27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bernharð Stefánsson:

Þar eð mál þetta heyrir undir nefnd, sem jeg á sæti í, skal jeg ekki lengja mjög umræður að þessu sinni. En vegna þess, að jeg hefi átt töluverðan þátt í undirbúningi málsins, þykir mjer þó rjett að fara um það nokkrum orðum.

Það, sem liggur til grundvallar fyrir þessu máli, er sú sannfæring, sem nú virðist vera að verða almenn, að framtíð og heill þjóðarinnar sje undir því komin, að hægt sje að finna leiðir til þess, að fólkið geti lifað viðunandi lífi í sveitunum og til þess að fólksstraumurinn til kaupstaðanna stöðvist. Í þessu efni er feikimikið verk óunnið fyrir þjóðina, og þess er ekki að vænta, að hægt sje að gera alt í einni svipan. En þess vegna þarf líka að meta það rjett, hvað sje mest aðkallandi, og byrja svo á því.

Það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. Skagf., að hjer er um stefnubreyting að ræða í frv. frá því, sem það var í fyrra, því að þá var það aðallega fram borið sem nýbýlamál, en eftir frv. er aðaláherslan lögð á lán til að endurreisa sveitabæi. Ástæðan fyrir því er sú, að þeir, sem samið hafa frumvarpið, líta svo á, að það sje ekki síður áríðandi, að bygðinni sje haldið við í sveitunum en að stofnuð sjeu nýbýli. Og þetta mál — endurbygging sveitabæja — er svo aðkallandi, að það þolir enga bið. Jeg sje ekki, að það liggi á nokkurn hátt nær að koma upp nýbýlum heldur en að hindra það, að jarðir leggist í eyði. Jeg held ekki, að það væri nein fyrirmynd, þó nýbýli risi upp í túnfætinum, ef aðaljörðin legðist í eyði.

Það hafa ýmsir þm. haldið því fram, að ef bæði ætti að byggja upp sveitabæina og styrkja nýbýlin, þá þyrfti þar meira fje til aðgerða en frv. gerir ráð fyrir. Þetta er alveg rjett, og þess vegna er líka lagt til í frv., að lán til sveitabæja gangi fyrst um sinn fyrir lánum til nýbýla, en eins og hæstv. atvmrh. tók fram, þá er það ekki meiningin með þessu frv., að þetta sje endanleg lausn málsins. Það kemur líka fram í greinargerð milliþinganefndarinnar, að þetta frv. ber ekki að skoða nema sem bráðabirgðatillögur frá hennar hendi og að hún ætlar sjer að koma síðar fram með víðtækari till. um lánsstofnun fyrir sveitirnar, þannig að sjeð verði fyrir þessu hvorutveggja.

Að þessu sinni vanst milliþinganefndinni ekki tími til að ganga frá endanlegum till. um þetta efni. Hefði þá getað komið til mála að leggja engar till. fyrir þetta þing. Að nefndin samt sem áður kom fram með slíkar till. — til þess liggja 2 ástæður: Í fyrsta lagi sú, að síðasta þing gaf bein fyrirmæli um, að málið yrði lagt fyrir þetta þing. Í öðru lagi lítur milliþinganefndin svo á, að þótt hjer sje ekki um framtíðarlausn á málinu að ræða, þá sje ekki rjett að bíða með það, að ríkið fari að leggja fram þann styrk, sem frv. gerir ráð fyrir.

Jeg sje ekki annað en að töluvert megi gera með þessu fje, því að auk þess tillags, sem ríkissjóði er ætlað að leggja fram, þá er ætlast til, að stj. fái heimild til að taka allverulegt lán til þessarar starfsemi. Ef þetta ákvæði er samþ. og heimildin notuð, má vissulega gera allmikið fyrir það fje á næstu árum.

Hv. 1. þm. N.-M. mintist á það eins og hv. 2. þm. Skagf., að þessi sjóður væri of lítill til þess að sinna báðum þessum hlutverkum. Þetta hafi landbn. deildarinnar í fyrra verið ljóst, og því hafi verið reynt að setja ákvæði í frv., er takmarkaði eftirspurn eftir þessum lánum. Í þessu frv., sem hjer liggur fyrir, eru töluverð takmörk sett fyrir eftirspurninni, þótt ekki sje á sama grundvelli og í fyrra. Jeg á við þær takmarkanir, sem settar eru fyrir fullum umráðarjetti yfir eign þeirri, er slíkt lán hvílir á. Jeg er ekki viss um, að allir þeir, er byggja á jörðum sínum, vilji ganga að þeim kostum.

Jeg vil að lokum undirstrika þetta: Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, er ekki, hugsað sem endanleg lausn þessa máls. Samt tel jeg hina mestu nauðsyn á, að frv. gangi fram, svo að hafist verði handa nú þegar um verulegar endurbætur í þessu skyni.