27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Hannes Jónsson:

Jeg get verið fáorður, vegna þess að hv. 1. þm. Árn. hefir þegar tekið fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg vil þó leggja meiri áherslu á, hve nauðsynlegt það er, að endurbygging bæja í sveitum fari fram sem fyrst. Jeg veit, að það mun vera álit margra lækna, að þeir eigi flestar ferðir þangað heim, sem verst er bygt í sveitunum, og jeg hygg, að þessar vondu byggingar til sveita sjeu þær gróðrarstíur, þar sem upptökin liggja til þeirra miklu þarfa, sem nú eru að verða á sjúkrahúsum í landinu, og jeg held, að það væri ólíkt skynsamlegra að reyna að fyrirbyggja það, að menn þyrftu að leggjast í sjúkrahús, heldur en að ráðast í svo mikinn kostnað við byggingu sjúkrahúsa, að ríkið þoli það ekki. Endurbygging á sveitabæjum er öryggisráðstöfun, sem þjóðin verður að framkvæma, til þess að ekki lendi í algerðu óefni með þann kostnað, sem nú er stöðugt að fara í vöxt af sjúkrahúsvist berklaveikra manna.

Hv. 2. þm. Skagf. vildi efast um, að það væru örðugleikarnir á því að byggja upp í sveitum, sem rækju menn þaðan. En jeg get sagt hv. þm. það, að margir bændur hafa beinlínis talað um það við mig, hvort þeir ættu heldur að gera, að reyna að losa sig við jörðina sína, koma henni í peninga og setjast að í kaupstað, eða að þeir ættu að fara að byggja upp hjá sjer og ráðast í þann kostnað, sem þeir sæju sjer þó ómögulega fært að komast fram úr. Ennfremur vil jeg benda á það, að með endurbyggingu bæja í sveitum þá er það áreiðanlegt, að fólkinu fjölgar þar. Þetta kann að þykja vafasamt, en þá má benda á það, að það eru ekki svo fá heimili, þar sem ómögulegt er að fá vandalaust fólk á, vegna þess að menn telja heilsu sinni stórkostlega hættu búna með því að vera þar í vist. Jörðin verður því ekki nytjuð nema að nokkru leyti, og meira að segja hefir þetta ,gengið svo langt sumstaðar, þar sem berklaveiki hefir lagst að, að bændur hafa orðið að hröklast þaðan og enginn fengist í staðinn. Mjer er að minsta kosti kunnugt um eitt slíkt býli í Vestur-Húnavatnssýslu. Það getur því farið svo, ef ekki verður þegar á næstu árum hafist handa með að styrkja menn til endurbygginga í sveitum, að meira og minna af þeim býlum, þar sem þessi voðaveiki hefir lagst að, leggist algerlega í auðn. Það ætti fyrst og fremst að styrkja til að endurbyggja á þeim jörðum, sem svo er ástatt um, því að það er tvöfaldur hagnaður, sem af því verður. Það er fyrst og fremst síður hætt við, að þeir menn, sem fá góð húsakynni til þess að búa í, þurfi að verða upp á almenna hjálp komnir vegna veikinda, og að öðru leyti sá almenni hagnaður, sem endurbygging hefir í för með sjer. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en vil að endingu taka fram, að jeg tel málinu mjög vel á stað hrundið með frv. þessu.