Hann hefir auðsjáanlega þótst þurfa að helga sjer gripinn. Svo lítið er nú eftir af hans marki á kindinni. Eiginlega er það ekkert nema nafnið — og svo ákvæði 9. gr., og hafa þau þó verið stórum lagfærð frá því, er þau komu frá hans hendi. Mig furðaði ekkert á því, sem hann sagði um 9. gr. Hann talaði þar eins og sá sósíalisti, sem hann er, og það er alveg rjett, að þar erum við sinn á hvorri skoðun. En ef honum kemur það í hug í alvöru, að með 9. gr. sje komið í, veg fyrir gróðabrall, hlýtur það að stafa af tilfinnanlegum þekkingarskorti. Til þess að sjá þetta, þarf hann ekki annars en að líta í kringum sig í kaupstöðum, þar sem lóðir eru leigðar; þar hefir það sýnt sig, að þegar leigan er of lág, finna menn upp á því að selja leigurjettinn. Einmitt þar sem sú óeðlilega tilhögun, sem gert er ráð fyrir í 9. gr., á sjer stað, blómgast gróðabrallið í sinni verstu mynd. Þegar mönnum er meinað að hækka leiguna, taka þeir upp á því að selja leigurjettinn. Alveg sama mundi eiga sjer stað með bændaeignirnar. Þar hleypur „spekulationin“ einnig yfir í leigurjettinn. Það er eðlilegt, að bændurnir líti það óhýru auga, að teknar sjeu af þeim eignir þeirra, og að menn, sem engan rjett hafa til þeirra, megi auðgast á leigunni. Eins mundi fara með hitt ákvæðið, um að selja jarðir. En þar er þó ennþá hægra um samvinnu. Þá kemur upp rjetturinn til að fá jörð keypta, og hann gengur kaupum og sölum. Jeg verð að segja það, að það ber vott um alt of litla aðgæslu hjá hæstv. dómsmrh., ef hann heldur, að þetta sje aðferðin til að útrýma gróðabralli. Nei, með þessu er einmitt verið að gefa gróðabrallinu undir fótinn.

Hæstv. dómsmrh. spáir því, að jeg muni bíða ósigur, ef jeg haldi fast við það að láta bændur halda eignarrjetti sínum, í stað þess að gefa hann öðrum mönnum. En jeg vil ráðleggja honum að ganga hjerna upp í Þingholtin, eða nýja hverfið, sem kallað er; þar getur hann lesið sögu hugmyndar sinnar. Þar er nú sjeð, hvor stefnan muni sigra. Nú eru lóðaleigjendurnir þarna orðnir svo margir, að þeir heimta sinn rjett til jafns við aðra borgara bæjarins. Og á svipaðan hátt mun fara með þessa missmíði hæstv. dómsmrh.