16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Jón Ólafsson):

Það er ekki ástæða til að fara um þetta frv. mörgum orðum að þessu sinni. Nefndin hefir orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed. Þetta mál mun væntanlega innan skamms verða afgr. frá þinginu sem lög, og er óhætt að fullyrða, að það sje eitt af hinum allra merkustu þingmálum á síðustu árum. Það er sjerstaklega merkilegt fyrir það, að það gefur nú í fyrsta sinn von um, að ofurlítið rætist úr um það að byggja upp þau býli í landinu, sem áður hafa verið svo illa húsuð, að líkari hafa verið dýrabústöðum en manna. Þetta er fyrsta alvarlega sporið í þá átt, og má gera sjer von um, að það hamli eitthvað móti því, að fólk flýi framvegis þau býli, sem lífvænleg eru, en sem eigendur hafa ekki haft í fullu trje með að húsa svo viðunandi væri.

Einnig er frv. merkilegt að því leyti, að með því er stigið fyrsta sporið til þess að fjölga sjálfstæðum býlum í landinu. Þeir, sem til þekkja uppi til sveita, eru farnir að sjá, að með aukinni jarðrækt muni reka að því, að skifta beri ýmsum stórum jörðum í fleiri býli, sem geti þó verið mjög lífvænleg. 4. gr. gerir eindregið ráð fyrir, að slík býli sitji. fyrir lánum til húsagerða.

Það þarf ekki að líta langt til baka til þess að sjá, að útstreymi fólks úr landinu var um eitt skeið að verða blóðinni vandræðaefni. Það var raunalegt að sjá fólkið flykkjast úr landi vegna þess að engin skilyrði voru til þess, að það gæti fengið viðunandi býli. Úr þessu hefir mikið raknað á síðustu árum með því að stofnaðir hafa verið stórir kaupstaðir með nýtísku bjargræðisvegum. En það er eins og kominn sje ofvöxtur í kaupstaðina og þeir geti ekki haldið áfram lengur að gefa fólkinu aðstöðu til að mynda sjálfstæð heimili. Í því liggur framtíð þjóðarinnar að mjög miklu leyti, að einstaklingar hennar hafi skilyrði til að halda tilverunni áfram á þeim slóðum, sem þeir eru bornir og barnfæddir, og jafnvel hverfi frá kaupstöðunum og fengju sjer jarðnæði í sveit, þar sem hægt er að reka sjálfstæðan atvinnuveg.

Í 3. lagi er frv. merkilegt sökum þess, að það er fyrsta verulega sporið í þá átt að leggja landbúnaðinum peninga, sem telja megi með viðunandi kjörum, eftir því sem kostur er á. Það má segja um þetta frv., að það bindur þjóðfjelaginu óþægilegan útgjaldabagga. En það er svo um allar byrðar, sem þjóðflelagið tekur á sig í þeim tilgangi að hjálpa einstaklingum fram til velmegunar, en sje með gætni að farið, er það eins víst eins og 2 og 2 eru 4. að það fje skilar sjer á sínum tíma í auknum þjóðarauði, sem að sjálfsögðu skilar afraki í ríkisslóð.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um frv. sjálft. Undirbúningur þess er bæði mikill góður, því að drættir að þessu frv. hafa komið fram í ýmsum myndum á nokkrum undanförnum þingum og síðan hefir málið fengið undirbúning í milliþinganefnd og ennfremur hiá ríkisstjórninni. En það má, nú samt um þetta mál segja frá almennu sjónarmiði, eins og um öll önnur mál, að skoðanir manna um það verði eins margar eins og augun eru.

Þótt einhverjum hafi sýnst, að eitthvað hefði mátt vera öðruvísi eða orðað á annan hátt, hefir nefndinni ekki þótt það næg ástæða til þess að breyta frv. frá því, sem það er. Jeg skal t. d. nefna eitt atriði, sem snýr að 6. gr. frv. sumum hefir ekki þótt fyllilega ákveðið hámark þeirra lána, sem veita skal til endurbyggingar sveitabýla. En nefndinni þótti ekki ástæða til að þessu sinni að kveða nánar á um hámarkið, einkum vegna þess, að þegar á það er litið, að slík starfsemi er hjer á byrjunarstigi, og því varla líkindi til, að svo hranalega verði af stað farið, að hætta muni af þessu stafa.

Jeg held líka, að mjer sje óhætt að fullyrða, að engri af okkar nágrannaþjóðum hafi hingað til tekist að ganga svo frá slíkri löggjöf í upphafi, að ekki hafi orðið í ýmsu ábótavant. Hefir reynslan orðið sú, að ýmsum ákvæðum slíkra laga hefir verið breytt frá ári til árs, eftir þeim kröfum, sem fram hafa komið og virst hafa verið bygðar á skynsamlegum rökum. Þess vegna hefir nefndinni ekki þótt ástæða til að amast við þessu nú í upphafi og ætlar reynslunni sjálfri að skera úr um það, hvað betur megi fara.

Sama máli er og að gegna um ákvæði 9. gr. um forkaupsrjettinn. Þau ákvæði verð jeg að telja fremur lítils virði, þó að sumir nefndarmenn litu öðrum augum á. Þær hömlur, sem lagðar hafa verið á menn í þessu efni, hafa reynst ómögulegar í framkvæmdinni, því auðvelt hefir ætíð orðið að fara á bak við slík ákvæði fyrir þá, sem á annað borð hafa viljað gera það. Þetta getur þó ekki talist skemd á frv., þó það frá mínu sjónarmiði sjeð verði að teljast lítils virði eða jafnvel þýðingarlaust.

Þá er það 11. gr., eða ákvæði hennar um byggingarfróðan mann, sem hafi eftirlit með þeim byggingum, er sjóðurinn lánar fje til. Sumir líta svo á, að nauðsynlegt sje að hafa fleiri byggingarfróða menn, sem sjóðstjórnin gæti gripið til, þegar henni þætti þörf á. En það virðist óþarft að setja lög um slíkt, enda óhætt að treysta því, ef sjóðstjórnin hefir yfir nógu fje að ráða, að hana muni ekki skorta byggingarfróða menn til þess að hafa hönd í bagga með þeim framkvæmdum, sem hún lánar fje til.

Eins og sjá má af nál. á þskj. 425 og þessum smáathugasemdum, er jeg hefi nú minst á, leggur nefndin til, að hv. deild samþykki frv. óbreytt eins og það kom frá hv. Ed.

Það er liðið svo á þingtímann, að smávægilegar breytingar á frv., sem enga praktiska þýðingu hafa, gætu orðið þess valdandi, að frv. kæmist ekki fram að þessu sinni. Nefndin vill ekki á neinn hátt tefja málið, heldur óskar hún þess og væntir líka, að hv. deild greiði sem best fyrir því, svo að þetta merkilega mál verði afgreitt sem lög á þessu þingi.