29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Það er nú farið að líða að því, að eldi aftur, og jeg skal heldur ekki tefja umr. lengi. En jeg ætla að leyfa mjer að bera fram þrjár fyrirspurnir til hæstv. stjórnar.

Fyrst vil jeg þá minnast á það, að á síðasta þingi bar fjvn. Nd. fram till. um að lækka það, sem kallað er „annar kostnaður“ við hæstarjett, en það er sú þóknun, sem gengið hefir til hæstarjettarritara. Í áliti nefndarinnar segir svo:

„Samkvæmt lögum nr. 37, 4. júní 1924, um breyting á lögum um hæstarjett, er ákveðið, að þóknun til hæstarjettarritara skuli ákveðin í fjárlögum. Nefndin hefir borið sig saman við stjórnina um hetta atriði og orðið ásátt um, að þóknun þessi sje hæfilega ákveðin 2500 kr. á ári“.

Þessi till. nefndarinnar var samþykt og tekin upp í fjárlögin. Samkvæmt því hefði hún átt að koma til framkvæmda um síðastl. áramót. Jeg hefi nú kynt mjer, hver muni hafa orðið raunin á um þetta. Og samkv. þeim upplýsingum, sem jeg hefi fengið, hefir þetta ákvæði ekki verið framkvæmt það sem af er þessu ári. Í stað 2500 kr. árlegrar þóknunar hafa hæstarjettarritara verið greidd laun síðan á nýári sem svara til 6300 kr. árslauna. Nú vil jeg spyrja: Hverju sætir, að ákvæði síðasta þings um þetta efni eru að vettugi virt?

Í öðru lagi vil jeg spyrja um það, hvort það er rjett, sem heyrst hefir, að ríkisstjórnin hafi á þessum vetri varið 10 þús. kr. til atvinnubóta í Reykjavík, og jafnframt hvort nokkur hæfa sje fyrir því, að einn af þingmönnum jafnaðarmanna hafi fengið að ráða því, hverjum hlotnaðist sú vinna, sem veitt var fyrir þessa peninga.

Þriðja fyrirspurnin er borin fram vegna þess, sem heyrst hefir um það að starfsmannahald ríkisins hafi talsvert aukist, síðan stjórnin kom til valda. Jeg veit ekki, hve mikil þessi aukning er og hvort hún á að vera til frambúðar eða hvort hún er aðeins til bráðabirgða. Jeg hefi ekki orðið þess var í fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir árið 1929, að þar sje gert ráð fyrir launagreiðslum handa þessari aukningu á starfsmannaliðinu. En jeg vildi gjarnan fá upplýsingar um þær ráðstafanir, sem stjórnin hefir gert um þessa starfsmannafjölgun, og hvernig henni er háttað og hvað hún kostar, því að mjer er ekki kunnugt um, að leitað hafi verið álits þingsins um þetta.

Þó að ástæða væri til þess að minnast á fleiri athafnir stjórnarinnar, ætla jeg ekki að gera það, enda búið að drepa á margt af því, sem á dagana hefir drifið síðan stjórnin komst til valda. En það er eitt atriði, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., sem jeg þykist ekki komast hjá að minnast á. Það var þegar hann talaði áðan um gengismálið, þá var svo að skilja á honum, að hann áliti, að stjórnin hefði heimild til að taka upp á ríkissjóðinn eitthvað af því fjárhagstjóni, sem bankarnir kynnu að bíða af því að halda genginu föstu. Og hann bar það fyrir sig, að svo hefði fyrv. stjórn litið á málið 1925. En jeg vil benda hæstv. ráðh. á það, að síðan 1925 hefir verið gerð samþykt um þetta hjer á þingi. Það var á þinginu 1926, að það mál var afgreitt með rökstuddri dagskrá þess efnis, að stjórnin hefði enga heimild til þess að setja fje ríkissjóðs í neina hættu vegna breytingar á genginu.

Til enn frekari sönnunar því, að þetta var vilji þingsins þá, má benda á það, að það voru þá bornar fram tvær dagskrártillögur í málinu. Önnur var frá fjhn. og heimilaði stjórninni að verja fje til að halda genginu föstu. Í hinni var skorað á stjórnina, gengisnefndina og bankana að halda genginu stöðugu án þess að setja þó neitt af fje ríkissjóðs í hættu þess vegna. Sú dagskrártill. var samþykt, og með því hefir þingið látið ótvírætt í ljós vilja sinn í þessu máli. Stjórnin getur því ekki stuðst við fyrri samþyktir, ef hún ætlar að verja fje úr ríkissjóði til gengisfestingar.

Þá skal jeg nú ekki lengja mál mitt meira, en vil að endingu aðeins drepa á eitt atriði, sem þeim hefir farið á milli hæstv. forsrh. og háttv. 1. þm. Skagf. (MG). Hv. 1. þm. Skagf. líkti hæstv. forsrh. við rómverskt goð, sem hafði tvö andlit, og horfði annað fram, en hitt aftur. Mjer skildist, að hv. þm. drægi út úr þessu samlíkingu um fjöllyndi hæstv. forsrh. í stjórnmálum, og notaði hana til að sýna, hver árekstur væri orðinn milli þess, sem hann hjelt fram áður en hann varð ráðherra, og hins, sem hann framkvæmir nú eða lætur vera að framkvæma. Hæstv. forsrh. tók þessari samlíkingu með miklum fögnuði og taldi, að í eiginleikum þessa goðs lægi önnur þýðing en hv. 1. þm. Skagf. vildi vera láta, og ættu þeir að tákna hinn gerhugula mann, sem skoðaði alt niður í kjölinn áður en til framkvæmda kæmi.

Hæstv. forsrh. tók fegins hendi við þessari samlíkingu. Það er líkast því, sem hæstv. forsrh. hafi síðustu klukkutímana verið drukkinn af þessari líkingu, ekki víndrukkinn, því að við eigum það sameiginlegt að drekka ekki vín, heldur gleðidrukkinn. En jeg hygg, að þegar hæstv. ráðh. fer að athuga þetta nánar, muni hann komast að raun um það, sem allir vita í þessum sal, að hafi líkingin verið valin í þessari merkingu, þá eru það alls ekki nein veruleg „kompliment“ fyrir hæstv. forsrh.