29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil ekki láta hjá líða að svara fyrirspurn hv. þm. Borgf. (PO). Hann spurði að því, hvort stjórnin hefði veitt 10 þús. kr. til atvinnubóta í Reykjavík. Því er til að svara að í fyrra vetur rjeðist fyrv. stjórn í atvinnubætur í sambandi við atvinnuleysið, sem þá var í bænum. Í vetur bárust mjer skýrslur yfir atvinnulausa menn, og vegna fordæmis þess. Sem fyrverandi stjórn gaf, var ráðist í sömu framkvæmdir. Til þeirra var veitt ákveðin upphæð, sem nemur ca. 1/3 af kostnaðinum í fyrra. (PO: 10 þús. kr.?). Já, fram úr því fer það ekki, því að vinnan er ákvæðisvinna.

Vegamálastjóri var með í ráðum um það, sem unnið var, en hitt var ákveðið í samráði við einn fátækrafulltrúa bæjarins, hv. 4. þm. Reykv. (SÁÓ), hverjir nutu vinnunnar. Jeg held því, að hjer hafi það eitt verið gert, sem full nauðsyn var á, og þannig, að allir ættu að geta verið ánægðir. Verkið, sem unnið var, þurfti að leysa af hendi og fátækir, atvinnulausir menn fengu vinnu við það.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um það, hvort heimild hafi verið til þessara framkvæmda eða ekki. Jeg vil aðeins benda hv. þm. Borgf. á það, að hafi fyrverandi stjórn haft vald til að ráðast í atvinnubætur, hefir núv. stjórn það engu síður. Hann verður að sætta sig við, að það er stjórn úr hans flokki, sem gefið hefir fordæmi í þessu efni. Og eigi að hasta steini, hlýtur hann að lenda á fyrv. stjórn.

Hv. þm. fór inn á goðafræðina. Jeg skal nú játa, að það er langt síðan jeg las mína goðafræði og jeg er farinn að gleyma sumu í henni, en svo mikið man jeg, að líkinguna um Janus er ekki hægt að skilja á annan veg en jeg gerði, og því var von, að mjer brygði í brún að fá slík „kompliment“ frá andstæðing mínum og kynni honum þakkir fyrir hólið.