22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1769 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg mun ekki eyða tíma til að sanna, hve mikla vinnu jeg hefi lagt í undirbúning málsins. Jeg læt mig engu skifta annað en það, að það nái fram að ganga. Hitt, að við hv. 3. landsk. höfum ólíka aðstöðu í hinni stuttu sögu málsins, verður að vera happ og óhapp okkar beggja.

Jeg get sagt hv. 3. landsk. það, að eftir að hann hafði mánuðum saman látið blöð sín básúna það um landið, að allir gerðu sig að sveitarlimum, sem þægju þessi lán, hjelt jeg eitthvað 30 fundi með kjósendum úti um landið. Alstaðar fann jeg merki um hið góða sæði, sem blöð hv. þm. höfðu sáð. Fyrst framan af var margt fólk á því, að háttv. þm. hefði rjett fyrir sjer um það, að óverjandi væri að hjálpa nýbýlabyggingunni á þennan hátt. Jeg verð að játa, að mín uppskera var í upphafi ekki meiri en svo, að jeg gat aðeins haldið í skefjum mótmælunum, sem ýmsir menn úti um landið tóku eftir blöðum hv. 3. landsk. Hann vann þannig í fyrstu einskonar sigur í málinu. Honum tókst að telja mörgum sveitamönnum trú um, að þeim og börnum þeirra væri skömm að þiggja lán úr landnámssjóði með aðgengilegum kjörum.

Mjer kemur ekki til hugar að segja, að neitt óeðlilegt sje við það, að nýmæli eins og þetta sje nokkur ár að vinna fylgi manna. Jeg vil viðurkenna, að það er heppilegt fyrir slík stórmál að sæta nokkrum mótmælum í upphafi, og jeg viðurkenni, að það er skylda formanns Íhaldsflokksins að vera á móti málinu. Annars bregst hann þeirri köllun sinni að reyna að halda við kyrstöðunni í þjóðfjelaginu og að berjast á móti framförunum. Hann hefir því verið í sínum rjetti í þessu máli, enda þótt þarna verði kyrstaðan auðvitað ófær til lengdar, eins og á öðrum sviðum.

Einn af tryggustu fylgifiskum hv. 3. landsk., hv. þm. Borgf. (PO), aflaði sjer á sínum tíma talsverðra vinsælda með því að leggja mikið upp úr því í ræðum sínum, hversu fáránleg sú ætlun væri, að veita styrk af almanna fje til þess að reisa við „niðurnídd býli“, en þau orð voru notuð einhversstaðar í greinargerð málsins. Þetta fanst honum þá ógurleg fjarstæða og hneyksli, að ætla að reisa „niðurnídd“ býli. En það er það, sem öllum kemur nú saman um, enda þótt ekki sje það orð notað.

Þá vil jeg benda hv. þm. á það, að í annað sinn, sem þetta frv. var fram borið, var það sniðið nokkuð eftir norskri fyrirmynd, horfið að þeirri hugmynd, að í stað þess, að landssjóður lánaði sjálfur fje, þá ljetti hann undir með því að borga nokkurn hluta vaxtanna. Þetta var tvímælalaust heppilegra, en það er dálítið einkennilegt, að í fyrra, þegar málið var tekið upp í hv. Nd. af hv. 1. þm. N.M. (HStef) í nokkuð smærri mynd. þá kemur þar einmitt fram mín fyrri hugmynd, að ríkissjóður legði sjálfur fram höfuðstól lánanna. Hv. þm. (HStef) gerði ráð fyrir 100 þús. kr. á ári, en þá kom einn af þm. Reykv., hv. 3. þm. kaupstaðarins (JÓl), með till. um að hækka tillagið um helming. Það er hið einkennilega, að fyrst þegar lát verður á andstöðu Íhaldsmanna, þá fallast þeir á mína fyrstu hugmynd, sem jeg er sjálfur horfinn frá, af því að jeg hefi sjeð aðra betri.

Hv. 3. landsk. segir, að hægt sje að sjá, að ákvæði 9. gr. fái eigi staðist, vegna þess að reynslan í Vestmannaeyjum og Siglufirði —, jeg man ekki, hvort hann nefndi þó þessa staði, — hafi sýnt, að þegar um ódýra leigu sje að ræða, þá verði ekki komið í veg fyrir brask með leigurjettinn. En hv. þm. aðgætir ekki, að á þessum stöðum vantar setningu, sem hjer stendur í 9. gr. frv., að enginn ábúðar- eða kaupsamningur um eignina er gildur, nema með árituðu samþykki stjórnar sjóðsins. Á Siglufirði og í Vestmannaeyjum er hindrunarlaust hægt að framselja rjettinn til leigulóðanna. Bæjarstjórnir þessara staða voru svo illa að sjer í nútíma fjelagsmálapólitík, að þær þektu ekkert ráð til að sameina hina ágætu hugmynd sína við það, að braskinu væri haldið niðri. En hjer verður fult eftirlit frá stjórn sjóðsins, og getur hún altaf tekið fram fyrir hendur þeirra, sem ætla að misbeita leigumála sínum, og getur hún þá fengið öðrum leigurjettinn. Stjórn sjóðsins verður þarna með öllu óháð. Hennar hlutverk er ekki annað en að vinna á móti hinum illa anda óheppilegrar verðhækkunar. Ef til vill þarf síðar enn kröftugri ákvæði til að koma í veg fyrir þetta, því að um það erum við hv. 3. landsk. sammála, að tilhneiging manna er mikil til þess að nota sjer slík hlunnindi. Þó vona jeg, að þessi ákvæði verði viðunandi nú um skeið.

Þá talaði hv. þm. um það, sínu máli til sönnunar, að óánægja lóðaleigjenda hjer í bæ væri mikil, og vildu þeir ólmir fá að verða aðnjótandi þess gróða, sem fjepúki „Spekulationanna“ gæti fengið þeim í lóðabraski. Jeg efast ekki um, að þetta sje rjett. En jeg ætla að benda hv. þm. á það, sem honum ætti raunar að vera manna kunnugast, að þessum bæ hefir verið stjórnað á fjeglæfravísu um langt skeið. Niðurstaðan er kunn: Reykjavík er svo drepandi dýr, að hún er plága fyrir alt landið að því leyti. En alt þetta má kenna þeim mönnum, sem leyft hafa lóðabraskið og húsabraskið í bænum, svo eftirlitslaust og fávíslega, sem raun ber vitni. Hv. 3. landsk. getur því síður en svo sótt máli sínu nokkurn stuðning í óförum Reykjavíkurbæjar, þar sem það er hann og hans fjelagar, sem haft hafa tögl og hagldir um stjórn bæjarins tvo síðustu áratugi. Alt frá því háttv. þm. kom hingað til lands og rjeði því, að reist var hjer gasstöð í stað þess að virkja þá Elliðaárnar, hefir braskið og fjeglæfrarnir ráðið meginþáttunum í stjórn bæjarins.

Í þeirri aths., sem hv. 3. landsk. nú væntanlega gerir, vænti jeg, að hann bendi á þau tryggingarskilyrði, sem sett hafi verið gagnvart lóðaleigjendum og sambærileg sjeu við hið óhlutdræga aðhald, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Hjer er um það eitt að ræða, hvort notagildi jarðnæðisins eða framsalsmöguleikinn á að vera aðalatriðið. Fyrir mjer vakir, að sem mest af því, er jörðin gefur af sjer, fari ábúandanum til lífsframdráttar, en ekki í eintómar vaxtagreiðslur. Það er hverju orði sannara, er merkur bóndi og vitur úr Árnessýslu sagði nýlega, að það er ómögulegt að búa á jörðunum, ef borga þarf peningavexti bæði af jörðinni ásamt húsum eftir fasteignamati. Sama lífsspekin liggur hjer til grundvallar. Það má ekki heimta vexti eftir fasteignamati jarðarhúsanna, því að þær geta ekki borið það.

Hv. 3. landsk. hefir alls ekki enn leitt nein skynsamleg rök að því, að rjett sje að gefa þessari kynslóð þau hlunnindi, sem af lánunum hljótast, til þess að hún geti selt þeim næsta jarðirnar við dýrara verði. Hv. þm. vill, að fjesýslan fái að þróast í friði, og vill, að landssjóðsframlagið verði til þess að skapa einstaklingseignarmöguleika.

Svo var að heyra á hv. 3. landsk., sem hann áliti, að svo skynsamlegar hugsanir sem þær, er hjer eru fluttar, gætu ekki komið frá neinum öðrum en sósíalistum. Jeg vil nú ekki draga neinn verðskuldaðan heiður af þeim merka þingflokki, hvorki hjer nje annarsstaðar, en mjer finst hv. þm. gera þeim of hátt undir höfði, ef hann vill eigna þeim einum þessar hugmyndir. Ef hv. þm. hefði haft fyrir því að kynna sjer nokkuð borgaralega löggjöf í nágrannalöndunum, þá hefði hann sjeð, að hjer er um stefnumál allra frjálslyndra flokka að ræða.

Jeg vil annars benda hv. 3. landsk. á að hafa góða gát á sínu eigin sauðahúsi. Því að fjelagsumhyggjan sýnist vera farin að nema land í sjálfum Íhaldsflokknum. Ritstjóri sá, sem um langt skeið hefir verið höfuðmálsvari Íhaldsflokksins, hefir fyrir skemstu borið fram hugmynd, sem hann raunar tók að láni að mestu frá einum háskólakennaranum, um sósíalistískar framkvæmdir í bókaútgáfu landsmanna. Jeg man nú ekki, hvort hann flutti þetta fram fyr en hann var kominn úr vistinni, en hann hefir þá haft sig þetta upp síðan. Og hann hefir gert meira en að bera þetta fram í blöðum og tímaritum. Hann hefir lokkað einn harðsnúnasta íhaldsmanninn í Nd., hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), til að koma með hugmyndina inn á Alþingi, í fjelagi við fleiri þm. að vísu. Jeg ætla hvorki að lasta þessa hugmynd nje lofa. Þó verð jeg að viðurkenna, að jeg er nú ekki meiri sósíalisti en svo, að mjer þykir þarna nokkuð geyst úr hlaði riðið hjá íhaldsforkólfunum. En mönnunum gengur vafalaust gott eitt til, og má vel vera, að farið verði eftir till. þeirra síðar, að meira eða minna leyti. Hefði jeg gaman af að fá að heyra skoðun hv. 3. landsk. um þessa sósíalistísku hugmynd flokksbræðra hans.