16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hv. nefndar, hvort hún gæti ekki tekið inn í 3. gr. frv. sem skilyrði fyrir lánveitingu úr sjóðnum, að viðkomandi maður sannaði, að hann kynni til allra jarðyrkjustarfa. Tel jeg þetta sjálfsagt, ekki síst vegna þeirra manna, sem ætla sjer að byggja nýbýli og rækta upp land, að þeir kynnu til nauðsynlegra jarðyrkjustarfa, og álít jeg þá, að þetta ákvæði ætti að verða b.-liður 3. gr. II.

Að lokum vil jeg þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu þessa máls, og þó sjerstaklega hv. frsm. hennar fyrir það mikla víðsýni, er hann hefir sýnt í þessu máli sem öðrum landbúnaðarmálum, og það því fremur, sem þennan mann má skoða sem fulltrúa stórútgerðarinnar og kaupstaðanna hjer á þingi. Vil jeg fyllilega taka undir með hæstv. forsrh. og færi hv. frsm. hinar bestu þakkir fyrir hönd mína og annara bænda.