27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Halldór Stefánsson:

Það má telja það ánægjulegt, hvað sú hugmynd, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., hefir nú fengið ákveðið fylgi bæði hjá þjóðinni og eins innan þingsins, sem marka má af gangi málsins í hv. Ed.

Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, er að mestu sniðið eftir frv. því, sem hjer var á ferð í fyrra, en þó er brugðið frá því í tveim verulegum atriðum.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú talað um annað atriðið, sem sje það, að skift hefir verið um hlutverk, þannig að það hefir verið sett fyr að byggja upp á bygðum býlum en að byggja nýbýli. Þörfin á hvorutveggja er mjög brýn og aðkallandi, en mjer sýnist þó, ef þannig er skift um, að til þess dragi, að nýbýlin verði útundan. Til þess að árangur fáist á báðum þessum sviðum, þurfi miklu meiri aðgerða en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það mun nú vera svo, að sveitabæi þurfi að endurbyggja ekki sjaldnar en einu sinni á hverjum mannsaldri, og til þess þarf feikimikið fje, svo tugum miljóna kr. skiftir. Ef þetta hlutverk er látið ganga fyrir, óttast jeg, að svo mikið fari til þess, að ekkert verði eftir til hins, að byggja nýbýli.

Það var meðal annars þetta, sem vakti fyrir landbn. í fyrra, er hún setti nýbýlamálið ofar. Þau kjör, sem boðin eru til endurbygginga, eru svo góð, að engum, sem komist gæti undir ákvæði sjóðsins, mundi detta í hug að leita annað til að fá lán til þess. Það var einmitt þetta, sem landbn. sá í fyrra, og setti hún því nýbýlin fyr og þessar hömlur til að takmarka eftirspurnina til endurbyggingar bygðra býla og þar að auki þau skilyrði, að við lægi, að býlin væru að fara í auðn eða að húsakynni væru þannig, að búið væri við heilsutjóni af að búa í þeim.

Til þess að endurbyggja bæi landsins þarf mjög stórtækra aðgerða við, og hefir mjer dottið í hug sú leið að taka eitt stórt lán, með svo góðum kjörum, sem unt væri, sem varið væri til þessa, og að ríkið legði svo til fræðilega og verklega aðstoð, til dæmis með vinnuflokkum, sem færu um og önnuðust verkið. Þannig fóru Þjóðverjar að, þegar þeir bygðu upp Austur-Prússland, og var að því dáðst, hve vel þau hús hefðu verið gerð, og þó ódýr.

Hitt atriðið, sem jeg gat um, er í 2. gr. c-lið. Þar er sett inn nýtt verkefni, sem ekki var í fyrra í frv., sem er það, að bæjarfjelög og kauptún, sem eru sjerstakir hreppar, geti fengið lán úr sjóðnum til að koma upp kúabúum á eigin landi hrepps- eða bæjarfjelagsins. — Því er líkt varið með þetta og hitt atriðið, að það mundi draga mikið úr nýbýlaframkvæmdum. Að hinu leytinu sýnist mjer ekki full ástæða til þess, m. a. vegna þess, að margar hendur vinna ljett verk og aðstaða jafnan góð við kaupstaðina, — hægt um jarðvinnu með vjelum, áburður auðfenginn og markaðsskilyrði svo góð, sem þörf er á til þess að framkvæmdirnar beri sig. Þessi tvö atriði tel jeg heldur málinu til spillis, vegna þess að jeg álít, að þau geti dregið mikið úr því, sem jeg tel eiga að vera áðalhugsunina í þessu máli, að fjölga býlum í sveitum landsins.